Skólablogg Togga 2003
Dagbók Þorgeirs frá Leiklistarskóla BÍL 2003. Endurbirt af varrius.blogspot.com. 14/6 15/6 16/6 17/6 18/6 19/6 20/6 21/6 22/614/6 2003
Dagur 1Dalurinn heilsaði okkur með gróðrarskúr í gærkvöldi og morgun. Af óvenjulegri undanlátssemi við veðurguðina var morgunleikfimi sleppt og vaðið beint í skólasetningu sem var á hefðbundnum nótum með tilbrigðum þó, nokkuð sem einkennir reyndar skólann allan.Síðan hófst vinnan. Morguninn fór í það hjá okkur leikstjórnarnemunum að fara yfir það sem á daga okkar hefur drifið síðan síðast, og hvernig námið hefur nýst okkur í lífi og leik. Tímafrekar umræður, en gagnlegar og skemmtilegar. Þó fátt hafi verið um nýjar fréttir fyrir mig, sem alltaf er með nefið oní hvers manns kirnu, þá er gaman að fá svona heildarmynd, sérstaklega þegar hún er jafn "flatterandi" og raun bar vitni. Ótrúlega margir höfðu afrekað ótrúlega margt, og áberandi hvað nýsköpun og frumleg hugsun einkennir þetta lið. Hvað get ég sagt, við erum flottust!Eftir skipulagsfund og hádegismat, og smá chill í sólinni sem nú er farin að skína að vanda, hófst vinnan fyrir alvöru. Og ég var fyrstur út í djúpu lögina með Hörð, Herdísi, Gunnhildi og mitt Víxluvottorð. Þetta Masterclass form sem er á námskeiðinu að þessu sinni er afar krefjandi, ekki síst fyrir þá sem eiga að vera passífir í það og það skiptið. Nokkurs óþols gætti til að byrja með, en Gunnar Björn, leiklistarstjarna úr Hafnarfirði, kom með þá uppástungu að áhorfendur fengju á einhverjum tímapunkti að gefa input. Við prófuðum það, og þetta reyndist góð hugmynd. Sjálfum fannst mér mjög gaman að vinna senuna, þó óneitanlega hafi það áhrif á mann að vera undir smásjá. Sigrún V. er vitaskuld eins og fiskur í vatni í þessu formi, veit hvenær á að tala og hvenær ekki, og ýtir ekki á eftir hugmyndum sínum ef leikstjórinn vill ekki nýta sér þær.Heilt yfir held ég að þetta sé að virka og bíð óþreyjufullur eftir að prófa hlutverk áhorfandans (sem verður í fyrramálið þegar Hrund Ólafs tekur til við Glerdýrin) og leikarans (eftir hádegi, þegar Freyr Antonsson ræðst til atlögu við Þrek og tár með Varríus í hlutverki Áka Hansen).Og nú er komið kvöld í dalnum, rólegt kvöld þar sem það eitt er á dagskránni að Hafnfirðingarnir sýna vídeó af sínum frumlegu og merku sýningu frá því í vetur, Sölku miðli og Þið eruð hérna. Sjálfur ætla ég að rjúka á kjörstað á Leiklistpúnkturis og velja leiksýningu ársins fyrir Grímuna. Frábært að þessi kosning sé á vebbnum okkar!Þetta er Varríus sem bloggar úr dalnum fagra.15/6 2003
Dagur 2Súperveður í allan dag. Það teygðist á gærkveldinu með kjaftagangi og söng, en í morgun var rokið upp fyrir allar aldir og gerð leikfimi, reyndar án Ástu/Hörpu, en Sigrún stóð sig með prýði í þeirra stað. Síðan var gengið til vinnu. Við fylgdumst með Hrund glíma við Glerdýr Tennessee Williams og útkoman var nokkuð skemmtileg. Síðan tók Freyr við með Þrek og tár og ég lék Áka Hansen af mikilli íþrótt fram eftir degi. Þetta var afar lærdómsríkt alltsaman, og ég hlakka til framhaldsins. Eftir stutta æfingu á Vindsórkonunum kátu hófust Bandaleikarnir, hin árlega íþróttakeppni Júlla Júll. Hún var snilld að vanda, þó ekki tækist mínu liði að sigra að þessu sinni. En mikið var gaman að halda flass-þemanu okkar út í þriggja tíma spuna. Allt varð okkur að klámi, og mig grunar að við eigum eftir að vera hið mótandi afl í móral þessa skólaárs, for better or worse.Já, og að lokum er hér er ein súrrealísk atómhæka. byggt á sannsögulegum viðburðum, sem sýnir hversu ótrúlegur staður þessi skóli er:Í Íþróttasalnumsitur Sjávarspendýr
og spilar á banjó.
