Sagnasafn Hugleiks

Baltneskt flug

Fyrsta leiklistarhátíð nýstofnaðra samtaka norræns og baltnesks áhugaleikhússfólks var haldin í Litháen í júlílok. Fjölbreyttar sýningar og fallegt umhverfi sameinuðust um að gera hana vel heppnaða.

TRAKAI er lítið þorp í Litháen, um þrjátíu kílómetra frá höfuðborginni Vilnius. Bæjarstæðið er einstaklega fallegt, vötn á tvo vegu, Totoriskés og Galvé, en á hólma í því síðarnefnda stendur stolt bæjarins, Trakai-kastali. Þessi þrettándu aldar höll var aðsetur stórhertoga Litháen á þeim tíma sem landið var stórveldi og teygði sig austur um Evrópu allt til Svartahafs. Segja má að samspil náttúrufegurðar og minninga um glæsta fortíð geri Trakai sumpart að sambærilegu djásni og Þingvellir eru okkur Íslendingum. Sagan, náttúran og stærðin gerir Trakai einnig að ákjósanlegum samastað fyrir hátíð á borð við Baltic Flight 2000, en svo nefndist þessi fyrsta opinbera hátíð norður-evrópska áhugaleikhússambandsins, NEATA.

Aðild að NEATA eiga öll Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin þrjú og áttu öll aðildarlöndin fulltrúa á hátíðinni, að Færeyjum og Grænlandi undanskildum. Vaninn er að gestgjafi slíkra hátíða eigi fleiri en eina sýningu og einnig njóta hinir tvítyngdu Finnar þeirra forréttinda að senda sýningar bæði á sænsku og finnsku. Að auki var boðið til hátíðarinnar sýningum frá næstu nágrönnum, Rússlandi, Póllandi. Þýskalandi og Hvíta-Rússlandi. Reyndar voru tvær rússneskar sýningar, þar af önnur frá Kaliningrad-héraðinu sem liggur við Eystrasaltið milli Litháens og Póllands og á ekki land að öðrum hlutum Rússaveldis. Alls voru 15 sýningar á hátíðinni, fjölbreyttar mjög bæði að efnistökum og gæðum.

Ísland

Framlag Íslands á hátíðinni var sýning Hugleiks, Bíbí og Blakan, sem er stutt gamanópera um vampírur, kynþáttafordóma og ást, svo nokkuð sé nefnt. Verkið einkennist af þeim ólíkindablæ sem löngum hefur loðað við sýningar Hugleiks, en þó má segja að stíll sýningarinnar taki meira mið af óperuforminu en galgopalegum "ofleiksstíl" sem stundum hefur sett mark sitt á verk Hugleiks.

Sýningin reyndist ákaflega heppilegt viðfangsefni til að fara með á leiklistarhátíðir. Einfaldur sviðsbúnaður, fáir þátttakendur og ofureinföld lýsing gerðu undirbúninginn þægilegan, ekki síst þar sem tæknibúnaður í menningarhúsinu í Trakai þar sem við sýndum var vægast sagt frumstæður. Tónlistin og leikstíllinn virtist hins vegar duga til að sýningin virkaði á áhorfendahóp fákunnandi í íslensku. Viðtökur voru frábærar og má segja að sýningin frá Ísland hafi, sú einu frá Norðurlöndunum, verið samanburðarhæf við bestu sýningar hátíðarinnar, sem að vanda komu austanað.

Lettnesk fágun, pólskur kraftur

Á þeim leiklistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt hafa lettneskar sýningar undantekningarlaust skorið sig úr hvað varðar gæði og frumleg efnistök. Svo var einnig hér. Leikhópurinn Vinnijs (sem heitir í höfuðið á aðalpersónu fyrsta verkefnis hópsins, sjálfum Bangsímon) flutti verk eftir höfuðleikskáld Letta, Janis Rainis. Verkið ku vera í bundnu máli og skáldlegt mjög en hópnum hafði tekist á aðdáanlegan hátt að smíða mjög svo skáldlega og listrænt fágaða sjónræna heild sem skilaði sér til útlendinga með sterkum hætti. Einfaldleiki og hreinar myndir einkenndu jafnt umgjörð og hreyfingar og hófstilltur leikur hópsins hafði sterk áhrif á áhorfendur.

