Sagnasafn Hugleiks

Ávarp formanns

Enn einu sinni erum við hér saman kokmin á fjölunum til að flytja ykkur, elskulegu áhorfendur, nýjasta hugverk okkar í Hugleiki, hið hugljúfa leikverk Ó, þú...


Ein og fram hefur komið í ótal blaðagreinum og útvarp- og sjónvarpserindum þá er þessi vettvengur áhugaleikhúss sem við höfum skapað hér í höfuðborginni orðinn svo rótgróinn og ómissandi fyrir menningarlífið í vetrarlok, að við getum ekki annað en haldið áfram.


Hugleikur, sem segja má að hafi komið undir í aftursæti á bíl í miðbænum í Reykjavík, hefur þroskast og dafnað ár frá ári síðan þá og er nú orðinn stór.


Fólk kemur, verður með, sumir stoppa stutt við, en aðrir og miklu fleiri ílengjast, skjóta rótum og verða að óaðskiljanlegum hluta heildarmyndarinnar. Og eftir því sem leikritin urðu fleiri og hróður okkar óx og eftir að við urðum „sérstætt blóm í leikhúsflóru höfuðstaðarins, óvenjuleg og frumleg“, eins og einn gagnrýnandinn orðaði það, opnuðust flóðgáttir og fólk fossaði inn. Enda höfum við aldrei riðið úr hlaði með eins marga nýja upprennandi gæðinga og nú. Og svona þér að segja áhorfandi góður að ef þú elur með þér draum – drauminn um að klæða þig í gerfi, bregða þér í hlutverk – vera annar en þú ert. Ef þú elur með þér draum að eftir amstur dagsins og glímuna við hversdagsleikann, bregða þér upp á leiksvið og láta gamminn geysa, þá komdu og vertu með.

Ingibjörg Hjartardóttir