16/6 2003
Dagur 3Hið Svarfdælska tímasyndróm er farið að gera vart við sig. Það felst í því að fyrri hluta vikunnar finnst manni tíminn líða svo hægt, setningar á borð við "Í alvöru? er bara mánudagur?" hljóma innan um gargið í Kríunum og kveinið í Jaðrakan. Svo snýst þetta við á fimmtudaginn og tíminn þýtur áfram eins og hann hafi æðiber í rassinum.En allt um það, í dag var rosagaman. Freyr hélt áfram með Þrek og tár í morgun og gekk vel. Niðurstaðan var bara nokkuð góð, og gaman að máta sínar hugmyndir við það sem hann valdi að gera. Vitaskuld er það á alla lund hvort maður er sammála eður ei. Síðan var tekið til við Tíu tilbrigði í leikstjórn Gunnars Bjarnar, leiklistarstjörnu úr Hafnarfirði. Gunnar hafði látið leikritið fara nokkuð í taugarnar á sér á undirbúningstímanum, hélt til að mynda yfir mér fyrirlestur á Ísafirði um íslenska absúrdleikritahefð. Þann mónólóg vildi ég gjarnan vilja að fleiri sæju, enda Gunni einn fyndnasti maður í heimi. Það er engin leið að gera grein fyrir innihaldi hans, en þar kom Guðrún Gísladóttir nokkuð við sögu, gegnsæir veggir og ótæpileg nekt. Ég hló eins og skrýmsli, og ekki síður þegar margnefndur Gunnar útlistaði fyrir okkur einstakan og groddalegan sminkstíl eins félaga síns í hádeginu í dag.En þetta var nú útúrdúr. Vinnubrögð Gunnars voru um margt áhugaverð og gaman að máta þau við sín. Leikararnir hans (Sævar, Sessý og hin óviðjafnanlega Unnurgutt) voru afar gefandi og spunasena um píanókaup tónskáldsins í verkinu var með því fyndnara sem sést hefur þetta skólaárið, aðallega vegna þess að Júlli og Freyr byggðu sína vinnu í spunanum á þeirri staðreynd að hvorugur þeirra veit Jackshit um píanó. Skólabókardæmi um það hvernig veikleikum er snúið upp í styrkleika.Í hádeginu funduðu skólastýrur síðan með kennurum og skipulögðu lokadaginn. Hann verður með svipuðu sniði og síðast, höfundarnir skrifa örleikrit og leikstjórarnir sviðsetja þau með öllum tiltækum mannafla eftir hádegi á laugardaginn. Það verður án efa snilld, eins og alltaf. Annað sem gert var í hádeginu var að hefja skipulag 17. júní-hátíðahaldanna, en skólastýrurnar eru þær einu sem hafa enn sæmilega glögga sýn á framvindu tímans og fullyrða að þjóðhátíðardagurinn sé á morgun. Við Bjössi Thor hóuðum saman litlum kammerkór sem mun syngja ættjarðarlög í fyrramálið í morgunleikfimistað. Einnig mun fjallkonan ávarpa liðið og trúlega förum við í skrúðgöngu um bílaplanið. Kórinn æfði síðan í kvöld og er pottþéttari en andskotinn (ekki klár á hvað þessi brandari þýðir, meira síðar)En áfram með vinnuna. Að fjöldamorðingjum Gunnars Björns gengnum var vaðið í Vindsórkonurnar kátu. Hörður Sig. reyndi eins og hann gat að sannfæra viðstadda um að þetta væri leiðinlegt leikrit, en lenti síðan í því að vinna senu sem jafnt og þétt afhjúpaði kómíska möguleika sem hann er hreinlega of góður leikstjóri til að hundsa til lengdar. Verulega gaman, mikið hlegið og langt komist með þá flóknu senu sem hann valdi. Við syndguðum síðan upp á náðina og unnum áfram eftir kvöldmat. Vinnusamari leikstjóranámskeiðhópur hefur ekki sést hér í dalnum, allavega ekki síðan á dögum Bakkabræðra (það er orðið svo framorðið að ég skil ekki einusinni þennan brandara sjálfur).En lífið er þrátt fyrir allt ekki tóm vinna. Í kvöld var Gríman og að sjálfsögðu