Sagnasafn Hugleiks

Þáttaskil

Kæru áhorfendur


Velkomnir á Sirkus. Þegar höfundar verksins vilja vera hátíðlegir (sem er blessunarlega sjaldan) tala þeir um það sem þriðja og síðasta hlutann af þríleik um sjálfstæði Íslands. Í Stútungasögu er sagt frá því hvernig við missum sjálfstæðið, Fáfnismenn skýra hvernig það endurheimtist á ný og Sirkust fjallar um... ja það sem gerðist 1949. Fæst orð hafa minnsta ábyrgð þegar ætlunin er að koma áhorfendum á óvart.


Öll fjalla þessi verk um tímamót. Og það er því því óneitanlega viðeigandi að lokakaflinn sé frumfluttur á þessu tímamótleikári.Hugleikur fagnar nú á vordögum tuttugu ára afmæli sínu, en venja er að miða aldur hans við frumsýningu Bónorðsfararinnar 14. apríl 1984. Við horfum stolt um öxl á þessi tuttugu leikár, höfum vart tölu á verkunum sem hafa verið skrifuð og sýnd undir merkjum félagsins, hvað þá öllum þeim aragrúa fólks sem tekið hefur þátt í að skapa þau eða mannárunum sem það hefur kostað. Við höfum heldur varla yfirsýn yfir öll þau húsnæði sem við höfum tekið okkur bólfestu í til að sýna, æfa, geyma, funda, smíða, mála, sauma, elda baunasúpu, syngja og gleðjast. En líka á því sviði eru nú þáttaskil.


í nóvember á síðasta ári festi Hugleikur kaup á húsnæði að Eyjarslóð 9 í Reykjavík. Tuttugu ára draumur um fastan samastað hefur loksins ræst. Það var ólýsanleg tilfinning að bera hafurtaskið inn um dyrnar og hrein sæla að fylgjast með fyrstu æfingunum, smíðunum og saumunum í nýja húsinu. Fyrsta súpan var líka yndisleg.


Við trúum því að húsið okkar verði skapandi starfi félagsins mikil lyftistöng og að í hönd fari tímabil enn meiri grósku, krafts og gleði. Vonandi sést þessa strax stað í sýningu kvöldsins.


Góða skemmtun.

Þorgeir Tryggvason