Flug vampýrunnar – leikferðasaga í 11 þáttum
FORSAGAN
Þann 18. september 2002 hélt 10 manna lið Hugleikara í austurveg í þeim tilgangi að sýna óperuþykknið Bíbí og blakan á leiklistarhátíð, sem haldin var í Gatchina í Rússlandi, skammt frá St. Pétursborg. Verkið, sem orðið er nokkuð langlíft, skrifuðum við félagarnir Ármann, Sævar og Þorgeir vorið 1996 í tengslum við Höfundasmiðju LR. Sama vor æfðum við það upp með Hugleik og sýndum á einþáttungahátíð BÍL í Reykholti en einnig á Akureyri og Húsavík þá um sumarið. Lengi stóð til að vekja blóðsuguna af dvala í endurbættri mynd og úr því varð loks sumarið 2000 þegar Hugleikur fór fyrir Íslands hönd á leiklistarhátíð NEATA í Trakai í Litháen. Til að leyfa jafnframt landanum að njóta (og til að slétta út ferðasjóðinn) var Bíbí sýnd í Kaffileikhúsinu nokkrum sinnum haustið 2000 og fékk þar afskaplega lofsamlegar móttökur. En sýningin í Litháen hafði jafnframt dregið hinn vænsta dilk á eftir sér, nefnilega boð til Rússlands sem við og þáðum. Og enn notuðum við tækifærið til að breyta, bættum við einni persónu og æfðum nýtt atriði.GERSKA ÆVINTÝRIÐ
Þessi Rússlandsferð var, eins og við var að búast, ævintýri sem aldrei gleymist. Þrátt fyrir að rannsóknir okkar og allar spurnir af veðurfari og veðurspá áður en við fórum bentu til 15–18 stiga hita, tók Rússland á móti okkur með kalsalegri haustrigningu. Það haust kláraðist þó snemma, því fyrstu nóttina var veturinn mættur, öllum að óvörum. Snjóföl og frosnir pollar mættu okkur að morgni og í raun var skítakuldi það sem eftir lifði dvalar í Gatchina. Það kom sér fremur illa því reglugerðin bannar fólki að kynda hús sín fyrir 1. október. Leikhúsin voru því jökulköld og iðulega sátum við á sýningum með úlpurnar renndar upp í háls, trefla, vettling og húfur. Heimavistin sem við gistum á var líka greinilega vinsæll æfingastaður grjótkastara og tvær nætur í röð hrukkum við upp við rúðubrot í tveimur af fjórum herbergjum og það varð að sjálfsögðu ekki til að draga úr næturfrostinu innandyra. Meðan sumir sváfu í öllu sem þeir fundu í töskunum sínum, tókst öðrum með miklu harðfylgi að kreista út einn rafmagnsofn, sem eitthvað var deilt á milli herbergja eftir að rúðum fór að fækka. Þótt hreinlætisaðstaðan stæðist kannski ekki fyllilega kröfur vesturheimskra og hrokafullra dekurdýra (rússar hafa t.d. gengið mun lengra en við þegar þeir „felldu niður setuna“) þá er upplifunin af frumstæðari aðstæðum ævinlega mikils virði og fjarri manni að kvarta. Gömlu konurnar sem gættu vistarinnar voru líka allar hinar elskulegustu, þótt skilningsleysið milli okkar væri oft algjört. Þær tóku á móti okkur með ömmulegri einbeitni ef við vorum eitthvað að þvælast úti eftir kl. eitt, en þá var dyrunum læst. Okkur var svo sem hleypt inn eftir það, en alls ekki út. Stroktilraunir hörðustu næturlífskönnuðanna í hópnum verða ekki raktar hér, enda misheppnaðar sem slíkar en óborganlegar sem skemmtiefni til upprifjunar þeim sem þar voru að verki.En skoðum nánar hvað í boði var af leiklist á hátíðinni.