horfðum við á. Lesendur Varríusar geta rétt ímyndað sér gleðina sem braust út þegar Sellófón var valið vinsælasta sýningin eftir netkosningu á Leiklistpúnkturis. Ágústa var fyrir vikið knúskysst sem aldrei fyrr, og lét sér vel líka, enda enginn hálfviti.Um margt (flest reyndar) var þetta hreint alveg stórvel heppnað, og gaman hvernig sjálfstæði geirinn sópaði til sín verðlaunum. Til hamingju Felix!!!!!!!! Kvetch Rúlar!Tvennt skyggði þó á gleði okkar amatöra:1. Hvaða dónaskapur var það að nefna ekki hvar netkosningin fór fram, sérstaklega þar sem Hörður og leiklistarvefurinn björguðu málunum á síðustu stundu og forðuðu Grímunni frá að byrja með bömmer? Skamm!2. Eins og Sveinn Einarsson er nú vel að fyrstu heiðursverðlaununum kominn (til hamingju Sveinn, gott kvæði, og frábær hugmynd að þakka svona fyrir sig!) þá lyftust nú augabrúnir okkar hugleiksmanna þegar þulurinn lýsti honum sem manninum sem einn íslenskra leikskálda vinnur með íslenskan bókmennta- og menningararf í skrifum sínum. Fyrirgefiði orðbragðið, en What the Fuck!???? Eru þetta heimska, þröngsýni, eða fordómar? Ljótur blettur á fallegum verðlaunagrip.En nú er dagurinn að verða búinn, og sá næsti byrjar með söng. Best að fara að lúlla.17/6 2003
Dagur 4Eða réttara sagt:Hæ hó, jibbíjei!Það er kominn sautjándi júní!Hátíðahöldin voru með hefðbundnu sniði hér að húsabakka. Formaður hátíðarnefndar sendi fólk í skrúðgöngu undir vaskri forgöngu Lúðrasveitar Bandalags íslenskra leikfélaga. Þar sungu menn, að sjálfsögðu:Upp rísi Jóðlíf
og skip austur í sveit!Að skrúðgöngunni genginni flutti Sigríður Karlsdóttir ávarp fjallkonunnar. Var notast við þjóðhátíðarljóð Sævars Sigurgeirsonar. Að því loknu söng Þjóðhátíðarkór Bandalags íslenskra leikfélaga tvö lög, og er ekki laust við að tár hafi blikað á hvörmum að því loknu. Enda hafa fjöllin í dalnum þau áhrif meðal annara að manni finnst maður vera staddur á Íslandi fyrir alvöru - og þar með verður þjóðhátíðardagurinn sem því nemur áhrifameiri.Og svo vinna! Brúðuheimili Ibsens var viðfangsefni fyrri hluta dagsins, og var náttúrulega snilld. Sessý var með skýra hugsun og margt var ansi magnað hjá leikurunum hennar. Bjarney, sem glímdi við Nóru, þurfti síðan snarlega að bregða sér í hlutverk leikstjórans og stjórnaði ansi hreint áhugaverðri vinnu með Rummung ræningja. Góður dagur og mikið lært.Kvöldvakan nálgast óðum og mikið gengur á við undirbúning einstakra atriða. Við sem vorum viðloðandi Undir hamrinum æfðum þrjú lög til að syngja, og við Siggalára fórum gegnum okkar syrpu. Og núna er klukkan ótrúlega framorðin og tímabært að fara að sofa.Þar sem skólablogg þetta er komið með link á leiklistpunkturis vil ég segja þetta. Á kvöldin, eða snemma nóttu, þegar ég reyni að koma deginum fyrir mig fyrir framan tölvuskjá, þá fallast mér hendur. Hver dagur er þvílíkt uppfullur af ævintýralegum augnablikum, tilsvörum og sköpun að engin leið er að greypa það allt í stafrænt form. Hér er unnið svo mikið, skapað svo mikið, glaðst svo sterkt að það er vonlaust að miðla því. Þess vegna held ég mig við tiltölulega streit lýsingu á því hvað við leikstjóranemar erum að gera og smávegis úr félagslífinu. Það verður að duga, en dugir þó engan vegin. Sorrí, you had to be there!Á morgun er svo óvissuferð. Hvað það verður veit nú enginn.....
