Ávarp formanns
Þegar Hugleikur varð til fyrir tæpum tíu árum dreymdi okkur um að verða leikhús þar sem við gerðum allt sjálf. Skrifuðum leikritið, lékum, gerðum búningana, sminkið, leikmyndina og allt. Þetta hefur tekist. Félagarnir allir leggja hönd á plóginn og til verður leikhús. Forsendan fyrir öllu saman er að einhver semji leikrit og alltaf er einhver búinn að því, á hverju einasta ári. Stundum tvö frekar en eitt.
Höfundarnir í Hugleik, hafið þið hugleitt hverskonar fyrirbæri það eru? Þetta fólk sem situr allt árið og hugsar um næsta leikrit. Þeir semja heima, þeir semja á ferðalögum, þeir leggja stundum nótt við dag og hugsa, tala saman, hringjast á. Þeir kúra tveir og tveir sman eða í hópum í sumarhúsum við falleg vötn, stara út á vatnið og skapa þessi unaðslegu leikrit. Þeir eru stundum með ferðatölvur með sér eða þá þeir rogast með gömlu tölvuna út í bíl og búa um hana í aftursætinu. Sumir eru bara með ritvél eða blað og blýant. Þeir eru alltaf að. Hvað er það sem knýr þá áfram? Fyrir utan sköpunarþörfina þá vita þeir að þrjátíu hugleikarar bíða með öndina í hálsinum og vona að til verði hlutverk handa sér. Hugleikarar eru nefnilega allir prímadonnur.
Að þessu sinni eru Anna Stína og Unnur höfundar leikritsins og við sýnum það á haustönninni vegna þess að í vor ætlum við að halda upp á tíu ára afmælið og þá breytum við kannski til og komum ykkur á óvart, kæru aðdáendur.
Í öllu þessu má ekki gleyma leikstjóranum sem alltaf kemur að nýsömdu verki sem aldrei hefur verið sett á svið áður. Hann þarf oftast að strika út og bæta við, auðvitað í samráði við viðkvæma rithöfundana. Hann tekur svo sannarlega þátt í sköpun verksins. Allir leikstjórar okkar hafa sem betur fer verið bjartsýnis- og hæfileikafólk og við vitum að við eigum þeim mikið að þakka. Og ykkur, kæru áhorfendur, eigum við mest að þakka, því það eruð þið sem setjið endapunktinn á sköpunarverkið með nærveru ykkar og þátttöku í sýningunni.
Sigrún Óskarsdóttir