DAGESTAN
Strax annað kvöldið komu gestir til okkar á heimavistina. Tveir hressir kallar, einn aðal (sem vissi af því), hinn þögull með gítar og nef. Upphófst mikil gleði og skemmtu þessir kumpánar okkur lengi kvölds með gítarspili og söng. Þarna voru komnir tveir brottfluttir Kákasusmenn, nánar tiltekið frá Dagestan og varð þetta upphafið á fagurri vináttu þessara leikhópa. Hinir skemmtilegustu kallar sem þurftu mikið að skála, faðma og dansa og ekki spillti að gítarleikarinn hljóðláti og nefstóri var afburðagóður.Sýningin þeirra, sem þeir kölluðu „My Dagestan“ var eftirminnileg. Hún minnti einna helst á hina rómuðu túristasýningu Light Nights, og samanstóð af skálaræðum, söngvum, kynningu á ýmsum munum úr átthögunum og vídeóupptöku af stórfjölskyldu aðalleikarans og honum sjálfum á yngri árum. Minna fór fyrir eiginlegri leiklist, hvað svo sem það nú er. Á meðan á sýningunni stóð gekk dóttir leikarans (á að giska 8–9 ára) um beina, skenkti mönnum Kákasusvín í silfurslegin horn og bauð upp á þurrkaðar aprikósur. Svo voru menn teknir upp í einhverskonar mínímalískum kósakkadansi og fengu svo að horfa á sig á myndbandinu í lok sýningar. Þetta var hin ljúfasta stund með vinum okkar, en gagnrýnendum hátíðarinnar var ekki skemmt og hundskömmuðu félagana fyrir að bjóða upp á svona sjó á virðulegri leiklistarhátíð. (Líklega voru það mistök hjá Dagestönum að skemmta sér með okkur en ekki gagnrýnendunum). Þeir létu mótlætið ekki á sig fá, enda sjálfsálitið í góðu lagi. Til marks um það má geta þess að meðan aðrir hópar sem við vinguðumst við hrúguðu heimboðum yfir okkur lýstu Dagestan-menn sig fúsa til að koma til Íslands með sína sýningu. Það væri óneitanlega forvitnilegt, þó ekki væri nema fyrir Kristínu G.
SAGNALEIKHÚS FRÁ SÍBERÍU
Frá Kemerovo í sunnanverðri Mið-Síberíu kom lítill leikhópur með stóra sýningu. Allavega verður hún stór í minningunni þó hún væri leikin á litlu sviði, með leikmynd sem samanastóð af þremur stólum og vatnsfylltu vaskafati, og þremur leikurum í betri fötunum. Og svo var ekkert leikrit, heldur sögðu þremenningarnir okkur tvær sögur – ævintýri. Og ólíkt því sem oft er gert í svona frásagnarleikhúsi þá gerðu þau enga tilraun til að „leika“ það sem gerðist – brugðu sér ekki í hlutverk og sýndu ekkert látbragð nema með svipsterkum andlitunum. Nei, þau sögðu bara sögurnar – á rússnesku að sjálfsögðu – í einn og hálfan tíma. En einbeitingin, fókusinn, nærveran og „intensitetið“ var þvílíkt að við málleysingjarnir störðum hugfangin á – allan tímann. Eiginlega vorum við orðin eins og hvítvoðungar sem stara á þann sem hjalar við þau án þess að skilja bofs. Vissulega skildum við ekki hvað verið var að segja, en sýningin skildi eftir sig nýja vídd í skilningnum á hvað leikhús er og getur. Dýrmæt reynsla, og dæmigerð fyrir þau verðmæti sem maður fer með heim af svona hátíðum þegar vel tekst til. Seinna kynntumst við þessu fólki og ekki dró það úr gleðinni – algerir öðlingar af túndrunni.AF MENNINGARÁSTANDI Í RÚSSNESKUM KJARNORKUVERUM
