Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 1/11 2005

Júlía H., 3/11 2005 kl. 15:50:

Æ æ lambið mitt.
Þú ert sko enginn sauður!

Aftur í dagbók


1/11 2005

Eins og segir í The day after tomorrow og sennilega líka í Vetrarundur í Múmíndal:

Einhverntíman verður allt fryst.

Eða eitthvað. Allavega verður næsta hugleiksleikskrá sú fyrsta þar sem ég fæ kredit fyrir að vera módel. Var sumsé fenginn til að pósa fyrir Ingu Rósu svo hún geti teiknað sannfærandi mynd af reiðum nirfli að berja lítinn bæklaðan dreng með músastiga. Við ætlum jú að hafa plakatið jólalegt...

Svo æfðum við draug nútímajóla. Fríða verður æ klikaðri sem hin ástsjúka Sólveig, og ekki hækkar greindarstigið á henni Kapítólu. Aftur á móti verður Friðrik sífellt heillaðri af henni. Hún á svo góðan mann....

Ungmennafélagið er líka hin fegursta smíð. Núna æfðum við Óratóríuna Fjárhirðarnir eftir Heiðlaugu Svan. Einhvers misskilnings gætti um tíma og töldu menn að frk. Svan hefði óperu í smíðum en sem betur fer áttaði hún sig á hvað var passandi fyrir viðfangsefnið. Hefur einhver heyrt um Jólaóperu? Ja fyrir utan Amahl og næturgestina sem hvorki mér né Kára mági mínum finnst skemmtileg síðan við sveifluðum eltispottum í Langholtskirkju um árið og fengum andskotann ekkert borgað.

Mér fannst óratórían hennar Heiðlaugar bara nokkuð snotur, af amatör að vera. Og svo ætlar Hanna að búa til kind handa fjárhirðunum að passa. Ég var ekki beðinn að vera módel fyrir þá mynd. Samt kallaði Stína heitin frænka mín mig oft og iðulega sauðskepnu.

Er enn sár.

Þorgeir Tryggvason

1/11 2005