Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 5/8 2007

Júlía þotuþreytta, 9/8 2007 kl. 16:43:

Það var svo frábært að sjá hvað Kínverjar eru klárir í markaðs-og sölumálunum. Þetta kommúnistaríki sem ennþá dýrkar sinn Maó formanna!
Við gætum sko lært heilmikið af þeim. Af hverju ekki að láta allar konurnar sem prjóna lopapeysurnar sitja í ruggustólum og prjóna allar gersemarnar og hafa gönguleið fyrir túristana framhjá. Leiða þá svo inn í risastóran bjartan sal með öllu úrvalinu og láta þá kaupa það.
Eins með hraunskartgripina og leirinn og og og......en þeir mundu kannski ekki vilja koma í hákarlsverkunina.

Aftur í dagbók


5/8 2007

Sunnudagsmorguninn fimmti rann upp, bjartur og fag.., hmmm nei annars, hann var ekkert svo bjartur... og ekkert svo fagur heldur, bara endalaus þoka og mistur - eða þykkt mengunarský sem virðist hanga eilíflega yfir þessari borg. En það skipti engu máli, hingað vorum við komin, í land Keisaranna, land Maós, land múrsins mikla, land ævintýranna og drekanna. Beijing. Peking. Kína. Maður þurfti aðeins að klípa sig í handlegginn - var þetta virkilega að gerast?

Og þá voru eftir átta... hópurinn farinn að þynnast aðeins, sumir farnir heim, aðrir eitthvert annað. Hér vorum við Ágústa, Bylgja, Vibba, Júlía, Helgi, Gísli, Addi og ég. Snæddum ágætis morgunverð á Harmony Hotel og spennan lá í loftinu, von var á leiðsögumanni sem ætlaði að fara með okkur að skoða Kínamúrinn. Hann skilaði sér stundvíslega við annan mann, reyndist heita Tonk(e) (sem þýðir víst "eiginkona") og þeir voru með þennan fína míníbúss, sem rúmaði okkur öll ágætlega. Um níuleytið var lagt af stað og Tonk byrjaði að fræða okkur um sögu Kína fyrr og nú, og þó það væri afar athyglisvert allt saman byrjuðu augnlokin fljótlega að síga, og undir lokin voru það bara Ágústa sem hlustaði (kannski af einskærri kurteisi) og undirritaður (kannski vegna þess að Tonk sat við hliðina á mér og virtist halda að hægra eyrað á mér væri hljóðneminn).

Eftir u.þ.b. klukkustundarakstur var stoppað við minjagripaverksmiðju nokkra, þar sem nokkrar kínakonur og -kallar sátu sveitt við að búa til listmuni úr "cloisonnier" og jaðe, við vægast sagt misjafnar aðstæður. Þetta var allt voða fróðlegt og gaman að sjá og síðan vorum við leidd eins og sauðir til slátrunar inn í risavaxna ríkisrekna minjagripa- skástrik listmunaverslun (að mati undirritaðs um 5.000 fm verslunarrými) og vorum við einu sjáanlegu viðskiptavinirnir þar. Þarna var að sjálfsögðu mikið keypt, enda kínakonurnar afar séðar í sölumennskunni, vinsælastir voru kínadrekarnir. Snæddum afar ljúffengan hádegismat, eftir að hafa sætt færis á að hlaupa yfir þjóðveginn til að komast á restórantinn. Svo var aftur hlaupið yfir veginn og aðeins meira keypt.

