Sagnasafn Hugleiks

Ávarp formanns

Hvað er Hugleikur? kynni einhver að spyrja.


Hugleikur er áhugaleikfélag í Reykjavík, segjum við þá og nú orðið finnst okkur það alltaf hafa verið til.


Hvert er upphafið?


Leikfélagið varð til fyrir níu árum. Fámennur hópur stofnaði Hugleik á bókasafninu í Bústaðakirkju. Svo einfalt er það. En er þetta svona einfalt?


Um daginn heyrði ég sagt frá því að menn hefðu mikið velt fyrir sér upptökum Dónár. Ástríðufullur áhugamaður fór í rannsóknarleiðangur og þóttist komast að því að upptök árinnar væru undir eldhúsgólfinu á örsmáu koti þar sem gömul einsetukona bjó. Undir þessu eldhúsgólfi er uppsprettulind sem leidd er inn í eldhús kerlingar í gegnum krana. Eftir að hafa uppgötvað þetta spurði maðurinn sig þessarar spurningar: Hvað verður um Dóná ef skrúfað er fyrir þennan krana? Hættir hún þá að vera til?


Sem betur fer er það ekki bara þessi litla uppspretta sem myndar fljótið Dóná, heldur falla í hana á leiðinni ótal aðrar litlar sprænur, uns hún dunar fram og dillar sér í valstakti um löndin.


Hugleikur er orðinn eins og lifandi stöðuvatn. Í þetta stöðuvatn renna margir lækir og ár sem hafa fundið sér farveg að þessu vatni. Sumar þessar sprænur eru mjóar, aðrar breiðar, sumar vatnsmiklar, aðrar straumharðar. Þær eru sumar komnar langt að, aðrar skemmra. Að vestan, austan, norðan eða bara héðan. Gróskan í stöðuvatninu eykst ár frá ári. Þar synda fiskar af öllum hugsanlegum tegundum og margvíslegir að gerð. Þeir eru allir litskrúðugir. Þannig á það að vera.


Til að halda lífi í öllum þessum fiskum hefur vaxið upp fjölbreytilegur gróður sem er listilega saman settur. Og svo, til að allir lifi og uni glaðir við sitt þá skín sólin yfir öllu saman og veitir birtu og yl.


Niður að þessu stöðuvatni kemur fólk, í byrjun hikandi eins og landkönnuðir sem koma á ókunna slóð en síðan öruggir í fasi. Þetta fólk hefur gaman af að dunda sér við vatnið eina kvöldstund. Það fer í gönguferð í kringum það og virðir það fyrir sér, sumir stinga sér til sunds, aðrir reyna að veiða en aðrir bara horfa. Sumir velta fyrir sér fiskeldi. Allir fara svo heim að sofa og dreymir vel. Vonandi langar þá lltaf að vatninu. Vonandi finnst fólkinu þetta vatn alltaf vera síbreytilegt og forvitnilegt, vetur, sumar, vor og haust.

Sigrún Óskarsdóttir