Sagnasafn Hugleiks

Um hina dýpri innviðu verksins

Verið þið hjartanlega velkomin í rammíslenskt aldamótaumhverfi og þar með í íslensku sveitasæluna sem okkur í Hugleik þykir svo unaðslega, að við látum okkur dreyma inn í hana þegar hamagangurinn í borgarsamfélagi nútímans verður okkur of erfiður. Þið eruð komin til að taka þátt í þessum draumi með okkur um stutta stund og þið eruð hjartanlega velkomin.


Leikritið sem Hugleikur flytur ykkur að þessu sinni fjallar um Ingveldi, húsmóður á Iðavöllum, og líf hennar, vonir og þrár, gleiðistundir, vonbrigði og þunglyndistímabil og sigur hennar að lokum. Um Ingveldi snýst allur heimurinn í þessu leikriti. Flestar persónurnar hugsa um það eitt að fjölga sælustundum í tilveru hennar og skapa henni lífshamingju. Það er heldur ekki nema von, því sennilega er Ingveldur á Iðavöllum fegursta kona í heimi og að minnsta kosti jarðarvirði. Þannig hefur hún verið frá æskudögum og verður það sennilega alltaf því slíkar konur eru eilífar og eldast ekki. En þótt allt heimilisfólk leggist á eitt við að skapa Ingveldi þá lífshamingju sem hún á svo sannarlega skilið, er stundum eins og hún kæri sig ekkert um það sjálf. Hún kýs að setja sér annað mark. Leið hennar að því marki er vissulega þyrnum stráð, en hún vinnur þó eins konar sigur að lokum. Það er stór sigur, því ef til vill er það sigur á sjálfum dauðanum. Þannig endar þetta leikrit vel, eins og öll leikrit eiga að gera.


Og þó! – Ekki er allt sem sýnist. Ef til vill er Ingveldur á Iðavöllum bara aukapersóna í þessu leikriti, þótt það beri nafn hennar. Kannski er þetta fyrst og fremst þjóðsaga, – þjóðsagan um íslenska skáldið sem hefur dvalið langdvölum fjarri ættjörð sinni og ort fegurstu kvæði heimsins sitjandi á danskri krá með kollu af öli fyrir framan sig; saga skáldsins, sem í óslökkvandi þrá sinni eftir fegurstu konu heimsins, – þeirri sem hann forðum varð að skilja eftir heima á Íslandi, – hefur uppgötvað, að eiginlega er aðeins til ein kona, – ein kona með mörg andlit, það er sama hvort hún er gift sílesandi fræðibónda í sveit á Íslandi, umkomulítil vinnukona í hálmbing úti í skemmu, eða vellauðug ekkjubarónessa í Kaupmannahöfn, – það er allt ein og saman konan, einmitt sú kona sem varð eftir heima á Íslandi fyrir mörgum, mörgum árum.


En kannski er skáldið ekki heldur aðalpersóna leikritsins. Kannski er leikritið í raun og veru harmleikurinn um ráðsmanninn sem er svo lítilþægur að hann þarf ekki að fá í sinn hlut nema pínulítið brot af lífshamingjunni til að vera ánægður. Hans heitasta ósk er að fá að halda áfram að una glaður við sitt. Konan sem hann elskar má gjarna vera gift öðrum. Það sakar hann ekki, svo lengi sem hann fær að hjálpa henni af baki og hirða um söðulinn hennar, sem er mikill kostagripur, enda smíðaði ráðsmaðurinn hann sjálfur. En þegar ráðsmaðurinn sér tilveru sína riða til falls, þá beitir hann ofurlitlu kænskubragði til að snúa þróun mála sér í hag. Það er kaldhæðni örlaganna að þessi litla og tiltölulega saklausa brella skuli verða honum að falli, einmitt þegar sigurinn virðist í höfn.


En ef til vill er þetta ekki heldur kjarni málsins. Kannski er leikritið okkar þegar allt kemur til alls hreint ekki neinn harmleikur, heldur þvert á móti eins konar gleðisöngur. Gleðisöngurinn um lundlétta smalann sem lyftir geði húsmóður sinnar á raunastund með fjörugum söng um dillandi dans á ströndinni; smalann sem býr yfir öllum þrótti æskunnar og er svo fullur af lífi. Kannski mun hann einhvern tíma í framtíðinni, ef all fer vel, erfa kóngsríkið, – eða að minnsta kosti söðulinn.


Það getur líka verið að leikritið fjalli um eitthvað allt annað, til dæmis þá ógæfu íslensku þjóðarinnar að hingað til lands skyldi lagður ritsímastrengur árið 1906 í stað þess að koma á beinu talstöðvasambandi við útlönd, eins og framsýnir bændur vildu. Þeir fóru meira að segja í hópreið til Reykjavíkur til að leggja áherslu á kröfur sínar. Talsamband við útlönd komst ekki á fyrr en rúmum þremur áratugum síðar, en íslenskum börnum hefur æ síðan verið kennt, að bændur hafi veri á móti símanum. Þannig skrifa sigurvegararnir söguna.