Það var komið vel fram yfir hádegi þegar við loksins komum að múrnum, og þar vantaði svosem ekki minjagripasalana. En við héldum aftur af okkur og stefndum ótrauð að kláfnum sem flytja skyldi okkur upp á fjallið þar sem múrinn var. Sölufólkið vissi alveg hvað klukkan sló og úr öllum áttum hljómaði "Jú komm bah! Æ límembe jú! Jú límembe mí? Jú bæ!" Það vottaði aðeins fyrir lofthræðslu hjá sumum í kláfnum á leiðinni upp, en hinir göptu af gleði og spenningi. Og maður lifandi. Hingað vorum við komin upp á Kínamúrinn mikla, eitt af undrum veraldar sem teygir sig 6.000 km frá vestri til austurs. Ólýsanleg upplifun. Þarna sprönguðum við fram og til baka og reyndum að setja okkur í spor varðmannanna sem áttu víst heldur ömurlega vist þarna, jafnt í steikjandi sumarhita sem fimbulfrosti og mannhæðardjúpum snjó. Þarna hlykkjast múrinn ofan á fjallahryggjunum, að því er virðist útí óendanleikann, en hann hvarf reyndar fljótlega útí mistrið þennan dag. Stærstur hluti hópsins ákvað að stefna á gula sólhlíf sem var rétt greinanleg í fjarskanum, og þegar þangað var loks komið beið þar kínakall sem brosti út að eyrum svo skein í báðar tennurnar og sagði "kól vote" og við glöddumst mjög. Meðan við svöluðum okkur á "kól vote" kom undursamlega fagurt fiðrildi aðvífandi og tyllti sér efst á fánastöngina með íslenska fánanum sem Addi hafði borið alla þessa leið, og við urðum svo snortin af þessu að við brustum í söng og sungum Lofsönginn eftir Matta Joch og Sveinba Sveinb, við mikla gleði viðstaddra sem voru fjórir, að kínakallinum meðtöldum. Hlutum dynjandi lófaklapp að launum, frá öllum þessum fjórum. Hátíðleg stund.

Það urðu að sjálfsögðu fagnaðarfundir þegar við komum aftur niður af fjallinu, og gleði sölufólksins var fölskvalaus þegar það sá okkur þreytt og sveitt draga upp veskin og byrja að kaupa og kaupa. Og kaupa. En Tonk var tekinn að ókyrrast mjög, og það var kannski eins gott, því það virtust engin takmörk vera fyrir kaupgetu íslensku ferðalanganna, frekar en venjulega.

Stefnan tekin aftur á Beijing og hótelið, og á heimleið kíkt aðeins inn í silkifabrikku eina mikla, og það var ekki að spyrja að því, eftir að hafa leitt okkur í allan sannleik um silkiframleiðsluna (sem er reyndar alveg ótrúlega heillandi fyrirbæri), vísuðu þeir okkur inn um dyr einar þar sem var til sölu silkivarningur af öllu hugsanlegu tagi, og spurningin var ekki sú hvort, við ætluðum að kaupa eitthvað, heldur hve mikið. Og við keyptum mikið. Mjög mikið. Silkisængur og silkisængurver, silkiteppi, silkiskyrtur, silkikjóla, silkijakka, silkinærbuxur, silkisokka... Þeir kunna þetta alveg Kínverjarnir.

Upp á hótel í mjög snöggt bað, svo Peking óperan. Höfðum pantað bestu sætin, og það var sko ekkert slor. Sátum þar eins og hefðarfólk kringum borð og úðuðum í okkur alls konar dísætu góðgæti, hnetum og ferskjum og öllu skolað niður með tei. Það var ekki mikið sungið í þessari óperu, en hún var samt mikið sjónarspil, einhverskonar sambland af látbragðsleik, dansi og fimleikum með hljóðfæraundirleik. Skemmtum okkur konunglega þar. Að því loknu brunað beint á veitingastað sem Tonk hafði fundið fyrir okkur og þar voru bornar á borð þrjár heilar Peking-endur, sem voru svosem ágætar, en hálfgerð vonbrigði fyrir flesta, ekki síst fyrir hið fátæklega meðlæti. Fréttum seinna að þetta áttu að heita bestu Peking-endur sem hægt er að fá hér í borg. Kvöddum Tonk með tárum, enda hafði hann staðið sig með mikilli prýði og átt sinn þátt í gera þennan dag svo ógleymanlegan.

Langur og viðburðaríkur dagur að kveldi kominn, og við vorum öll þreytt en sæl þegar við rúlluðum inn á hótel undir miðnættið. Einhverjir fóru beint að sofa, einhverjir settust á hótelbarinn, en fjögur okkar, Bylgja, Addi, Gísli og ég kíktum inn á nuddstofuna "Harmony Sauna" sem er við hliðina á hótelinu. Bylgja, af sinni alkunnu gjafmildi, bauð mér í fótanudd sem var æðisgengið en strákarnir tóku líkamsnudd. Leiddum getum að því hvort einhver önnur starfsemi en nudd ætti sér stað þarna, en við þeim vangaveltum fékkst ekkert svar. Við Ágústa sátum loks fram á miðja nótt uppá herbergi ásamt Helga Róbert, spjölluðum saman, sötruðum bjór, reyktum, skoðuðum myndir og umpökkuðum farangrinum, þar eð við myndum þurfa að tékka okkur út morguninn eftir.

Björn Thorarensen

5/8 2007