18/6 2003
Dagur 5Afsakið kæru lesendur að þessi dagur kom ekki inn í gærkveldi, en hið þráðlausa internetsamband Húsabakkaskóla er dyntótt, og virðist stjórnast af veðrinu.Og nú stend ég frammi fyrir því að þurfa að muna hvað gerðist í gær. Eða fyrradag eftir því hvernig á það er horft.Þennan dag var unnið með Mann í mislitum sokkum undir hendi Herdísar. Og Eðlisfræðingana hans Sævars. Bæði komust þau ansi langt með senur sínar. Trúlega er mynstrið það að eftir því sem líður á námskeiðið því lengra komast leikstjórarnir í vinnu sinni. Margt eftirminnilegt, t.d. makalaus spuni sem Sævar lagði upp til að innprenta leikurum sínum eðlisfræðilega hugsun. Og hinn dásamlegi ímyndunarveiki Dóri í mislitu sokkunum, Hörður í sínum besta ham.Óvissuferð Júlíusar var síðan kvöldprógrammið. Það var intensíft mjög, þemað var að allir fengu úthlutað frægri manneskju sem þeir áttu að leika. Þetta fór misjafnlega í menn, en nokkur gullkorn hrutu, t.a.m:María Mey: "Guð er góður!"Móðir Theresa: "Where have all the motherfuckers gone?"Ókei, nóg af klámi í bili, þó klám sé reyndar gegnumgangandi í orðræðu skólans þetta árið, þökk sé flössurunum.Júlli hafði stráð óvæntum uppákomum um hátíðina alla. Þannig fékk Hrund að sjá leikrit eftir sig leikið í grillveislunni, og hinn óviðjafnanlegi þáttur Bara innihaldið sem Sævar skrifaði fyrir samkeppnina á leiklistpúnkturis var fluttur á kaffihúsi. Og það alveg stórkostlega! Heilt yfir fín óvissuferð. Og svo heim að sofa. Eða reyna að blogga. Og kjafta. Og syngja. og lifa.19/6 2003
Dagur 6Það er svo ótrúlegt, en ég var sannspár um það að fólk er ekki fyrr búið að undra sig á því hvað mikið sé eftir af skólanum, þegar það horfir furðu lostið í baksýnisspegilinn og veltir fyrir sér hvernig standi á því að endalokin nálgast.En dagurinn í dag er búinn að vera alger snilld. Það rignir reyndar, en það er logn og frekar hlýtt. Semsagt frekar óþjóðlegt veður. En skítt með það.Við byrjuðum á Tsjekhof. Unnur Gutt er "slaktaumaleikstjóri" (nýyrði) Sem er auðvitað hárrétt nálgun á hinar óviðjafnanlegu Þrjár systur. Við nutum þess að hella okkur út í tilfinningabrimið í lokaatriði meistarastykkis dr. Antons og Unnur var fyrst og fremst glöð. En við prófuðum margt og lærðum helling. Öll. Og nutum hverrar mínútu. Takk Unnur.Síðan slúttuðum við Vindsórkonunum sem var frestað vegna raddleysis aðalleikarans. Hann var komin með hljóð og hafði notað tímann til að læra textann. Margt helvíti gott og hefði maður ekki vitað það fyrr þá blasti það við að Hörður er leikstjóri. Góður, reyndar.Og svo aftur í Tsjekhov og síðan beint yfir í Brecht. Einhver hafði reyndar orð á því að það þætti líklega ýmsum stór biti að kyngja: Að leika frá níu til korter yfir sex, Shakespeare, Tsjekhov og Brecht.