Hugleikur í Harstad
NORÐUR-EVRÓPSKA leiklistarhátíðin 1998 var haldin í Harstad í Noregi. Hugleikur tók þátt í hátíðinni með Sálir Jónanna ganga aftur í leikstjórn Viðars Eggertssonar.
Hátíð þessi er opinber hátíð Norræna áhugaleikhúsráðsins, NAR, og er haldin fjórða hvert ár. Einni sýningu er boðið frá hverju Norðurlandanna, fyrir utan heimalandið sem hefur svigrúm til að bjóða fleiri sýningar og Finnland, sem fær að senda eina á finnsku og eina á sænsku. Hugleikur tók þátt í hátíðinni 1986 í Reykjavík og hefur síðan tekið þátt í samkeppni um að fara sem fulltrúi Íslands 1990 og 1994 en ekki hlotið náð fyrir augum dómnefnda. En núna tókst það, og eftir þindarlausa vinnu við styttingar, æfingar og fjáröflun vorum við komin á staðinn og til í tuskið með leikritið okkar, Sálir Jónanna ganga aftur, í leikstjórn Viðars Eggertssonar. Höfundar handritsins eru Ingibjörg Hjartardóttir, Sigrún Óskarsdóttir og Unnur Guttormsdóttir. Höfundar tónlistar og söngtexta eru Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason.
Leikritið er byggt á þjóðsögunni um sálina hans Jóns míns, en öll meðferð sögunnar er með þeim galgopa- og ólíkindablæ sem einkennt hefur verk Hugleiks frá upphafi, krydduð með þeim teiknimyndakennda ýkjustíl sem Viðar grípur stundum til. Það var því að vonum mikil eftirvænting í hópnum. Hvernig myndi þessi kokteill ganga í vora norrænu vini?
Á eyjunni Hinn
Harstad er um tuttugu og þrjú þúsund manna bær á stórri eyju, Hinnøya, miðja vegu milli Bodø og Tromsø. Bæjarstæðið er fallegt, lítil vík með byggð upp í hlíðarnar beggja vegna og fögur fjallasýn yfir til meginlandsins.Gistiheimilið þar sem við dvöldum stendur á Þrándarnesi (Trondenes), fornum höfuðstað héraðsins sem getið er í Heimskringlu. Þar stendur kirkja síðan á þrettándu öld og spölkorn frá henni er minjasafn staðarins, afburða fallega upp sett af landa okkar, Guðmundi Jónssyni arkitekt. Sýningin rekur sögu byggðarlagsins frá steinöld til dagsins í dag á einstaklega lifandi og skemmtilegan hátt, enda fylltumst við stolti af "okkar manni" við að koma þarna við.
Frumsýningarskrekkur og fastir liðir
Fyrstur steig á sviðið norskur leikhópur, skipaður heilbrigðum og þroskaheftum einstaklingum, sem sýndi leikgerð á Dýrheimum Kiplings, eða kannski frekar á Skógarlífi Disneys. Sýningin var íburðarmikil en einkennilega líflaus, og voru skiptar skoðanir um það hvort hún næði þeim markmiðum hópsins að gefa fötluðum einstaklingum tækifæri á að fást við leiklist á sínum forsendum. Þarna sáum við reyndar leikkonu sem heillaði okkur svo að við buðum henni gestahlutverk í sýningunni okkar, sem hún þáði.Eftir opnunardaginn komst hátíðin í þann takt sem hún hélst í allt til loka. Námskeið og leiksmiðjur af ýmsu tagi frá tíu til eitt, umræður um sýningar gærdagsins frá tvö til fjögur og svo leiksýningar milli fimm og ellefu. Leikið var á tveimur sviðum í glæsilegri menningarmiðstöð þeirra Harstadbúa, hver hópur sýndi tvisvar sinnum, en hámarkslengd sýninga var takmörkuð við rúman klukkutíma. Alls voru sýnd þrettán verk á hátíðinni, auk sýninga frá Norðurlöndunum voru Eystrasaltslöndin með að þessu sinni, auk einnar sýningar frá Rússlandi.
Á sunnudegi var farið í stutta siglingu um nágrenni eyjarinnar á seglskútunni Anne Rogde, sem er stolt heimamanna enda elsta seglskúta heims sem enn er í notkun. Að sjálfsögðu var þetta einmitt staður og stund til að rifja upp öll dásamlegu írsku þjóðlögin sem Jónas heitinn Árnason íslenskaði svo eftirminnilega og standa íslenskum áhugaleikarahjörtum nær en önnur lög. "Hífum í bræður, allir sem einn", kyrjuðum við meðan einn úr okkar hópi hjálpaði til við að draga upp segl. Og svo fylgdu öll hin lögin á eftir.