Í kjarnorkuverinu í Zarechny í Úralfjöllunum, skammt frá Ékaterínbúrg (áður Sverdlovsk) býr og starfar leikhópur einn, og lágu leiðir okkar saman ca. miðja vegu milli Úralfjalla og Íslands, þ.e. í Gatchina. Þetta voru skemmtilegir félagar, meira að segja höfðu sum þeirra snert af Íslandsdellu. Tókust með þeim og okkur ágæt kynni, svo nú erum við með Zarechnydellu. Eftir nokkur vonbrigði með fyrstu þrjár sýningar hátíðarinnar (sjá "Minni spámenn" hér að neðan) var komið að þeim, og ekki laust við að við hefðum dálitlar áhyggjur – hvað ættum við að segja ef þetta væri ömurlegt? Það voru ekki liðnar margar mínútur af sýningunni þegar ljóst var orðið að engar áhyggjur þyrfti að hafa af vandræðagangi. Útfærsla þeirri á smásögunni „Yfirfrakkinn“ eftir Gogol var frábær, á þann austurevrópska hátt sem gamlir leiklistarhátíðarrefir eru farnir að þekkja. Stílfærð, óaðfinnanlega sviðsett, innblásin af skáldlegu ímyndunarafli leikstjórans, útlitslega frumleg og full af snilldarlegum sviðslausnum. Þarna gaf að líta skrifstofublók svífandi í lausu lofti með höfuðið niður, dansandi gullsleginn frakka, höfuðlausa kjólklædda þjóna og óvígan her af konum af öllum stærðum í rjómatertulegum brúðarkjólum. Það var gaman að fagna þeim Kolja, Vofa, Elenu og öllum hinum að aflokinni þessari veislu.IVAN BATISTÉVSKÍ MÓLIÉROV
Frá þeim nafntogaða Lödubæ, Samara, var mættur leikhópur með uppfærslu á lítt þekktu verki eftir Moliére, Monsieur de Pursognac. Það reyndist vera ákaflega hefðbundið „faðirinn-vill-gifta-dóttur-sína-ríkum-gömlum-kalli-en-hún-elskar-fátækan-yngissvein-og-eftir-mikil-plott-tekst-þeim-að-fá-blessun-pabbans- leikrit“. Skemmst er frá því að segja að þetta var drepfyndin sýning, full af kolsvörtum og fullkomlega ósmekklegum sjónrænum húmor. Þar komu við sögu stólpípur, saurát, útlima- og höfuðmissir og fleira sem gleður. Allt flutt af miklum krafti af sterkum leikhópi. Eini gallinn var lýsingin, en af einhverjum ástæðum hafði ljósahönnuðurinn stillt tveimur vinnukösturum á þrífótum upp innst á sviðinu og lýsti með þeim fram í sal öðru hverju. Með því að píra augun var hægt að sjá í gegnum flóðlýsinguna, en þetta var óstjórnlega heimskulegt uppátæki. Hinn síðhærði ljósahönnuður, Sergei, reyndist hafa fleiri járn í eldinum og leysti Sævar út með gjöf – geisladisk með rokkhljómsveit sem hann spilar í. Hún var reyndar afleit líka, en ekki hindraði það Sævar í að nota tónlistina í uppfærslu sinni á Ég elska þessa þögn eftir Fríðu Bonnie Andersen í sýningu Hugleiks, Þetta mánaðarlega. Sem betur fer lét hann þó ógert að apa lýsinguna eftir stráksa. En svona eiga menningarsamskipti að vera, rússneskur leikhópur kynnir óþekkt franskt seytjándualdarleikrit fyrir íslendingum og ljær þeim í framhaldinu statuskvólegt rokk til að nota í uppfærslum á nýjum íslenskum einþáttungum. Gaman.MINNI SPÁMENN
Af öðrum sýningum ber fyrst að nefna opnunarsýningu hátíðarinnar, uppfærslu heimamanna á „Þrettándakvöldi“ eftir Shakespeare. Líklega eru fá gamanleikrit Shakespeares verr til þess fallin að gera tilraunir með trúðleik – en það var nákvæmlega það sem Gatchinamenn gerðu. Útkoman var fremur leiðinleg, en greinilegt að leikararnir geta ýmislegt.Önnur Shakespearesýning kom frá þeirri fornu víkingaborg Hólmgarði (nú Novgorod). Þar var á ferðinni hinn ódrepandi „Draumur á Jónsmessunótt“ í elskulegri en fremur lítilfjörlegri uppfærslu. Handverksmenn voru fyndnir að vanda, en mesta skemmtun var þó að hafa af leikaranum sem lék Lýsander og hafði þann umtalaða en sjaldséða ávana að hreyfa varirnar þegar mótleikarar hans töluðu, og Óberon sem var leikinn af náunga sem fannst hann greinilega flottastur en leið nokkuð fyrir það að vera alveg heiftarlega smámæltur. Í landi hinna þúsund ess-hljóða er það engin smá fötlun, og varð álfakóngurinn sem því nam minna konunglegur og meira hlægilegur. Það fannst í það minnsta hinum illkvittnu Íslendingum. Hreindýrshornin á höfði hans drógu hreint ekki úr þórðargleðinni.