Svipaða sögu er að segja af sýningu Stajnia Pegaza, leikhóps frá Gdansk í Póllandi. Pólland hefur lengi verið ein helsta orkustöð tilrauna í leiklist og sýning þessa hóps, byggð á Flyðrunni eftir Günter Grass, var hreint engin hversdagsleg leikgerð. Síbreytilegt og orkuþrungið samspil kynjanna svo og glíma við andleg og veraldleg yfirvöld virtust stýra gangi sýningarinnar sem var á köflum eins og danssýning, öguð en jafnframt eins og hún myndi þá og þegar sprengja af sér allar hömlur.

Djöfullinn er Rússi

Önnur sýning sem vakti mikla athygli var frá Hvíta-Rússlandi. Allavega þótti okkur Íslendingum gaman að sjá hana, enda ótrúlega kunnuglegt viðfangsefni, samskiptin við þann úr neðra. Klækjóttur og drykkfeldur bóndi reynir að afla fjár með því að veðja um hitt og annað við skrattann svo hann geti greitt skuldir sínar og friðað snegluna eiginkonu sína. Þetta verk hefði sómt sér vel meðal skólapiltaleikja aldamótanna, eða innan um verk skáldsins frá Fagraskógi. Það er greinilegt að "alþýðusjónleikir" eru samevrópskt fyrirbæri, og ekki spillti kátínunni þegar forsprakki hópsins upplýsti okkur um að verkið er skrifað þannig að mannfólkið talar hvít-rússnesku en pokurinn mál herraþjóðarinnar, en Rússar reyndu löngum að bæla og uppræta sérkenni hvít-rússneskrar menningar meðan þeir réðu þar ríkjum.

Kyndug þjóð og óflutt verk

Báðar rússnesku sýningarnar vöktu nokkra furðu. Sú frá Kaliningrad nefndist "hver skilur þessa kyndugu Rússa?" og mátti til sanns vegar færa, heldur samhengislaust sjónarspil um landflótta rússneska kabarettlistamenn í París kringum 1920. Skemmtilega útfærð dans- og skylmingaratriði björguðu því sem bjargað varð en í heild heldur tilgangslaus sýning. Þó var hin rússneska uppákoman enn undarlegri.

Sýningar fóru fram í menningarhúsi Trakai-bæjar eins og áður er sagt, um fimm hundruð manna hefðbundnum leikhússal. Leikstjóri rússnesku sýningarinnar "Óflutt verk" vildi hins vegar sýna í litlu rými með fáa áhorfendur og brá á það ráð að raða lausum bekkjum á sviðsbrúnina og leika þar fyrir innan! Þetta gerði hún án samráðs við skipuleggjendur hátíðarinnar þannig að á endanum sáu aðeins um hundrað manns sýninguna en aðrir urðu frá að hverfa. Eins og nærri má geta mæltist þetta uppátæki ekki vel fyrir og þeir áhorfendur sem létu sig hafa það að sitja í salnum og horfa á hnakkana á hinum "æskilegu" áhorfendum létu margir hverjir óánægju sína duglega í ljós meðan sýningin stóð. Þessi sýning minnti okkur svo sannarlega á þá staðreynd að þótt tilraunaleikhús sé spennandi þá eru það örlög flestra tilrauna að mistakast.

Engir silkihanskar

Á hátíðum sem þessum er vaninn að hafa daglega umræðufundi með gagnrýnendum þar sem sagður er kostur og löstur á sýningum hátíðarinnar.

Svo var einnig hér og skiptu fjórir gagnrýnendur með sér verkum. Þrír þeirra eru leikstjórar, Jacob Oschlag frá Danmörku, Gytis Pedigimas frá Litháen og Billy Nilsson frá Svíþjóð, en sá fjórði, Rússinn Vidas Siljunas er prófessor við leiklistarakademíuna í Moskvu. Erindi þeirra voru ákaflega gagnleg, bæði fyrir þá sem þeir fjölluðu um í hvert skipti og aðra þátttakendur líka, tækifæri til að máta sína upplifun við annarra.

