Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 3/8 2006

Ármann, 4/8 2006 kl. 16:15:

Góð norsk sýning? Étið mig nú alveg lifandi. Gott að Danirnir klikkuðu alla vega ekki, bæði langdregnir og leiðinlegir...

Siggalára, 4/8 2006 kl. 17:03:

Jú, segiði nú endilega frá því hverjir voru vakandi lengst og til hvers. Hefur t.d. einhver synt í maukinu?

Siggi, 5/8 2006 kl. 08:34:

Áköf lárperusósuleit stendur yfir. Höfnin þykir ekki góður kostur.

Júlía, 5/8 2006 kl. 08:56:

Hæ oll heima!
Nu skall loksins á hin týpíska, ad sögn, færeyska rigning. Annars hefur vedrid verid bara mjog gott, þó enginn hafi legid 'i sólbadi. Ég hitti Danútu í morgun og hún segist vera búin ad bída í 4 mánudi eftir ad sjá sýninguna okkar. Ég fékk léttar hjartsláttartruflanir. ´Ðstarkvedjur til ykkar allra. Muss og kramm.

Aftur í dagbók


3/8 2006

Ágætis byrjun

Fyrsti heili dagurinn að baki og ekki annað hægt en að vera glaður yfir afrakstri hans. Eftir morgunmat voru námskeið og fyrirlestrar af ýmsu tagi. Nokkur hluti íslenska hópsins fór á danstjáningarnámskeið sem látið var vel af en aðrir hlýddu á leikstjóra færeysks leikhóps sem við eigum enn eftir að sjá. Sá var nokkuð þungur á brún í byrjun því hann hafði ekki græna glóru um að auglýst hefði verið námskeið hjá honum heldur ætlaði aðeins að eiga létt spjall við fólk um sýninguna. Sá er þetta ritar hafði reyndar öðrum hnöppum að hneppa því morguninn fór í leit að nettengingu sem nokkrir Færeyingar höfðu svarið á gröf ömmu sinnar að væri hvergi að finna í grenndinni en var svo auðvitað í 20 metra fjarlægð frá skrifstofu hátíðarinnar. Einnig var ekið með Jógvan leiðsögumanni okkar í sandsöluna þar sem nokkrum kílóum af ljósum sandi var nappað til að nota í sýningunni okkar á laugardag.

Eftir hádegismat var haldið af stað í ógurlega skrúðgöngu niður í miðbæ. Skrýdd höttum og íslenskum fánum gengum við á eftir líflegri lúðrahljómsveit og eldgleypum í sannkölluðu þjóðhátíðarskapi. Heimamenn kunnu greinilega vel að meta framtakið og fylgdust með af áhuga. Skrúðgangan lauk för sinni á litlu torgi þar sem sýnd voru nokkur atriði. Þar á meðal söng íslenski hópurinn Bandalagssönginn auk þess sem Litháarnir rændu tveimur úr hópnum til að dansa með sér í þeirra atriði. Þá sungu allir færeyskt lag sem okkur hafði verið kennt og í lokin slepptu allir blöðrum sem svifu tignarlega yfir Þórshöfn.

Eftir stuttan stans á Café Natúr var komið að fyrstu sýningu dagsins sem Norðmenn fluttu. Væntingar voru blendnar hjá þeim sem upplifað norskar leiksýningar á hátíðum sem þessari en skemmst er frá að segja að Norsarinn kom okkur algerlega í opna skjöldu með stórskemmtilegri sýningu. Tveir leikarar sýndu stórgóða takta í hlutverki manna sem bíða refsingar í fangaklefa. Þeir stytta sér stundir með leikjum af ýmsu tagi og voru sumir þeirra algerlega frábærir. Sérstaklega var skákin sem þeir tefldu á afar óvenjulegu taflborðinu með einum hvítum riddara í yfirstærð ekkert nema tær snilld. Minnið úr Guðföðurnum sem brá fyrir var t.d. sérlega eftirminnilegt. Í það heila bráðskemmtileg sýning. Heja Norge!

Strax á eftir var röðin komin að Svíum og þó væntingarnar væru öllu meiri fyrir sýningu þeirra stóðu þeir fyllilega undir þeim. Látlaust drama um samband tveggja systra þar sem önnur hengir sig á hina meðan sú gerir ítrekaðar tilraunir til að komast burt. Látin móðir þeirra birtist einnig í afturhvarfi og brá ljósi á söguna. Afar sterkur leikur og skýr og vel hugsuð leikstjórn í eftirminnilegri sýningu.

Eftir kvöldmat var haldið í Norræna húsið þar sem Danir voru með síðustu sýningu dagsins. Skemmst er frá því að segja að Danir gerðu hér enn eina tilraunina til að drepa okkur úr leiðindum en þeim má þó segja til hróss að þeir hafa reyndar oft lagt sig meira fram í þeim tilgangi en nú. Níutíu mínútna dönsk heimsendaorgía sem náði einstaka sinnum að lifna en allt of sjaldan til að halda lífi í áhorfendum. Langar og ónauðsynlegar myrkvanir bættu auk þess ekki úr skák. Leikhópurinn var ungur og óreyndur að sjá en inn á milli voru þó ágætir kraftar.

Eftir þá dönsku var brunað niður í hátíðaklúbbinn þar sem við riðum á vaðið með skemmtiatriði. Flutt voru nokkur lög af kór sem stækkaði með hverju lagi og lauk á því að allur íslenski hópurinn söng Bandalagið. Framlag okkar virðist greinilega hafa náð til annarra hátíðargesta sem klöppuðu og stöppuðu með í lokin og þökkuðu fyrir sig eftir á með hástemmdum lýsingarorðum. Löngum degi var nú lokið hjá flestum en sumir voru upp við eitthvað lengur en ekki verður frekar frá því sagt hér.

Hörður Sigurðarson

3/8 2006