Tvær leiðinlegustu sýningar hátíðarinnar voru „Kean IV“, rússneskt leikrit byggt á verki eftir Sartre um Edmund Kean, enskan stórleikara fyrr á öldum, og „Páfagaukur og strákústur“, rússneskt raunsæisverk um drykkjuskap, fátækt og hjónabandsörðugleika. Þetta voru frekar andlausar sýningar – ekkert fáránlega lélegar (les. norskar) en töluðu einhvernvegin ekki við mann. Reyndar var svo kalt á Kean IV sem var sýnt í risastóru leikhúsi einhversstaðar á einskismannslandi í útjaðri bæjarins, að við vorum keyrð heim í hléi. En við vorum svo sem búin að sjá nóg og vorum að missa af kvöldmatnum.
Hátíðinni var svo slúttað með þýskri danssýningu frá Leipziger Danztheater. Hana höfðum við séð áður, þau voru í Trakai þar sem við sýndum Bíbí og Blakan árið 2000. Hér voru þau mætt, eins og við, með sömu sýningu en, ólíkt okkur, með algerlega nýjan leikhóp. Nú eins og þá skiptumst við í tvö horn með viðbrögð við sýningunni. Sumum fannst hún frábær, öðrum hundleiðinleg. Öll vorum við þó held ég sammála um að hópurinn í Trakai hafi gert þetta betur. (Þess má til gamans geta að danshöfundurinn er ung stúlka af finnsku bergi brotin og á spjalli við hópinn kom í ljós að hún ætti íslenskan kærasta. Við nánari athugun reyndist það vera gamall skólabróðir Einars Þórs frá Egilsstöðum. Lítill heimur eða hvað?).
OKKAR FRAMLAG
„Erlendu“ sýningarnar á hátíðinni, okkar og sú þýska, bættu á skemmtilegan hátt nýjum víddum við hátíðina, önnur öll dönsuð og hin öll sungin. Viðbrögðin við Bíbí voru vægast sagt góð, bæði á og eftir sýningu. Áhorfendur hlógu eins og vitleysingar (og ótrúlega oft á hárréttum stöðum), stöppuðu og hrópuðu bravó í lok sýningar. Gagnrýnendur luku lofsorði á hana, aðrir leikhópar kepptust við að hylla okkur og hæla og sumir úr hópnum eignuðust óþægilega mikla aðdáendur. Sá gæðastimpill sem okkur þótti þó hvað vænst um var gjöf frá leikstýru vina okkar úr Úralfjöllunum, sem lét þau orð fylgja að íslenska sýningin hefði verið sú sem best var leikstýrt. Sjálf átti hún laaaaaaangflottustu sýninguna, eins og fram hefur komið. Auðvitað þótti okkur það pínulítið fyndið, þar sem enginn einn er skrifaður fyrir leikstjórninni, heldur hópurinn í sameiningu. En eftir sátu góðar tilfinningar.HVERJIR VORU HVAR? (SVIPMYNDIR ÚR SAMKVÆMISLÍFINU)
Meðfram öllum leiksýningunum var auðvitað iðandi félagslíf eins og verða vill á svona hátíðum. Strax fyrsta kvöldið var haldin móttökuhátíð heimamanna þar sem hóparnir voru boðnir velkomnir með mat og drykk. Heimamenn sýndu okkur m.a. skemmtiatriði með dansandi kú, sem við skildum ekki mikið í og svo var etið, drukkið, blandað geði, keppt í samkvæmisleikjum og dansað. Mest var spennan þetta fyrsta kvöld yfir því hvort okkur yrði meint af matnum en heima fengum við ströng fyrirmæli um hvað við mættum borða og hvað ekki. Við pössuðum okkur auðvitað afar