Sagnasafn Hugleiks

Arfur í tröllahöndum

Á hverju ári er það okkur gæslumönnum íslenskrar þjóðmenningar sérstakt áhyggjuefni hvar Hugleikara muni bera niður á gandreið sinni um íslenska sagnaarfleifð. Allt snýst í höndum þeirra. Hið háleita og fagra, hreinn og tær einfaldleiki úr ástarraunum íslenskrar alþýðu, verður í höndum þeirra að ofsoðnum póstmódernískum orðræðusviðum handa utangarðsfólki og menntamönnum af ýmsum gerðum að kjamsa í sig. Rómað sveitalíf frá blómaskeiði þeirrar bændamenningar sem menn þekkja best af byggðasöfnum hefur orðið þeim sífellt yrkisefni, í bland við pólitíska rembuleiki úr nútímanum og útúrsnúninga á okkar fornu sögum og kvæðum. Sturlunga, Hávamál og Fjölnismenn hafa lent í klóm þessa leikhóps sem reynir nú að kroppa í tröllasögur og þjóðlegar hugmyndir um þursa, álfa og álagafjötra. Eins og það sé ekki nóg fyrir okkar voluðu þjóð að hafa þurft að óttast forynjur öldum saman í myrkum torfbæjum.


Gamlar þjóðsagnaperlur eru teknar fram enn á ný til að níðast á fortíðinni og halda á loft hinu ljóta á kostnað hins fagra. Að þessu sinni er klámfengin saga tekin traustataki úr safni Jóns Árnasonar þar sem góða og húslega systirin Helga leikur á vonda risann með því að segjast vera Kolrassa krókríðandi eftir því sem Guðný Einarsdóttir á Akureyri sagði frá – og er það ekki undarlegt að sagan skuli koma að norðan eins og svo margir Hugleikarar. Kolrassa þessi er annars hvergi til nema sem kvennahljómsveit og nú sem leikrit og því er ekki annað að sjá en að hún sé hugarburður og blekkingar Helgu sjálfrara sem nær með þessu bragði að bjarga sér og fjárhag allrar sinnar vondu fjölskyldu með því að eigna sér þýfið úr helli risans í stað þess að kalla á lögleg yfirvöld – eins og skynsöm stúlka hefði átt að gera.


Þessi saga væri eflaust flestum gleymd ef hún hefði ekki fundist í allt öðru samhengi og nokkuð breytt þegar tröllasögur úr safni Gunnars Harðarsonar voru prentaðar í Reykjavíkurbæ fyrir liðlega tíu árum. Þar kom í ljós að enn var verið að segja sögur af þeim systrum Ásu, Signýju og Helgu í Efra-Breiðholtinu og draumum þeirra um að komast úr foreldrahúsum til að skemmta sér í Fellahelli þar sem tröllslegur rummungur vildi kyssa þær og bjóða þeim heim í fylgsni sitt. Sannar þessi saga að tröllatrúin lifir enn góðu lífi með þjóðinni og því er mjög ómaklegt að veitast að fyrri tíðar fólki með háði og spéi í andlegu skjóli þeirrar vísindahyggju sem boðar að tröll hafi aldrei verið til, ekki einu sinni í forneskju. Sögurnar Tröllið í Fellahelli, Flagðið í Vesturbergi og Móðir mín í blokk, blokk, allar úr safni Gunnars og skráðar eftir fólki í Breiðholtinu, sýna ótvírætt fram á tilvist þessara vætta hér og nú. Og hví skyldi þá ekki hið sama gilda um fyrri tíð?


Ljóðskáldið spurði: „Eru álfar kannski menn?“ Við getum velt því fyrir okkur hvort í þeirri djúpvitru spurningu leynist ekki lykillinn að skilningi á Kolrössu krókríðandi og þeim sagnaarfi sem hún er sprottin úr. Kannski situr hún okkur nær en við höldum. Kannski er hún ekki bara hugleikur á sviði. Kannski situr hún í næsta sæti við þig og þylur enn: „Kom ég þar, breitt var á bekki, brúður sat á stól, full vor öll ker svo út úr fló.“

Gísli Sigurðsson