Toggi, 23/6 2005 kl. 17:14:
Ljómandi að heyra að vel hafi tekist.
Aftur í dagbók
23/6 2005
Þetta fór allt á besta veg í gær. Um síðir tókst að koma upp nokkurn veginn nógu mörgum ljósum og útvega hátalara. Svo var márinn búinn til með kastaníuköku og lakkbrúsa og rölti brakandi af lakki með öllum hinum upp í Samkomuhús að sjá Litháana. Þeir voru býsna skemmtilegir, þó kannski ekki eins stílhreinir og maður hefði vænst úr þeirri átt.
Næst var svo fylgst með hinni hafnfirsku Dýragarðssögu og hlaupið út af uppklappinu eftir hana til að klappa hópinn saman fyrir fyrri Patataz-sýningu kvöldsins kl. 7.
Sýningin tókst prýðilega og viðtökur eins og best verður á kosið. Svo var bara hálftími til að undirbúa næstu sýningu og svo aftur á svið. Það var skrýtið að keyra af stað í þetta svona strax aftur, en engin ástæða til að kvarta yfir því, enda bar okkur saman um það að okkur hefði sjaldan eða aldrei tekist betur upp. Áhorfendur virtust vel sáttir, og nú á eftir fáum við að heyra hvað gagnrýnendunum fannst.
Eftir seinni sýninguna var svo leikmyndinni fleygt fram af svölum Ketilhússins, þar sem hún liggur nú í öreindum sínum. Að öllum frágangi loknum héldum við í hátíðarklúbbinn í Græna hattinum þar sem Gísli Björn stóð fyrir teatersporti. Þar var setið eins lengi og húsráðendur þoldu (eða lengur) og svo hver til síns heima að lúlla.
Nú í morgun er fólk mishresst, t.d. mun sviðsslagsmálasmiðja hafa fallið vegna mannfæðar (það þótti víst ekki forsvaranlegt að láta Hrund slást við sjálfa sig í þrjá tíma).
Sigurður H. Pálsson
23/6 2005