Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 1/8 2007

Sirrý, 3/8 2007 kl. 11:41:

Kæra ungfrú Stjarna, veit að allt hefur gengið vel, vona að þið komist heim , annars er ég tilbúin að koma til þín og byggja upp skóla í Kóreu. Án gríns góða ferð heim músin mín, sem verður bráðlega amma mús, knús Sirrý

Gerður, 3/8 2007 kl. 12:37:

Þá vitiði það gott fólk, skólastýran okkar hefur ákveðið að taka málin í sínar hendur og sent Kóreumönnum handrit fyrir ferðina! Þýðingin hefur samt sennilega eitthvað mislukkast hjá þeim, annars hefði skipulagið ekki klúðrast svona. Svoleiðis gerist nebbla ekki hjá ungfrú Stjörnu. :o)

Hmm... já og Brownie Bottom Pie og Death by Chocolate hljómar reyndar kunnuglega - og afskaplega vel! TGI Fridays eða Ruby Tuesday?

Knús allir, það verður nú alveg gaman að fá ykkur heim aftur!

Aftur í dagbók


1/8 2007

Jæja. Heitt heitt heitt og sveitt í S-Kórea – og hvað annað er títt þennan miðvikudaginn 1. ágúst?

Af leiklistar hátíðinni er það helst að frétta að það eru engar leiksýningar fyrr en um kvöldið – af hverju? Enginn veit nema óútskýranleg öfl og S-Kóreumenn og þeir vita það eiginlega ekki – eða kannski ekki og þó kannski en samt varla nema þeir spyrji einhvern sem veit eitthvað kannski en þó varla … hljómar bara svei mér þá eins leikrit eftir mig … en þó ekki … nema kannski …

Íslendingar aldeilis hressir og sprækir upp eins kækir eldsnemma dags ákveðnir í að fara til Busan - næststærstu borgar S-Kóreu sem rúmar einhverjar nokkrar milljónir manna. Okkar einkasjálfboðaliðar sváfu yfir sig af því að nokkrir úr hópnum ásamt Svíum höfðu haldið þeim upp á næturklúbbi fram eftir nóttu – svona er þetta – en einhvern veginn eftir mátulegan misskilning skröltum við af stað – meira að segja ásamt nokkrum Svíum. Busan blasti við úr fjarlægð … Breiðholt hvað!? Þau settlegu sambýlishús sem við Íslendingar þekkjum eru ekki fjölbýlishús. Hér eru BLOKKIR með BLOKKUM við BLOKKIR. Háar, mjóar og ma-ha-ha-argar.

Ferðinni var heitið á Hae-undae ströndina sem er sú stærsta og tilkomumesta í allri S-Kóreu. Eftir talsvert ferðalag í ýmsum farartækum var komið á leiðarenda. Og ég vona svo sannarlega að þetta sé stærsta strönd landsins. Gersamlega óviðjafnanlegt! Eins og segir í ferðahandbókinni minni – fullkominn staður við þig, þína fjölskyldu og 500.000 af þínum félögum í fullu fjöri!! Þarna svo sennilega samankomnir fleiri en samanlagðir Íslendingar hvar sem þeir fyrirfinnast í heiminum. Mílulangar breiður af sólhlífum svo þétt raðað að engin sól komst á þær raðir Kóreubúa sem dreifðu sér um sandinn. Þeir sem ekki sátu brugðu um sig miklum og breiðum sólgulum sundkútum og hlupu skríkjandi út í sjó. Kóreubúar af öllum stærðum og gerðum og aldri og klæðaburði fleygðu sér með kútana sína í hafið og hlógu eins og hýenur. Í stuttum og síðum buxum, bolum og peysum, sandölum eða sundfötum með hatta eða ekki – allir hlógu. Ég hef komið til nokkurra landa á fleiri en eina strönd – en aldrei hef ég séð jafnmikið af fólki á jafnstuttum tíma jafnþétt skemmta sér jafnvel! Svona á að gera þetta. Eftir að við höfðum gapað, hlegið, blotnað og myndað fylli okkar var rölt um. Margarita og markaður – fer vel saman. Og hvernig hljóma eftirréttirnir Brownie Bottom Pie og Death by Chocolotae? Sumir fóru á sædýrasafn en aðrir mynduðu eitthvað af þeim fjölmörgu sædýrum sem seld eru lifandi og dauð á götum úti. Ágætis ferð.

Heimferðin tók drjúga stund og hópurinn skipti sér á tvær sýningar. Sumir þóttust ætla að ná þeirri norsku á réttum tíma en aðrir þeirri slóvensku aðeins of seint. Allir urðu á endanum seinir en náðu þó leikhúsi. Ég sá þá norsku, sú sama og var í Færeyjum og alveg þess virði að sjá aftur. Í fyrsta sinn sem ég segi það um norska leiksýningu. Helvíti góðir strákarnir, fínt handrit og flottur leikur. Þeir höfðu stillt þannig upp í leikhúsinu að áhorfendur sátu nokkuð nálægt þeim sitthvoru megin. Það var dásamlegt að horfa á kóreönsku unglingana á fremsta bekk – elsku litlu dúkkudúllurnar missa sig alveg þegar við þessi evrópsku celebs koma of nærri – það er flissað og skjálfað og farið hjá sér.

Eftir sýningu var hist á hóteli. Nokkrir skelltu sér út í pizzu – mjög skemmtileg afgreiðsla – par sem hljóp um allt ákveðin í að allt ætti að koma “verlí kúrikúrlí” (very quickly – fyrir ykkur sem ekki talið kór-ensk-önsku). Barbara Smith kom í heimsókn en ég ætla að ekki að lýsa henni frekar að svo stöddu og býð góða nótt.

Haffa kaman – liffa lífinu – saman – Masan!

Hrefna Friðriksdóttir

1/8 2007