Ávarp formanns
Sem oft áður blása nú ferskir vindar í Hugleik. Sett er á svið fyrsta leikrit í fullri lengd eftir þrjá unga höfunda innan vébanda félagsins. Þeir þekkja leikhúsið frá mörgum hliðum, hafa skrifað stutta þætti, leikið, sungið, málað, lýst og saumað, svo eitthvað sé talið. Leikstjórinn er líka einn af okkar sönnu þúsundþjalasmiðum og prófar hér þá hæfileika sem hafa þroskast í hinum ómissandi leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga.
Hugleikur ber hér fram þjóðlegt-aldamóta-sveita-stofu-gleðidrama. Til þess að forðast allar deilur um skilgreiningu aldamóta þá er hér ekki horft til þeirra sem yfirvofandi eru heldur svífur aldamótastemming fyrri tíma yfir vötnum. En fleira mætist hér – sveitasælan mætir stórborgarsollinum – íslendingar hitta dani – rússar rekast vonandi inn hjá lestrarfélaginu – stórkaupmaður stígur dans við skraddara – ástvinir mæta örlögum sínum – og svo einkennilega vill til að nánast hver og einn virðist mæta sjálfum sér síðar í verkinu – eða voru Íslendingar kannski meira og minna allir eins!
Hér er Hugleikur kominn heim í íslenska heiðardalinn eftir að hafa siglt um heimsins höf á þessu herrans ári. Mikið er nú hlýlegt að smeygja sér í sauðskinnsskóna, líta í skræðurnar í Lærða skólanum, vera uppnuminn yfir Aðalstrætinu og láta sig dreyma um at få en almindelig dansk stuepige! Megi menningin verma ykkur um stund.
Hrefna Friðriksdóttir