Þegar í land var komið hófst undirbúningur sýningarinnar fyrir alvöru. Við byrjuðum með textarennsli sem sannfærði okkur um að leikhópnum hafði ekki einungis tekist að muna textann síðan sýningum lauk í vor, heldur jafnframt að gleyma þeim setningum sem hafði verið fórnað við styttinguna. Næst var að huga að aðstæðum. Nokkur óvissa hafði ríkt með á hvoru sviðinu við yrðum, en nú hafði Viðar tekið af skarið og ákveðið að stóra sviðið hentaði okkur betur. Óneitanlega fór um suma leikarana þegar við skoðuðum það betur, enda er þetta þúsund manna salur. Möguleikhúsið sem hýsti sýninguna á Íslandi tekur rétt um hundrað manns í sæti. Ekki dró það úr áhyggjum okkar að á báðum sýningunum sem við sáum þar áður en kom að okkur voru hljóðnemar notaðir til að magna upp bæði tal og söng. Var það virkilega nauðsynlegt? Og ef svo væri, hvernig ætluðum við að leysa það á þessum átta tímum sem við höfðum til umráða áður en tjaldið yrði dregið frá?
Komið að okkur
Þegar sýningum dagsins lauk og danski hópurinn hafði fjarlægt sína leikmynd af stóra sviðinu hófumst við handa við að koma okkur fyrir, hagræða hliðartjöldum, stilla upp hljómsveitarpalli aftast á sviðinu og gera við skemmdir sem höfðu orðið á leikmyndinni í flutningunum. Við þessir áhyggjufullu fengum tækifæri til að prófa hljómburðinn og komumst að því okkur til mikils léttis að hann yrði ekki vandamál.Snemma á mánudagsmorgun hófst Árni Baldvinsson, ljósahönnuður sýningarinnar, handa við að stilla sín tæki, og lauk því verki upp úr hádegi. Þá var leikhópnum ekkert að vanbúnaði til að hefja æfingu, þá einu á nýju sviði í þessum stóra sal.
Æfingin tókst stóráfallalaust. Á einum stað þurfti að breyta útgönguleið Kölska til að vinna tíma til búningaskipta, en annars var okkur ekkert að vanbúnaði. Og eftir að við höfðum sett gestaleikarann okkar inn í sitt hlutverk var ekki annað að gera en að slappa af og bíða.
Fljótlega eftir að sýningin hófst fundum við að þetta ætlaði allt að fara á besta veg. Við skynjuðum sambandið sem myndaðist milli okkar og áhorfenda, fundum að það var hlustað á hvert orð og hverri athöfn gaumur gefinn. Hlátrar voru tíðir og innilegir, gat virkilega verið að þau skildu það sem fram fór?
Að sýningu lokinni ætlaði síðan allt um koll að keyra. Lófatak og bravóhróp fylltu salinn, fólk reis úr sætum og fagnaði okkur. Að tjaldabaki voru Rússarnir, sem áttu næstu sýningu, brosandi út að eyrum og kallandi bravó! bravó! Leikstjórinn þeirra lýsti ánægju sinni í löngu máli við Viðar Eggertsson, en var of mikið niðri fyrir til að gefa túlknum sínum tækifæri til að koma innihaldinu til skila, sem gerði svo sem ekkert til. Hálfdösuð skjögruðum við upp í búningsherbergin, sæl og þreytt, með óljósan grun um að eftir um einn og hálfan tíma þyrftum við að endurtaka leikinn.
Það var heldur enginn tími til að slappa af, því sýning rússneska hópsins var að hefjast og af henni vildum við alls ekki missa. Það var líka eins gott því hún var einn af hápunktum hátíðarinnar, ótrúlega kraftmikil, litrík og fagmannlega leikin, hvergi dauður punktur. Þó að rússneskan vefðist fyrir okkur flestum var nóg fyrir augað og eyrað að njóta þessa klukkustund. Og enn var fyllsta ástæða til að standa upp og hrópa bravó.
Seinni sýningunni okkar var tekið eins og þeirri fyrri, þó leikhópnum fyndist farið að síga á seinni hlutann í orkugeymunum. Langur og erfiður dagur að baki, dagur sem Hugleikarar gleyma seint.
