Ávarp formanns
Jæja, þá er að hefjast enn á ný eitt herjans mikið grín - að hugleikskum sið. Hugleikur er við góða heilsu, hinn gríðarlegi áhugi, óþrjótandi orka og leiftrandi leikgleði kemur alltaf jafn skemmtilega á óvart.
Uppsetning hjá Hugleik er eins og naglasúpa. Við horfum í tóman pottinn sem er leikárið framundan, það örlar á áhyggjum - hvað er til í búrinu, leynist eitthvað í skápunum? Viti menn! Sprettur ekki fram handrit úr hugskoti Hugleikara. Þá er bara að skella pottinum yfir og fljótlega byrjar aldeilis að krauma. Það finnast hæfileikar í hverju horni, bæði gamlir og nýir og súpan tekur á sig bragð og lit. Húmorinn er undirstaða og við kryddum með tónlist og söngvum (svei mér ef ekki bara óperu), svo er dansað og saumað, hlegið og málað, smíðað og skipulagt, já og hrært og æft, hrært og æft. Hugleikur hefur borið gæfu til þess að hafa hina hæfileikaríkustu leikstjóra á sleifinni sem blanda þessu öllu rétt saman af miklu öryggi. Og þvílík súpa sem er framborin!!
Hugleikur er á fimmtánda ári, fífldjarfur og kokraustur eins og hæfir þeim þroska og hlakkar til afmælisins í apríl. Nýbúinn að slá í gegn í útlöndum á ógleymanlegri norður-evrópskri leiklistarhátíð í Harstad í Noregi. Þar hittust Íslendingar, Rússar, Danir, Lettar, Norðmenn, Litháar, Svíar, Eistar, Finnar og hver veit hvað. Tungumálaörðugleikar féllu í skuggann af hinni sameiginlegu tjáningu í leiklist og tónlist. Þetta var alveg stórkostlegt. Hversu margir hafa t.d. séð þrettán leiksýningar á sex dögum ásamt því að taka þátt í fjöldasöng á „Vertu til er vorið kallar á þig” á tveimur tungumálum við undirleik íslenskrar þverflautu og rússneskrar balalaiku, farið á námskeið í kínverskum óperudansi á eyju fyrir norðan heimskautsbaug og skellt í sig logandi litháísku heimabruggi á eftir?? Áhorfendur Hugleiks héldu vart vatni, vindi né heilsu af hrifningu yfir sýningunni okkar, menn slösuðust við að skella sér í keng af hlátri og við fengum glimrandi gagnrýni í hinu víðlesna blaði Harstad Tidende.
Enda lætur sjálfstraustið ekki á sér standa. Hvað skyldi Hugleik hafa dottið í hug? Jú jú - nú eru það hvorki meira né minna en NÓBELSDRAUMAR. Hér erum við ekki bara einn leikhópur heldur tveir, leikhús í leikhúsi sem ætlar að koma með klassa kassastykki og dreymir stóra drauma. Eða eins og leikhússtjórinn segir: „Mér finnst að röðin sé komin að okkur!” Leikhús verður að láta sig dreyma það sem sýnist ómögulegt og trúa því að draumar geti ræst - þessi mátulegi skammtur af heilbrigðu mikilmennskubrjálæði heldur Hugleik gangandi. Áhorfendum bjóðum við heilræði Árna Hjartarsonar:
Ef virðist þér tilveran guggin og grá, gleðiefnin svo sárafá
geturðu alltaf keypt þér leikhúsmiða.
Það bætir skap og léttir lund að láta um eina aftanstund
lygar, bull og tál þitt hjartað friða.
Takk fyrir komuna.
Hrefna Friðriksdóttir