Sagnasafn Hugleiks

Lög félagsins

  1. gr.:

    Félagið heitir Hugleikur.

  2. gr.:

    Tilgangur félagsins er að efla og iðka leiklist meðal áhugafólks í Reykjavík og nágrenni.

  3. gr.:

    Tilgangi sínum hyggst félagið m.a. ná með því að æfa og sýna leikrit, standa fyrir námskeiðum í leiklist, vera aðili að samtökum og samstarfi áhugafólks um leiklist, bæði innanlands og utan og vera vettvangur hvers konar hópvinnu félagsmanna um leiklist.

    Frumkvæði að verkefni getur komið frá stjórn eða einstökum félögum. Gera skal fjárhagsáætlun og leita samþykkis stjórnar á henni og verkefninu.

    Verði verkefnið sýnt í nafni félagsins ber félagið allan kostnað af uppsetningunni, enda renni hugsanlegur hagnaður í sjóði félagsins. Stjórn og þátttakendur í einstaka verkefnum geta þó samið um annað ef sérstaklega stendur á, svo sem í tilefni af leikferðum. Í samstarfsverkefnum við önnur leikfélög eða stofnanir skal kostnaður og hagnaður skiptast eftir samkomulagi.

  4. gr.:

    Félagi getur sérhver orðið sem þess æskir. Það er félagsleg skylda að starfa með félaginu á einn eða annan hátt, sækja námskeið félagsins, sækja fundi félagsins og aðrar félagslegar uppákomur og á einhvern hátt sýna félaginu í verki velvild og stuðning. Aðalfundur ákveður félagsgjöld fyrir eitt leikár í senn. Fráfarandi stjórn skal bera fram tillögu að félagsgjöldum á hverjum aðalfundi.

    Félagsgjöld skulu aldrei nema minna en andvirði eins aðgöngumiða eins og það er á hverjum tíma. Skuldlausir félagsmenn hafa ókeypis aðgang að öllum sýningum og uppákomum félagsins og njóta afsláttar á námskeið sem haldin eru í nafni þess.

    Sé um samstarfsverkefni að ræða, eða sýningu þar sem grunnverð aðgöngumiða er hærra en félagsgjöld, er afsláttur til skuldlausra félagsmanna samkomulagsatriði milli félaga eða ákveðinn af stjórn.

    Aðeins skuldlausir félagsmenn, sem greitt hafa félagsgjöld yfirstandandi leikárs, hafa atkvæðisrétt á aðal- og framhaldsaðalfundi félagsins. Félagsgjaldið fylgir reikningsári félagsins.

    Heiðursfélagar eru undanþegnir félagsgjöldum.

    Úrsögn berist skriflega til formanns Hugleiks.

  5. gr.:

    Aðalfundur fer með æðsta vald í félaginu og skal haldinn eigi síðar en 1. júní. Halda skal framhaldsaðalfund eigi síðar en 1. október.

    Dagskrá aðalfundar:

    1. Kosning fundarstjóra og fundar ritara.
    2. Nýir félagar kynntir.
    3. Skýrsla formanns.
    4. Bráðabirgðaskýrsla gjaldkera.
    5. Skýrslur þeirra sem gegna embættum og sitja í ráðum á vegum félagsins.
    6. Afgreiðsla tillagna sem fundinum hafa borist, s.s. lagabreytinga o. fl.
    7. Starfsemi næsta leikárs.
    8. Tillaga fráfarandi stjórnar að félagsgjöldum næsta leikárs kynnt og borin undir atkvæði.
    9. Kosning stjórnar, varastjórnar, skoðunarmanna reikninga og varaskoðunarmanns reikninga.
    10. Önnur mál.

    Dagskrá framhaldsaðalfundar:

    1. Kosning fundarstjóra og fundar ritara.
    2. Skýrsla gjaldkera.
    3. Starfsemi leikársins.
    4. Önnur mál.

    Fundina skal boða bréflega eða með tölvupósti eigi síðar en 1 viku fyrir fund. Fundirnir eru lögmætir sé löglega til þeirra boðað.

    Aukafundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og ef 10 félagsmenn æskja þess skriflega.

    Afl atkvæða ræður úrslitum á fundum.

  6. gr.:

    Stjórn skipa 5 menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Þeir skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn, þannig að annað árið er kosinn formaður og einn stjórnarmanna, en næsta þrír stjórnarmenn. Formaður er kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum. Kosningar skulu bundnar við uppástungur. Stjórnarmann má ekki endurkjósa nema einu sinni.

    Varastjórn skipa 3 menn og eru kjörnir til eins árs í senn. Varamenn má endurkjósa einu sinni.

    Á aðalfundi skal og kjósa 2 skoðunarmenn reikninga og 1 til vara.

  7. gr.:

    Stjórnin fer með framkvæmdastjórn í félaginu milli aðalfunda. Skal hún kveða sér til aðstoðar aðra félaga eftir ástæðum hverju sinni.

    Hætti stjórnarmaður á miðju kjörtímabili tekur sá varamaður sem hlaut flest atkvæði á aðalfundi sæti hans. Hafi allir varamenn verið sjálfkjörnir er það í valdi stjórnar að velja varamann til setu í stjórn. Undir þessum kringumstæðum getur stjórn boðað til almenns félagsfundar þar sem kosinn er aukamaður í varastjórn í stað varamannsins sem fór inn í stjórn.

    Stjórnin skal færa reikninga félagsins og leggja þá endurskoðaða fyrir framhaldsaðalfund. Reikningsárið er frá 1. september til jafnlengdar næsta árs. Við gjaldkeraskipti sér fráfarandi gjaldkeri um gerð ársreiknings, í samráði við nýkjörinn gjaldkera. Við formannsskipti sér fráfarandi formaður um að skila styrkumsókn til Bandalags íslenskra leikfélaga fyrir hönd félagsins í samráði við nýkjörinn formann.

    Stjórn er skylt að hafa eftirlit með áhöldum og munum félagsins.

  8. gr.:

    Fé því sem félagið kemst yfir með starfsemi sinni eða eignast á annan hátt skal varið til greiðslu skulda félagsins og kostnaðar við starfsemi þess.

    Félagsmenn bera ábyrgð á skuldum félagsins umfram eignir, þó skal ábyrgð hvers og eins aldrei vera hærri en sem svarar tíföldu verði aðgöngumiða á hverjum tíma.

    Verði ágóði skal hann mynda sjóð til eflingar starfsemi félagsins. Sjóðurinn skal ávaxtaður í viðurkenndri bankastofnun.

  9. gr.:

    Tillaga um að leggja Leikfélagið Hugleik niður þarf að berast stjórn a.m.k. 3 vikum fyrir aðalfund og skal tillögunnar getið í aðalfundarboði. Félaginu verður ekki slitið nema 4/5 atkvæðisbærra fulltrúa á aðalfundi séu því samþykkir.

    Stjórn félagsins skal þó sitja áfram og boða til félagsfundar 4-5 mánuðum síðar þar sem ræða skal tillögur að ráðstöfun eigna félagsins. Í framhaldi skal stjórn félagsins þá boða til annars aðalfundar 4-5 mánuðum síðar þar sem slit félagsins og tillögur að ráðstöfun eigna verða borin undir fundinn. Sé þá aftur samþykkt með atkvæðum 4/5 atkvæðisbærra fulltrúa á aðalfundi að slíta félaginu skulu það heita lögleg félagsslit. Stjórn starfar þó áfram þar til eignum hefur verið ráðstafað.

  10. gr.:

    Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og séu 3/4 hlutar fundarmanna með breytingunni. Lagabreytingatillagna skal getið í fundarboði.

  11. gr.:

    Lög þessi öðlast gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau, jafnframt eru öll eldri lög og lagabreytingar úr gildi fallin.

Samþykkt m/breytingum á aðalfundi 27. maí 2024