Uppskeran
Við vorum fæst snemma á fótum á þriðjudagsmorgni, nema kannski þeir sem gengu ekki til náða fyrr en að afloknum morgunverði. Flestum þótti hæfilegt að rísa úr rekkju í tíma til að rölta í bæinn og mæta til umræðna um sýningar gærdagsins, svona upp úr hádegi.Fjórir valinkunnir leikhúsmenn höfðu það hlutverk að segja álit sitt á sýningum hátíðarinnar. Í forsæti var John Ytteborg, Norðmaður að uppruna en Dani að vegabréfi, ráðgjafi Danska áhugaleiklistarsambandsins í alþjóðamálum, og manna fróðastur um áhugaleikhús heimsins. Auk hans voru það Jacob Oschlag, danskur leikstjóri og kennari, dr. Chua Soo Pong, forstöðumaður Kínaóperustofnunarinnar í Singapore og Svanhild Hansen, framkvæmdastjóri áhugaleiklistarsambands Hálogalands.
Hugleikur var fyrstur til umræðu. Öll luku þau miklu lofsorði á sýninguna og lék mikil forvitni á að fræðast um félagið og íslenskt áhugaleikhús almennt. Hins vegar vandaðist málið þegar þau vildu vita um hugmyndafræðilegar forsendur sýningarinnar, hvað við værum eiginlega að meina með þessu öllu saman! Vafðist þá hugleikstungan lipra okkur um tönn, því einhvern veginn höfum við alltaf litið á það sem verkefni áhorfenda að henda reiður á "meiningu" verkanna, alla vega gerum við það yfirleitt ekki sjálf, fyrr en kannski eftir á.
Þessa léttúð áttu Skandinavarnir bágt með að skilja, en þrátt fyrir þann meiningarmun hafði sýningin greinilega talað til þeirra og hljóðin þótt fögur, hvað svo sem átt var við með þeim. Sem þýddi að okkar tilgangi var náð. Sérstaka hrifningu vakti hversu heilsteypt sýningin var þrátt fyrir að við fyrstu sýn virtist öllu ægja saman og öllum brögðum beitt til að koma áhorfandanum í opna skjöldu. Fyrstu kynni útlendinga af hinum "Hugleikska stíl", sem enginn veit þó almennilega hvað er, mæltust greinilega vel fyrir.
Þetta kom jafnvel enn betur í ljós þegar okkur barst í hendur bæjarblaðið Harstad tidende. Þar var hópnum hrósað í hástert fyrir fagmennsku og ótrúlegt vald á ólíkum stíltegundum, jafnt í tónlist sem í leikstíl og gagnrýnandi blaðsins klykkti út með að fullyrða ef rétt væri, sem hann þó dró í efa, að Hugleikur væri áhugahópur, þá væri afrek hópsins og leikstjórans ekki minna en kraftaverk.
Þó má segja að stærsta hrósið hafi komið frá sænskum hátíðargesti sem heilsaði upp á formann félagsins, Huldu B. Hákonardóttur, og benti henni á ljóta skrámu á enni sér. Maðurinn hafði sem sagt tekið þvílík bakföll af hlátri á sýningunni að hann réði ekki við sig en skall með ennið á stólbríkina fyrir framan sig, með fyrrgreindum afleiðingum! Hláturinn lengir kannski lífið, en allt er samt best í hófi, eða hvað?
Eftirleikurinn
Fyrirfram hefði mátt búast við því að eftir spennuna í kringum sýninguna yrði slíkt spennufall að fyrir hópnum væri hátíðin nánast búin. Svo fór þó ekki, enda nóg við að vera. Reyndar var okkar fólk hvað ötulast við að nýta það sem hátíðin hafði upp á að bjóða, hvort sem það voru málþing, umræðufundir, námskeið eða sýningar. Harstad var svo sannarlega eins og aðrir heimshlutar þessa daga, allsstaðar rakst maður á Íslendinga!Á kvöldin ræktuðum við svo sambandið við gistifélaga okkar í Þrándarnesi, hópana frá Rússlandi, Lettlandi og Litháen. Við gleymum seint stundunum á grasflötinni við gistiheimilið, miðnætursólin við hafflötinn, gítarar, harmónikkur, balalækur og þessar ótrúlegu slavnesku raddir: Það var maíkvöld í Moskvuborg.
