Ávarp formanns
Það er mikill siður í ávarpi þessu að rekja tilurð Hugleiks litla. Ekki verður hér tekið þátt í almennu dægurþrasi um það mál, enda yrði það einungis til að rugla fólk.
Öllum viti bornum og vel meinandi mönnum er löngu ljóst að Hugleikur var af himni sendur. Hugleikur á það sameiginlegt með þeim sem koma til jarðar á sama hátt að vera ofurmenni, gera kraftaverk, laða að sér áhorfendur og verða börnum sem fullorðnum fyrirmynd í leik og starfi.
Fleira líkt með Hugleik og Superman? Já, báðir ólust upp í sveit, báðir eru dýravinir, báðir bera hag vestrænnar bændamenningar fyrir brjósti og eru á móti samyrkjubúum og samnýtingu hverskonar. Þeirra kjörorð er: „Hver maður sinn traktor.“
Þeir bræður, Superman og Hugleikur, eiga það líka sameiginlegt að láta sig ýmis mál varða. Fullt samkomulag hefur ætíð verið um verkaskiptingu þeirra í milli. Superman sér um hin stærri mál, að bjarga heiminum og þess háttar. Hugleikur tekur aftur á móti hin smærri mál til umfjöllunar og meðferðar.
Oftast er um að ræða erfiðari mál, tilfiningalegs eðlis, svo sem fiskeldi, ástina, dulræn efni, nyt kúa, ferðabransann, heyskaparhorfur, hannyrðir, verslunarrekstur o.s.frv. Viðkvæm málefni sem legið hafa í þagnargildi, þjóðinni allri til tjóns og vansa.
Superman segir (í Superman I): “I am here to save the American way of living.“ Hugleikur segir: „Ég er mikilvægur strengur í lífi hinnar íslensku þjóðar. Viðkvæmur strengur, fremur dulur en blíur, ástríkur og ófalskur í framkvæmd, frumlegur í hugsun, framsækinn og ötull, en ávallt trúr fjölskyldu, vinum og þjóðinni allri. Strengur sem er kominn til að vera og birtist í I, II, III og eins lengi og rómverska stafrófið endist.
Jón DaníelssonHHH