Siggalára, 6/8 2006 kl. 11:39:
Dúds, hvenær kemur skrif um aðaldaginn? Ég er að verða algjör forviti!
Siggi, 6/8 2006 kl. 12:20:
Færsla gærdagsins er í vinnslu, en kemur sennilega ekki inn fyrr en eftir sætsíingferð. Leyfi mér samt að upplýsa að það verður bjart yfir henni...
Aftur í dagbók
4/8 2006
Dagurinn byrjaði missnemma, að nokkru leyti en ekki öllu í samræmi við það hve lengi menn höfðu verið úti daginn áður. Einhverjir könnuðu workshop-úrvalið, en eins og við mátti búast var það heldur fátæklegt: Það gleymdist víst að segja hópunum að ætlast væri til þess að þeir og leikstjórar þeirra stæðu fyrir vinnusjoppu.

Hádegisverðurinn var jafnríkulegur og að vanda og að honum loknum var haldið á opið umræðutorg - s.s. krítíkfund - þar sem fjallað var um þrjár fyrstu sýningar hátíðarinnar. Krítíkerarnir eru þrír talsins, tveir innfæddir og einn Dani. Sá síðastnefndi var nokkuð skörulegur, hinir þóttu hafa heldur lítið til málanna að leggja.
Aðeins ein sýning var í boði þennan dag, frá Eistlandi. Tvær aðrar sýningar voru á upphaflega planinu, frá Grænlandi og Hvítarússlandi, en hvorugur hópurinn er hér, sá fyrri vegna fjárskorts en sá seinni vegna áritunarskorts. Eistneska sýningin var dansleikhús með lifandi tónlist, tveir dansleikarar og ellefu hljóðfæraleikarar. Mjög vel gert og margt um skemmtileg móment, ekki síst í samleik dansleikaranna og hljóðfæraleikaranna. Ekki er samt víst að allir hafi áttað sig nákvæmlega á þeim pælingum um „soul and soulness“ sem samkvæmt leikskrá lágu þarna að baki.

Það var almenn ánægja með það að Eistarnir voru svo gott sem leikmyndarlausir, þannig að tæknikrúið okkar gat rokið strax til sinna starfa. Eftir kvöldmat var svo kýlt á rennsli. Kannski ekki alveg nógu smurt, en við höfum fulla trú á að smurningin komi á morgun. Þá stendur til að taka textarennsli og kannski rúmlega það um morguninn. Það sem helst veldur áhyggjum er að Jógvan (eða Edda, eins og hann er gjarnan kallaður), tengiliðurinn okkar, sem fylgdist með rennslinu, mun hafa gengið beint í það að lofa okkur í hástert í eyru allra sem heyra vildu og vekja þar með væntingar sem erfitt gæti verið að standa undir - sérstaklega að teknu tilliti til þess að standardinn á sýningunum hingað til hefur verið með hæsta móti.
Þeir sem ekki fóru beint í rúmið litu við á hátíðarklúbbnum í nightcap. Þar var dans og fjör, sem við létum að mestu eiga sig. Erum viss um að ná góðum nætursvefni eftir strangan dag.
Sigurður H. Pálsson
4/8 2006