Sýning Lettanna var afburðagóð, án efa sú eftirminnilegasta á hátíðinni. Leikhópur frá bænum Jelgava, skammt sunnan við Riga, sýndi Kennslustundina eftir Ionescu. Með úthugsaðri heildarsýn sem birtist jafnt í leikmynd, ljósum, staðsetningum og leikstíl náðist að magna upp stemmningu sem fékk mann til að óska þess að hafa ekki þekkt leikritið og geta gefið sig óskiptur á vald óhugnaðinum og spennunni sem þessi dauðadans galdraði fram.
Í umræðunum daginn eftir var Jacob Oschlag svo hrifinn að hann fann sig knúinn til að halda hálftíma fyrirlestur um leiklistar- og hugmyndasögu fyrri hluta aldarinnar áður en hann klikkti út með að flokka sýninguna sem eina af tíu mögnuðustu leikhúsupplifunum sínum. Gott ef fleiri gætu ekki tekið undir það.
Það er leikur að læra
Af námskeiðum bar hæst kynning Soo Pong á aðferðum kínversku óperunnar. Það var aldeilis heillandi að vera kominn langt norður fyrir heimskautsbaug á æskuslóðir Ásbjörns Selsbana og Þóris Hunds og öðlast þar innsýn í leikhúshefð hinum megin að af hnettinum sem rekið getur rætur sínar með ritheimildum frá löngu fyrir Krist.Soo Pong reyndist vera stórskemmtilegur kennari og reyndi að setja okkur þessa klunnalegu Norðurlandabúa inn í fíngert og fágað hreyfingamynstur Kínaóperunnar með misjöfnum árangri, sumir voru reyndar glettilega góðir. Nokkrum af forsprökkum Hugleiks þótti sem þarna væri kominn rétti stíllinn til að endurvinna gömlu íslensku klassíkina. Galdra- Loftur í Peking-óperunni? Ja, hann var ágætur í Íslensku óperunni svo ...
Fimmtudagsmorguninn leiddu þeir saman hesta sína Soo Pong, norskur þjóðfræðingur, Johan Einar Bjerken að nafni, og Haukur "okkar" Gunnarsson, leikhússtjóri við Hálogalandsleikhúsið í Tromsø og fyrrum Þjóðleikhússtjóri Sama. Þar bættist enn við þekkingu okkar á austurlensku leikhúsi, því Haukur er menntaður í Japan og sagði frá Kabuki-leikhúsinu og tilraunum sínum við að nýta þessa fornu leikhúshefð í vestrænum leikhúsum. Bjerken sagði frá kenningum sínum um munnlega varðveislu þjóðsagna. Hann þurfti dæmi um draugasögu til að vinna með, og spurði salinn hvort einhver hefði séð draug. Í ljós kom að allar hendur á lofti voru íslenskar!
Í tengslum við hátíðina var að sjálfsögðu starfræktur hátíðarklúbbur, og þangað lá leið okkar gjarnan á kvöldin. Flest kvöldin voru uppákomur. Gjarnan voru það leikhóparnir sem stóðu fyrir þeim og ekki vildum við vera eftirbátar nokkurra að þessu leyti. Á fimmtudagskvöldið var komið að okkur.
Dagskráin var úr ýmsum áttum, þjóðleg og alþjóðleg í senn, kveðnar rímur, sungin þjóðlög og amerískir söngleikjaslagarar, og leikinn Shakespeare! Þar fór Sævar Sigurgeirsson á kostum í eintali úr "Herramenn tveir í Verónsborg", sem hann hafði upphaflega æft á íslensku en ákvað daginn áður að hafa á frummálinu! Voru þá góð ráð dýr því ekki fundust verk skáldjöfursins frá Avonbökkum á bókasafni staðarins. En á tímum veraldarvefsins er ekkert ómögulegt og eftir stutta leit fannst leikritið í gagnagrunni einhversstaðar úti í heimi og hljómaði óaðfinnanlega hjá Norður- Þingeyingnum þetta sumarkvöld norður undir Smugunni.
Boð til Litháen
Áður en við héldum heim barst formlegt boð frá fulltrúa áhugaleikhússambandsins í Litháen um að sýna á leiklistarhátíð þar í landi á næsta ári. Þetta boð verður að sjálfsögðu skoðað og því tekið sé þess nokkur kostur.Hugleikur kemur ríkur úr þessari ferð. Þessi fjórtán ára snáði hefur nú farið utan, flutt kvæði sín og sögur í landi forfeðranna við góðan orðstír. Og þótt hann hafi ekki verið leystur út með dýrum gjöfum þá er sjóður reynslunnar og minninganna digur og mun efla metnað og dugnað félagsmanna um ókomna tíð.