Sagnasafn Hugleiks

Hugleiðingar formanns

Elsku hjartans áhorfendur,


Eins og flestum ykkar er kunnugt þá varð hann Hugleikur okkar til í húsakynnum Borgarbokasafns í Bústaðakirkju þann 13. febrúar 1984. Fyrsti formaður og aðalhvatamaður að stofnun þessa áhugaleikhúss í Reykjavík var Ingibjörg Hjartardóttir. Ingibjörg er eldheitur talsmaður byggðastefnu og vildi hún að Reykvíkingar fengju, eins og aðrir landsmenn, að njóta þes að fá að leika í leikriti og yfirleitt að baða sig upp úr hinni sönnu, tæru áhugamennsku.


Við hin sem leyfðum þessu ljósi að tendrast í brjóstum okkar vorum, ef satt skal segja, örlítið treg í taumi til að byrja með. Þó kviknaði þarna á safninu örliítil hugmynd að kvöldvöku að gömlum íslenskum sið. Við seildumst upp í hillur safnsins og viti menn, þar lá gamalt leikrit sem bara beið eftir því að verða leikið. Þetta var Bónorðsförin eftir Magnús Grímsson.

Leikrit frá 1852.


Auðvitað var enginn vandi fyrir hana Steinunni Gunnlaugsdóttur að leistýra Haraldi Bessasyni í elskhugahlutverki á móti henni Önnu Stínu. Eða Jóni föðurbróður í hlutverki vonbiðilsins. Agavandamál voru sáralítil. Húsnæðisvandi nokkur. Gestir okkar á kvöldvökunni í Félagsstofnun stúdenta hafa þó aldrei séð eftir því að verða vitni að fyrstu skrefum Hugleikara á sviði. Sviðið var reyndar ekkert svið, heldur pallur sem glumdi í þegar gengið var um hann. Til hliðar var annar pallur, bak við hann sat hvíslarinn, sem reyndar þótti leika annað aðalhlutverkið þetta kvöld. Áhorfendur grétu úr hlátri þegar hárkollur leikaranna hrukku af þeim og þeyttust út á gólf í hita leiksins. Lýsing var engin. Ein pera fyrir miðju sviði. Það var alveg nóg. Að lokinni leiksýningu hél kvöldvakan áfram með söng, kvæðaupplestri og kaffidrykkju. Hlaðborð svignaði undan flatkökum með kæfu og hangikjöti og umræður urðu fjörugar um hina dýpri merkingu verksins.


Þegar við gengum heim í vornóttinni, berandi leikmuni og buninga, bakka undan kökum og peninga í Makintosdollu, þá vissum við að leikfélagið okkar var orðið að veruleika. Við gárum ekki sofnað fyrr en hann Sindri var búinn að spila nokkur lög á píanóið á lögheimili félagsins og hann Bjössi var búinn að syngja „Ástfanginn blær...“


Það var síðan í fallegu stofunni hennar Siggu og hans Sindra á Básenda þar sem einhver sagði þessa setningu, „Er endilega víst að Skugga-Sveinn hafi verið karl?“ Þögn sló á mannskapinn. „Má kannski bara breyta honum í konu?“


Æfingar hófust á Skugga-Björgu undir stjórn Bjarna Ingvarssonar. Og nú mátti sjá lítinn hóp á þvælingi um bæinn undir alvæpni. Atgeirinn þar tilkomumestur. Börnin okkar þvældust með og sofnuðu á gólfinu undir vopnagný og söng.


Þar kom að vinir okkar í Leikfélagi Kópavogs lánuðu okkur Hjáleiguna sína og þar var frumsýnt. Við ætluðum bara að sýna eitt kvöld, við kunnum ekkert annað. En þá kom Sigrún Valbergsdóttir til okkar að lokinni sýningu og spurði hvort við værum brjáluð að sýna þetta bara einu sinni. Við værum frábær, við værum frumleg... Hikandi trúðum við henni, vissum ekki þá að það var hún sem var frábær og frumleg. Sýningar voru teknar upp að nýju í Hlaðvarpanum um haustið og eftir það vorum við viss um hvað við vildum. Við vildum semjaokkar leikrit sjálf, vera sannir „amatörar“ og gleyma því aldrei. Bjarni hvatti okkur til dáða og undir hans stjórn varð leiksýningin „Sálir Jónanna“ til. Sigrún Valbergsdóttir studdi okkur næstu skrefin í „Ó þú“ og „Dularfulla hvarfinu“.


Hanna María kom svo til leiks í fyrra þegar hún „Ingveldur á Iðavöllum“ og skáldið hennar kusu að segja brot úr sögu sinni á Galdraloftinu. Vor eftir vor höfum við kosið Galdraloftið fram yfir Bláfjöll og jafnvel þótt margir hafi svarið þess dýran eið að vera ekki þar næsta vor heldur njóta útivistar og leggja stund á heilsusamlegar almenningsíþróttir, þá mætum við aftur og aftur og meira að segja bætast fleiri og fleiri í hópinn.


Og núna, árið 1990, hefur bæst við úr okkar hópi nýtt leikritaskáld, Árni Hjartarson. Hann hefur áður látið sér nægja að semja texta og lög fyrir hópinn en stígur nú skrefið til fulls og semur allt saman, leikrit, texta og lög.


Kæru áhorfendur, við þökkum af heitu Hugleikshjarta fyrir komuna. Við vitum að þið eruð þarna úti í iðandi borginni og þráið það framar öðru á vorin að koma á sýninguna hjá okkur. Við vonum að ykkur finnist að þið séuð að segja sögu uppi á sviði, grátandi, hlæjandi, vond eða góð.


„Dragðu ekki það að leika þar til þú eldist því að þá kannski upp af hrekkurðu heldur skjótt og hefur hreint aldrei leikið neitt.“

Sigrún Óskarsdóttir