vel þótt við yrðum kærulausari með hverjum deginum. Aðeins einn úr hópnum lenti í magavandræðum seinna í ferðinni og bárust böndin að ís, keyptum hjá götusala í St. Pétursborg.Annað kvöldið var svo standandi borðhald sem þeir kölluðu því skemmtilega nafni Gala-dinner. Þar sýndu nokkrir hópar skemmtiatriði og vinir okkar úr Úralfjöllunum fóru hamförum í Karaoke. Þeirra prívatgleðskapur entist reyndar langt fram eftir nóttu að viðstöddum þremur af okkar fulltrúum sem tóku herlegheitin upp á myndband. Ekki laust við að öfundar gætti hjá okkur hinum þegar við sáum myndbandið – sem nota bene má alls ekki berast forstöðumanni kjarnorkuversins í Zarechny.
Það er auðvitað vonlaust mál að telja upp öll skemmtilegheitin, en þó er vert að geta lokahófsins, sem var aftur gala-dinner, með tilheyrandi þökkum og kveðjum og tertum, minni mat en meiri vodka og svo dunandi dansi langt fram á nótt sem endaði í píanópartíi niðri á litla sviði og tilfallandi gítar-rokkpartíum utanhúss sem innan. Þær voru margar hjartnæmar kveðjustundirnar þarna um nóttina og morguninn eftir þegar við héldum til þriggja daga túristadvalar í St. Pétursborg.
RÚSSLAND IN MEMORIAM
Þótt við teldum okkur hafa upplifað margt eftir að hafa borðað strút í Stokkhólmi á leiðinni út, þá var það aðeins forsmekkurinn af því sem þessi ferð átti eftir að skilja eftir sig í minningunni. Við áttum frábæra en vægast sagt „öðruvísi“ daga í þessum 125.000 manna „smábæ“, sem helst er frægur fyrir sumarhöll Páls keisara Katrínarsonar miklu. Dagana í Pétursborg nýttum við svo til að eyða peningum, éta, skoða kirkjur og náttúrulega Vetrarhöllina. Og hverja haldið þið að við höfum hitt á förnum vegi í þessari 6 milljón manna borg? Vini okkar úr kjarnorkuverinu og skömmu síðar þýska dansflokkinn. Lítið land Rússland!… THEN WE TAKE BERLIN
Ekki tókst okkur alveg að kveða niður blóðsuguna með þessari ferð. Í Gatchina var nefnilega staddur frammámaður í þýsku áhugaleikhúsi, Norbert Radermacher að nafni, og heimtaði að við kæmum á alþjóðlega hátíð í Rudolstadt í Thüringen-héraði vorið 2003. Sem við og gerðum. Það var líka þrælskemmtilegt, mun alþjóðlegra en í Rússlandi, og aðbúnaður meira eins og við eigum að venjast. Viðtökur við okkur voru firnagóðar og nokkrar eftirminnilegar sýningar sáum við sem stimplast í heilabörkinn. Vitaskuld var sú flottasta rússnesk; kraftmikil og geislandi „leikglöð“ uppfærsla með slagsmálaívafi á smásögu eftir Ray Bradbury. Önnur góð var frumleg og fáguð uppfærsla ungversks dansleikhúss á sjaldséðu verki eftir Lorca.Að ferð lokinni sneri Bíbí svo heim, og var sýnd á Nýja sviði Borgarleikhússins í júníbyrjun, um sjö árum eftir að frumgerðin var flutt á Litla sviðinu af leikurum hússins og höfundum. Viðeigandi endapunktur á miklu ævintýri .
Ef ekki verður framhald á - Blóðsugur eru jú eilífar…
Þorgeir Tryggvason