Ávarp formanns
Ágætu áhorfendur
Hugleikur heldur sig við sín heygarðshorn. Við kunnum best við okkur í Tjarnarbíói, þó Kaffileikhúsið sé skemmtilegt líka, Við viljum líka halda áfram að rækta höfundana okkar og nú sýnum við frumraun Hildar Þórðardóttur einnar á báti, en áður hefur hún skrifað leikritið Völin og kvölin og mölin í félagi við aðra.
Hugleikskir höfundar halda sig gjarnan á kunnuglegum slóðum. Í fyrra vorum við stödd í hvergilandi þjóðsögunnar með Kolrössu Þórunnar Guðmundsdóttur. Nú erum við uppi á baðstofuloftum og undir hömrunum í íslenskri sveit á gullaldartíma baðstofuleikritanna. Og ræturnar teygja sig lengra en það, stefið um fávísan föður sem vill gifta dætur sínar eftir dyntum sínum og hentugleikum er jafngamalt gamanleiknum. Úr þessu efni vinnur Hildur eftir sínum dyntum og hentugleikum og kemur í hendur leikstjórans sem bætir annarri vídd við í samstarfi við leikhóp og hönnuði sýningarinnar.
Síðastur í þessari skapararöð ert svo þú, áhorfandi góður. Þá fyrst þegar dyntum og hentugleikum áhorfenda er bætt við verður til leiksýning. Áhorfendahópur Hugleiks er einn sá tryggasti á landinu og ekkert gleður okkur meira en það.
Velkominn í heygarðshornið til okkar. Sköpum eitthvað skemmtilegt saman í kvöld.
Þorgeir Tryggvason