Ég naut þess að leika "Das böse kapitalistische Schweinehund" í Undantekningunni og reglunni hjá Höllu. Frábær texti til að leika, allavega fyrir mig sem finn mikið öryggi í vel mótuðum andstæðuþrungnum texta. Lagið sem ég samdi fyrir senuna er líka að virka fínt. Ég fílaði mig sumsé í botn, þvert á Brecht-fordómana.Massíf vinna dagsins vék síðan fyrir kvöldvökunni, sem var verulega vel heppnuð verð ég að segja. Atriðin voru öll skemmtileg, trúlega stendur uppúr í minni upplifun aldeilis óviðjafnanleg skopstæling á Rómeó og Júlíu flutt af leikhóp sem hét því frábæra nafni "The fucking Amateurs". En allt var reyndar frábært: Kalli syngur betur með hverju árinu, Hrefna fór á kostum í dálítið öðruvísi nálgun á Árshátíðinni hennar Tótu og lokanúmer Ágústuhópsins verður lengi í minnum haft.Og nú er nóg komið af bloggi í dag. Meira á morgun, ef Svarfaðardalsþokunni léttir af nettengingunni nógu lengi....20/6 2003
Dagur 7Mikill dagur og langur.Fyrst smáskammtur af Undantekningunni sem þótt ótrúlegt megi virðast var var mest gefandi hlutverkið að leika fyrir mig þetta árið. Síðan lokaverkið - Sólarferð og Júlli. Hann hafði valið partýsenu eina mikla og flókna til að vinna með og útgangspunkturinn var Teknótónlist, þannig að það var ekki laust við að aggressjónir færu á flug. En grúví sena og margt skemmtilegt að skoða og læra af.Eftir snarpan kvöldmat urðu síðan þau þáttaskil í sögu skólans að ný hefð skapaðist - illu heilli (nóg af þessu helvíti). Þá var sumsé háður knattspyrnuleikur milli leikara og leikstjóra. Það er skemmst frá því að segja að leikstjórarnir unnu verðskuldaðan sigur, tvö eitt. Herbragð þeirra var snarpur föflufundur fyrir leik, áhersla á fókus, ætlan og plaseringar í rýminu. Leikararnir voru að reyna að fara þetta á impúlsunum og gekk hvorki né rak, fyrir utan að Björn Thorarensen átti algeran stórleik í marki þeirra - en eins og allir vita þá þola leikstjórar ekki leikara sem fara alltaf í vörn þegar að þeim er sótt.Og svo beint af vellinum í afraksturvinnu. Hóparnir sýndu hverjum öðrum hvað gert hafið verið. Þetta var löng dagskrá, en margt djúsí. Lesinn var forvitnilegur kafli úr leikriti sem Hrefna hefur í smíðum, okkur tókst að græta fólk með Þremur systrum og 10 tilbrigði og Sólarferð virkuðu líka vel. Leikarahópurinn hennar Ágústu fór síðan á kostum í aldeilis magnaðri sýningu á nokkrum atriðum sem þau hafa skapað á sínu námskeiði. Og þvílík snilld! Allt frá makalaust áhrifamikilli harmrænni þjóðsögu frá Víetnam yfir í ólýsanlega fyndna graða akurhænu. Vá!Að því loknu var lokaverkefnum útdeilt. Ég fékk leikþáttinn Í atvinnuleit en get því miður ekki ljóstrað upp nafni höfundar, því við vitum bara um okkar höfund, en aðrir koma á óvart. Og fólk er víst að kíkja á bloggið héðan líka, sem ég skil reyndar ekki. Siggalára og Mosó-Móra (öðru nafni Vala) verða mínar leikkonur. Ég held að ég sé kominn með konsept, en það prófast allt á morgun. Djöfull hlakka ég til!!!!Og eins og svo oft áður var ekki allt búið enn. Hörður Sigurðarson hafði dundað við það síðustu daga að klippa saman heimildamynd um Bandaleikana úr efni því sem hann tók upp. Útkoman er algerlega frábær skemmtun. Nú er maður, eins og svo oft áður orðlaus.Lokadagur á morgun. Stærsti hátíðisdagur áhugaleikarans. Slítum blogginu að sinni.21/6 2003
Dagur 8Sjáið upptök sælla stunda,sjáið margan kraft og vilja
steypast fram sem straum í á
