Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 2/8 2006

Ármann, 3/8 2006 kl. 19:13:

Æji ,afhverju kom ég ekki með...

Siggalára, 3/8 2006 kl. 19:57:

Er að fá nostalgíukast til Eistlands. Hvað er maður að bjánast við barneignir á NEATA-hátíðarári? Þetta er glatað skipulag. Kem til með að lesa þessa dagbók upp til agna og rífast og skammast ef dagur dettur úr!

Sævar, 4/8 2006 kl. 17:16:

Þú hafðir ENGAN tíma til að fara með Ármann! :) En það fer óneitanlega alltaf um mann fiðringur. Hvernig segir maður poj poj á færeysku?

Aftur í dagbók


2/8 2006

Kl. 6 að morgni var mættur samstilltur hópur Leikfélags Kópavogs og Hugleiks fólks á The International Airport í Vatnsmýrinni á leið til Færeyja á fjórðu NEATA hátíðina sem haldin er að þessu sinni í Þórshöfn í Færeyjum. Skemmtum okkur vel við lestur á Dimmalætting í flugvélinni og vorum lent í Vágar fyrr en varir. Flestir fengu sér danskar krónur í sjálftökunni á flugvellinum og eftir nokkur göng undir haf og lönd komum við til Þórshafnar. Hjálparinn okkar er gubbinn Jógvan E. Ósá sem hefur komið oft til Íslands og lék m.a. prestinn í kvikmyndinni Dansinum eftir Ágúst Guðmundsson.

Í miðstöð hátíðarinnar í Föroya Læraraskúli fengum við neongræna hátíðarboli, tilsniðnar upplýsingar og tilfæringar ýmsar við að raða öllum í kamra. Ljómandi aðbúnaður. Og góður matur!

Hópurinn skoðaði Tjóðpallinn þar sem við munum spæla Memento Mori næstkomandi laugardagskvöld. Teljum að vel muni fara um sýninguna í þessu nýja Þjóðleikhúsi Færeyinga. Lukum við að skipuleggja allt sem hægt var og þurfti og litum í kringum okkur í bænum. Við munum skemmta í hátíðarklúbbi hátíðarinnar annað kvöld og því brast á með ströngum söngæfingum. Okkur fannst gaman – veit ekki hvað verður með hina. Eftir kvöldmat komu svo bössarnir til að flytja okkur á opnunarhátíð í Norðurlandahúsinu. Og já – við kunnum nægilega dönsku til að hafa óskaplega gaman að því að ferðast með bössunum – þetta verður þemabrandari hátíðarinnar! Svo má alltaf taka sér hýruvogn til að komast á milli.

Opnunarhátíðin fór vel fram – stuttar og góðar ræður og ljómandi skemmtileg unglingasýning hjá Dramaverkstaðinu hennar Hjördísar Johansen sem margir kannast við því hún fékk leiklistarlegt uppeldi í Svarfaðardalunum á fyrstu árum skólans. Að lokinni glæsilegri móttöku í Norðurlandahúsinu lauk deginum í hátíðarklúbbnum eða hér og þar…

Hrefna Friðriksdóttir

2/8 2006