Það vakti athygli hve hreinskilin og á köflum óvægin gagnrýnin var, en oft þykir áhugaleikhúsfólki sem verk þeirra séu ekki tekin alvarlega og jafnvel horft fram hjá augljósum göllum. Svo var sannarlega ekki uppi á teningnum hér, einn gagnrýnandinn neitaði m.a. að tjá sig um eina sýninguna og taldi sér ekki samboðið að segja nokkuð um svo ómerkilegt sjónarspil! Þessi hreinskilni gerði vitaskuld lofið sem ausið var á íslensku sýninguna hálfu verðmætara í huga okkar sem að henni stóðu.

Það voru stoltir og hnarreistir landar sem gengu af fundi í Trakai að aflokinni þeirri lofgjörð.

Í vestur og austur

Þar sem saman eru komnar leiksýningar frá jafn ólíkum svæðum er freistandi að fara í umfangsmiklar samanburðarhugleiðingar þótt úrtakið sé að sönnu lítið. Er munur á leiklist Austur- og Vestur-Evrópu? Eru efnistök, verkefnaval og gæði ólík? Fljótt á litið er svarið einfaldlega já. Þær sýningar sem austantjaldsþjóðir senda á hátíðir sem þessa eru að jafnaði listrænni og umfram allt betur úthugsuð verk en það sem Skandinavar hafa fram að færa. Skýringanna er sjálfsagt víða að leita. Hvað varðar Eystrasaltsríkin sérstaklega er ljóst að þau búa enn að skipulagi og stuðningi við listsköpun áhugamanna sem tíðkaðist í Sovétríkjunum og fólst m.a. í sérmenntun leiðbeinenda og leikstjóra. Það er eftirtektarvert að þau tvö Norðurlandanna sem helst geta haldið í við vinina í austri eru Finnland og Ísland, sem einmitt eru þau lönd þar sem samvinna og samgangur áhuga- og atvinnumanna er hvað mestur, sérstaklega hvað varðar leikstjóra.

Annað atriði sem gæti skýrt þennan gæðamun er síðan hvernig staðið er að vali fulltrúa landanna. Víða í Austur-Evrópulöndunum tíðkast árlegar leiklistarhátíðir í hverju héraði þar sem valin er besta sýningin sem síðan er send áfram á landshátíð, og á hátíðir erlendis. Þetta tryggir vissulega að sýning viðkomandi lands er góð og spennandi leiksýning.

Engu slíku er til að dreifa á Norðurlöndunum og er sérstaklega áberandi hvað Norðmönnum og Dönum gengur erfiðlega að vanda val sitt. Hátíð eftir hátíð eru sýningar þeirra sýnu lakastar þó ástæðulaust sé að ætla að allar sýningar þessra þjóða séu ómöguleg verk.

Mikilvægasti munurinn er þó vafalaust ólík viðhorf til leikhússins og áhugamennskunnar. Meðal áhugaleikhússfólks á Norðurlöndum er það útbreitt viðhorf að leikhúsvinnan sé fyrst og fremst afþreying, og megi þar af leiðandi ekki vera of krefjandi, mikilvægara sé að öllum líði vel og skemmti sér við tómstundastarfið. Hitt virðist útbreiddara meðal nágrannanna í austri að hvort sem unnið sé í tómstundum eður ei sé listksköpun iðja sem beri að taka alvarlega, og alls ekki ætluð öðrum en þeim sem hafa hæfileika og brennandi þörf til að gera vel. Trúlega stendur íslenskt áhugaleikhús einhvers staðar þarna á milli, bæði viðhorfin þekkjast hér og kristallast vitaskuld í uppfærslum leikfélaganna.

Kannski mun hið vaxandi samstarf okkar Norðurlandabúa við Eystrasaltslöndin á þessu sviði jafna þennan mun, eða allavega gera fleiri sér meðvitandi um í hverju hann felst og neyða menn til að gera upp afstöðu sína til leiklistarinnar og eigin þátttöku í sköpun hennar.

Slíkt væri ákjósanlegur afrakstur starfsemi samtaka á borð við NEATA og hátíða eins og Baltic Flight 2000, fyrir nú utan hvað samfélag við annað áhugaleikhúsfólk og risaskammtur af leiklist er meinhollt veganesti til framtíðar.

Þorgeir Tryggvason