Lokadagur skólans byrjaði hjá okkur leikstjórnarnemum með rennslum á senunum sem við höfðum unnið með. Þetta ferli byrjaði reyndar kvöldið áður fyrir framan félaga okkar af hinum námskeiðinum, eins og áður var sagt. Ótrúlega margt af því sem lagt hafði verið upp skilaði sér í þessum rennslum, og þrátt fyrir hið mikla vinnuálag þá hafði undirvitund fólks greinilega haft tíma til að melta og dýpka það sem lagt hafði verið inn. Og hin óhjákvæmilegu klikk voru mörg hver afar skapandi og kveiktu hugmyndir að nýjum leiðum með senurnar. Rosagaman, og þar sem við náðum ekki að klára verðum við líka að vinna á sunnudagsmorguninn, eftir lokahófið sem á það til að dragast nokkuð fram á morgun. Stuð.En þótt þessi senurennsli hafi verið hin fróðlegustu og skemmtilegustu var ekki laust við að hugurinn væri við verkefni eftirmiðdagsins. Ég brunaði niður á Dalvík og verslaði leikmuni (Cheerios, súrmjólk, íssósu, dagblað og egg) og fór svo til fundar við leikkonurnar. Ég lagði fyrir þær konseptið og þar sem þeim leist vel á þá óðum við af stað í matsalnum sem var okkar leikhús. Hugmyndin byggði á slapstick-vinnu með mat og annað props og það var mikið hlegið þessa tvo og hálfan tíma sem við unnum. Stelpurnar voru frábærar og ég var heldur en ekki glaður með það semvið náðum að gera.Klukkan þrjú hófst svo leiklistarhátíðin Samviskustykki, en þema verkanna átti að vera Samviska og samviskubit. Tólf ný íslensk stuttverk litu dagsins ljós, á tólf ólíkum leiksviðum um allan Húsabakkaskóla. Og þvílík hátíð! Það var magnað að sjá hvað fólk hafði náð að gera, það hættir aldrei að koma á óvart. Hælætin eru trúlega of mörg til að fara að rekja þau - reyndar var allt svo vel heppnað að undrum sætti. Þátturinn minn (sem Hermann Guðmundsson hafði skrifað) var sá eini sem var leikinn tvisvar, og leiðirnar sem við Hörður fórum hefðu ekki getað verið ólíkari, stílfærður hnífabardagi hjá honum, matarleikhús dauðans hjá mér. Hvorttveggja virkaði.Tíminn milli leiklistarhátíðar og lokahófs var knappur, og fór í þrif á matsalnum, sjálfum sér og að hrósa og kyssa fólk. Ekki leiðinlegt það!Og hófst svo hófið. Dagskrá með hefðbundnu sniði, ýmsir tróðu upp, þar á meðal Þjóðhátíðarkórinn nýstofnaði, sem flutti þjóðsöng Svarfaðardals og grætti þannig gesti. Bekkirnir kvöddu kennarana sína og leystu þá út með gjöfum. Að formlegri dagskrá lokinni hélt gleðin áfram, örleikrit og spunar af ýmsu tagi spruttu upp, enda ekki búið að setja lok á sköpunarhverinn sem vall og bullaði (pun intended) hvar sem einn eða fleiri skólamenn komu saman.
22/6 2003
Dagur 9Eftir snarpan nætursvefn héldum við svo áfram að vinna, senurnar sem voru ófluttar voru teknar fyrir og tókust merkilega vel þrátt fyrir aðstæður. Síðan mátum við árangur námskeiðsins og virtist það almenn skoðun að þessi tilraun - að kenna leikstjórn með Master Class aðferð - hefði tekist, og einhverjir vildu reyndar meina að þetta væri í raun eina leiðin til að kenna þetta fag. Þetta gladdi mig mjög, enda hugmyndin að námskeiðinu ættuð frá okkur Huldu.Skólaslit voru hjartnæm að vanda og eftir hádegismat, þúsund kossa á færibandi og niðurpakk var brunað á vit veruleikans á ný.Þótt oss skilji hábrýnd heiðiheyrum vér á hverjum degi
hver í öðrum hjartað slá.