Athugasemdir við færslu 28/7 2007
Vibba og Boggi, 1/8 2007 kl. 23:21:
Gaman að heyra frá þér. Ég hálföfunda þig af öllum leiksýningunum í Kóreu. Vonandi gengur allt vel með Álfheiði.
Þín Vibba
Kristín Ása Einarsdóttir, 2/8 2007 kl. 14:12:
Mikið er gott að heyra allt gengur vel hjá ykkur, bið að heilsa Sigga og Álfheiði.
Mamma
Pabbi, Áslaug, Álfrún, 4/8 2007 kl. 19:46:
Kær kveðja frá pabba, Áslaugu og Álfrúnu (sem er flutt). Vorum að fylgjast með löggunni handtaka einhvern í garðinum við hliðina, af svölunum. Gangi ykkur öllum vel!
28/7 2007
Það hafði verið svo mikið fjör á morskítóbarnum kvöldið áður að mitt herbergi fór ekki á fætur fyrr en liðið var undir hádegi. Púha hvað þetta var heitur dagur: sól, rakamolla og 35°c. Í morgun-/hádegismat var skellt sér með rútu á veitingastaðinn sem býður okkur hlaðborð dagsins öll hádegi og kvöld. Veit ekki hvort það var chilli-þangið, þang-grjónin, sushið, þang-núðlusúpan eða hinir 200 bleiku brúðarstólar í salnum sem gerðu það að verkum að þetta var mín síðasta máltíð á staðnum. Þetta var bara ekki að gera sig á fastandi maga. Eftir matinn röltum við með Ashley og Eriku í Hagkaupsmollið þar sem reynt var að eyða péningum. Þar voru verslaðir ódýrir æpodar, barnaföt og allskonar drasl. Mín fjölskylda náði reyndar ekki að eyða neinu þar sem við stóðum föst fyrir þvögu af Kóreubúum sem dáðust að Álfheiði. Hér í borg eru einhverjar þúsundir sem eiga orðið myndir í fínu 3ju kynslóðar farsímunum sínum af litla hvíta barninu með kringlóttu augun. Þarna voru fullorðnar konur farnar að gráta og lamast í hnjánum af væmni og potuðu svo í kinnarnar á henni, klöppuðu tánum, liftu upp höndunum o’so videre.Úr mollinu var rölt yfir á Ólympíska sviðið þar sem Svíarnir vinir okkar léku sínar listir. Sýninguna sá ég ekki nema hálfa því ég þurfti að sinna þörfum Álfsins, en hún ku víst hafa verið mjög góð (sýningin altso). Þá var komið að hinni próblematísku skiptingu á hópnum. 5 fóru í tveggja tíma ferð til að sjá Makedónana sem þau sögðu vera frábæra. 5 aðrir urðu eftir og sáu Þjóðverjana sem voru líka sagðir frábærir. Við 5 sem eftir voru, litla fjölskyldan og formennirnir fórnuðum okkur á Opening Ceremony. Fyrir utan gyllta leikhúsið hófst trommudans u.þ.b. 20 gamalmenna í trúðabúningum og með klappstýrudúska á hausnum. Þau voru alveg yndislega skemmtileg, með margar skrítnar trommur og mis góð í að halda takti. Það vakti athygli okkar að helmingur þeirra bar þjóðlega leikfimiskó með uppbrettri tá og hinn helmingurinn hlaupaskó!? Inni hófst svo gríðarlegt ræðu fargan þar sem hver kínakallinn stóð upp á fætur öðrum til að halda langar og leiðinlegar kóreanskar ræður og láta enn fleiri kínakalla standa upp í salnum og láta klappa fyrir þeim. Kynnirinn var frægur kóreanskur leikari sem fyrirmennin voru víst ákaflega hrifin af ef marka má túlkinn sem gat ómögulega talað ensku svo við skyldum sama sem ekkert af því sem fram fór fyrsta klukkutímann. Loks kom að skemmtiatriðunum sem voru Kóreukonu dans, Kóreukalla ástardúett, Kóreukalla trommu- og hattadans og svo ,,leik”sýning. Þessi sýning var víst útdráttur úr heilli sýningu sem er seinna á dagskrá. En VÁ! Aldrei hefur fleiri hitaeiningum verið brennt á sviði. Þarna voru 20 algerlega frábærir unglings dansarar að dansa ástarsögu. Þetta var algjör orkubomba: gleðibankabúningar í svörtu, hvítu (já það var sko blacklight) og silfruðu, brjálæðislega hávær teknótónlist sem gekk allan tíman og svo unglingaskak. Þetta var tæknilega frábær sýning, alls ekki leiksýning þó, og mikið þótti mér erfitt að sitja þarna og finnast ég vera að horfa á unglingaklám - svo mikið var skakið og lítil fötin. En það sem kætti okkur enn meira voru áhorfendurnir. Þarna voru öskrandi unglingsstúlkur og smástelpur sem dýrkuðu töffarana á sviðinu. Þær görguðu meira en við á Helga Róbert í Elvishlutverkinu. Ég held ég hafi grátið úr hlátri.
Eftir showið var svo mikil reikistefna um það hvert ætti að fara með okkur í mat en loks komust Ashley og Erika að því að við ættum að mæta í Opening Festival Dinner á Savoy Hotel. Við mættum þangað í okkar sveittu hlýrabolum og fengum höfðinglegar móttökur. Te að hætti heimamanna, glæsilegt 2000 rétta hlaðborð., eftirréttir, kaffi, vín og gos. Namm. Það var tvennt sem stóð upp úr kvöldinu. Annað var fiðlu og flautu teknónúmerið sem var skrúfað upp í 11. Hitt var Sang Yong Lee forseti bandalagsins hér (eða e-h) sem gekk um og heilsaði upp á hvert borð með kamerumann með sér sem tók stillmyndir af honum með hverju borði á stóra sjónvarpstökuvél. Algjör kóngur.
Þegar heim var komið lenti Ágústa í kakkalakkastríði við kakkalakka á stærð við skjaldböku. Ég var eina manneskjan sem missti af atriðinu en það mun hafa tekið á taugar og því lyktaði þannig að Addi og Júlía náðu að koma kvikindinu (sem þau gátu ekki drepið fyrir mjög svo þykkri skelinni) í handklæði og senda Kóreanskann vin okkar með það út úr byggingunni til lífláts. Hann stökk með hann á veitingastað frænda sins í næsta nágrenni. Aftur var svo sest á moskítóbarinn, í þetta sinn fengu Álfheiður og Saga jafnaldra hennar frá Svíþjóð að halda pajamapartý á meðan svo við skemmtum okkur fram á nótt með svíunum.
28/7 2007