Prologus
“Ekki batnar Birni enn banakringluverkurinn”
Þetta gamla spakmæli á svo sannarlega við um áhugamannafélagið Hugleik. Hugleikarar eru rétt einu sinni farnir af stað í þessari hanabjálkaboru þarna á Galdraloftinu fáum til fagnaðar.
Á síðustu árum hefur hver sveitasymfónían rekið aðra og svo var komið að menn voru jafnvel ekki óhultir fyrir sveitasymfóníum í Hugleiksstíl í hinum betri leikhúsum borgarinnar. Nú hefur verið breytt til og ekki til hins betra.
Nú eru vandamál samkeppnisþjóðfélagsins tekin fyrir í fáránlegri skrumskælingu í lélegum Spaugstofustíl. Maður spyr sjálfan sig, hvar er íslensk menning á vegi stödd? Hvað er orðið um veruleikaskyn samtíðarinnar? Leikhúsfólk hlýtur að spyrja sig nokkurra grundvallarspurninga áður en farið er af stað með sýningu. T.d. hvað vill fólk sjá? Þarf ekki verkið að endurspegla mannlegt þjóðfélag og viðhorf? Eiga ekki persónurnar að vera raunsannar með heilbrigðar tilfinningar, hugsjónir, siðgæði, ástir og þrár?
Fullyrða má að öll metnaðarfull leikskáld svari þessum spurningum játandi og miði verk sín við það. En hjá Hugleikurum kveður við annan tón. Arfur fortíðarinnar og siðgæðismat er þeim ekki lengur nokkurs virði. Hjá þeim eru persónur ekki lengur fólk af holdi og blóði heldur afkáralegar fígúrur, hreyfingar þess eru ekki lengur frjálsar og þokkafullar heldur tilgerðarlegar og þvingaðar, siðgæðið er ekki lengur heiðarlegt og kristilegt heldur gegnumrotið og flærðarfullt, orðfærið er ekki lengur þróttmikið og kjarnyrt íslenskt mál heldur enskuskotnar ambögur og útjaskaðir frasar, ást og trygglyndi eru ekki lengur í heiðri höfð heldur einungis klámkennt káf og framhjátökur.
Sem betur fer er Hugleikur ekki vaxtarbroddur íslenskrar leiklistar, þá væri vá fyrir dyrum. Hugleikur er dæmi um úrkynjaða neðanjarðarmenningu sem traðkar á hugsjónum og menningarverðmætum nútímaþjóðfélagsins en upphefur sorann. Megi hann aldrei þrífast.
Árni Hjartarson