Ávarp formanns
Hugleikur er nú í miðju kafi á sínu níunda starfsári. Þessi litli veikbyggði sproti sem setti upp „Bónorðsförina“ fyrir vini og vandamenn fyrir átta árum. Þessi litli sproti sem varð svo ofboðslega hissa þegar kom ókunnugt fólk sem var hvorki vinir né vandamenn neins af þeim sem tóku þátt í sýningunni. Við lágum á bak við tjöldin í kjallara Hlaðvarpans og spurðum hvert annað: „Á hvers vegum er konan á 3. bekk sem hlær svo mikið?“ Og svo þekkti hana enginn og mikið urðum við hissa.
Litli veikbyggði sprotinn hefur dafnað með ólíkindum. Nú stendur hann rótgróinn og laufgaðar greinar hans eru sannkallað jólaskraut í reykvísku menningarlífi.
Það eru í rauninni bara tvö vandamál sem við eigum við að stríða þessa dagana.
Í fyrsta lagi stefnir í algjört óefni með hvað margir af meðlimunum eru farnir að skrifa leikrit. Hvaða áhugaleikfélag ræður við að hafa innan sinna vébanda eina 10 leikritahöfunda? Það getur ekki farið vel, með aðeins eina sýningu á ári. Og ein 4 tónskáld! Hjálpi oss sá sem vanur er.
Í öðru lagi vefst ægilega fyrir okkur hvernig verðugt sé að halda upp á 10 ára afmælið á næsta ári. Einn hefur lagt til að Hugleikur, eins og önnur afmælisbörn, fái tvíhjól á 10 ára afmælinu. En hvað á Hugleikur að gera með hjól þegar hann á hjólastól? Annar heimtar að við höldum upp á afmælið með því að vinna alþjóðlega samkeppni áhugaleikfélaga á Aruba (eyja í karabíska hafinu), og enn annar vill gera kvikmynd í fullri lengd og enn annar vill gera 87 þátta framhaldsmyndaflokk fyrir sjónvarp um misheppnuð ástarævintýri Íslendinga af Sturlungaætt. Það er svo sem ekki það að Hugleikarar séu ekki alltaf veikir fyrir ástarævintýrum, – en okkur er svo sannarlega vandi á höndum. Hvað leggur þú til, kæri áhorfandi?
Hjördís Hjartardóttir