Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 9/10 2005

Siggalára, 9/10 2005 kl. 16:10:

Því má svo við bæta að þeir tveir höfundar/listrænustjórnendur sem viðstaddir voru, voru svo miður sín af hamingju yfir hæfileikafegurð og skemmtileikum leikhópsins að þeir komu við hjá þriðja höfundi í leiðinni heim, vart haldandi vatni af einskæru algleymi. Rauluðu upphafssöng við eldhúsborð fundahaldanna og tjáðu gleði sína.

Melkorka Sigurðardóttir, 9/10 2005 kl. 18:13:

Mætti kannski athuga að láta vænan vasaklút fylgja með hverjum miða ;) svona til öryggis.

Þetta öryggisráð var í boði Línu. ^_^

Toggi, 10/10 2005 kl. 01:59:

Nú er klukkan tvö og ég er búinn að ganga frá því handriti sem verður ljósritað í fyrramálið. Get samt ekki alveg farið að sofa, því adrenalín dagsins er enn á þönum innanímér.

Stundum er vitnað í rykföllnustu persónu Hugleix þegar manni líður svona. Berist fram eins blátt áfram og þurrlega og ónefnd kona les veðurfregnir í sjónvarpinu:

Nú finnst mér gaman.

Tóró i udlandet, 10/10 2005 kl. 10:39:

Ekki er laust við ákveðna löngun til að taka þátt í fjörinu, en það bíður betri tíma.

Stuðkveðjur.

Siggalára, 10/10 2005 kl. 12:15:

Handritið er í útprentun. Er búið að kynda talsvert undir brennandi tilfinningum mínum til Bill Gates í morgun. En, er núna að renna út úr prentaranum, heimtar reyndar að maður ýti á starttakkann eftir hverja blaðsíðu, þannig að þetta eru íþróttir. (Hvers vegna? Tjah, mér er skapi næst að skella skuld á undarlega kímnigáfu áðurnefnds Gates...)

En haldið ykkur nú fast. Handrit er komið í 63 síður, utan óperu og lokaatriðis!

Aftur í dagbók


9/10 2005

Fyrsta almenna tónlistaræfingin fór fram í dag upp úr hádegi og góður slatti af leikhópnum gerði sér för vestur í EyjaRslóðina. Þó örlaði á talsverðri karlmannseklu eins og á fyrri æfingum. Undirritaðri tókst að sofa yfir sig og mæta skömmustuleg korteri of sein inn í miðjan boltaleik. Þegar mannskapurinn var orðinn vel upphitaður var röðin komin að raddböndunum og þau velgd með hressilegri sálumessu og vikivaka.

Það bar þó helst til tíðinda að upphafssöngurinn er mættur í allri sinni dýrð og verður hinn jólalegasti. Þrátt fyrir yfirgengilegan hátíðleika framan af var þess ekki lengi að bíða að fjörlegir hugmyndir fóru að kræla á sér og stefnir í að stemningin verði afbyggð með glans.

Annars dúkkuðu upp alls kyns nótur og útsetningar við lögin og er það vel.

Um hálf þrjú var svo öllum sleppt nema harmatríóinu sem fékk að æfa sig á sorgarsöngnum mikla. Það skal kreistur fram síðasti dropinn úr jafnvel uppþornaðasta tárakirli í salnum - því treysti ég mér til að lofa.

Ásta Gísladóttir

9/10 2005