Og þó er allt þetta ef til vill hjóm eitt hjá hinni sígildu sögu af henni Stínu vinnukonu, sem er svo umkomulaus að öllum þykir sjálfsagt að nota hana sjálfum sér til framdráttar; nota æsku hennar og fegurð, líkama hennar og jafnvel afrakstur ástar hennar, barnið sem hún hefur alið í sínum eigin líkama. – Aftur og aftur eru tilfinningar hennar hafðar að leiksoppi, rétt eins umhugsunarlaust og maður fórnar peði á skákborði til að vinna drottningu – eða kóng.


Svo má líka vera að hinn dýpsta sannleik þessa verks sé að finna í umfjöllun þess um prestastéttina og þá ógæfu hennar á sextándu öld að fylgja fordæmi Lúters og gifta sig. Ekki má heldur gleyma föllnu konunni, sem vissulega hefur kannski valið sér heldur vafasaman starfa, en frelsið er stundum dýrt og hún á sér von sem hún syngur um. Hver veit nema vonin rætist. Annað eins hefur nú gerst.


Fjölmiðlar nútímans státa sig gjarna af því að þora. Sumri halda því fram að þetta þor sé einkum fólgið í því að birta óstaðfestar æsifregnir. Við ímyndum okkur svo, að þetta sé nútímafyrirbrigði og kannski talandi tákn þess að heimurinn fari versnandi. En skyldum við þá ekki gleyma hinum „óljúgfróðu“ förukonum fortíðarinnar, sem fóru létt með að breyta ættgöfugri prestsfrú í fallna konum.


Þjóðsagnapersónur eiga sér fastan sess í leikritum Hugleiks. Hver man ekki eftir Jóni sterka í Skugga-Björgu? Í þessu leikriti heitir hann Páll sterki og er kannski – í bókstaflegri merkingu – allra sterkastur í munninum. Þjóðsagan um hraustmennið er heldur alls ekki svo fjarri raunveruleikanum, þegar öll kurl koma til grafar. Hverju skiptir hvort maðurinn heitir Jón eða Páll? Kannski gæti hann allt eins heitið Jón Páll.


Draumurinn um fyrirheitna landið hefur sjálfsagt fylgt okkur frá upphafi vega. Forfeður okkar og formæður yfirgáfu öryggi trjákrónunnar á sínum tíma og héldu út á sléttuna í leit að þessu landi. Við, afkomendur þeirra, erum enn að leita og kannski finnum við það einhvern tíma. Á þennan draum okkar um fyrirheitna landið hafa falsspámenn hvers tíma jafnan spilað og Vesturheimsagentinn okkar er þar engin undantekning. Hann kann líka vel að koma fyrir sig orði og á fallegar myndir í fórum sínum. Hins vegar kann að skorta nokkuð á að hann beri næga umhyggju fyrir dætrum sínum. Dætur spámannsins sanna hins vegar hið fornkveðna að þangað er klárinn fúsastur sem hann er kvaldastur og þær láta sig hafa það að bera farangur föður síns og jafnvel hann sjálfan þegar mikið liggur við.


Nú orðið kunna sjálfsagt fáir Lomber. Þetta spil var þólengi afar vinsælt á Íslandi og við sýnum ykkur hérna dæmi um hjón sem töpuðu öllu sínu í Lomber, – öllu nema einum hlandkopp, sem konan ber jafnan með sér, hvert sem hún fer, og gætir eins og sjáaldra augna sinna. Og hver veit, – kannski er ekki alónýtt að eiga kopp. Að minnsta kosti segir máltækið að betri sé koppur en kelda. Ef til vill má draga þann lærdóm af raunasögu eignalausu hjónanna, að við Íslendingar ættum að gera meira af því að spila Lomber. Það hlýtur þó að minnsta kosti að vera skemmtilegra að tapa aleigunni á einu bretti í spilum, en að horfa upp á vísitölumisgengi nútímans éta hana upp í áföngum.


Fólk eins og Haraldur blindi og Fóstran ætti eiginlega að vera til á hverju heimili. Þau eiga það sammerkt að sækjast ekki eftir gæðum þessa heims. Þau hugsa fyrst og fremst um aðra. Það kann að vera að þau hafi einhvern tíma í æsku sinni átt sér drauma um glæsta framtíð, eins og við hin. En sennilega hafa þeir draumar aldrei ræst. Þau láta þó ekki hugfallast, því þau búa yfir þeirri djúpstæðu vitneskju sem ein skiptir máli. Nefnilega að allt tekur enda. En jafnvel þótt þessi speki sé á sinn hátt endanleg og fullkomin, þá vita þau líka að allt heldur áfram. Sá sannleikur er þeim ekki síður ljós og þar sem þau vænta ekki framar neins fyrir sjálf sig, leggja þau nú alla orku sína í að tryggja lífshamingju þeirra sem á eftir koma. Fyrirheitna landið freistar þeirra ekki. Þeirra framtíð er á Iðavöllum.


Eða er það kannski hún Rúna, vinnukonan á prestsetrinu, sem reynist merkasta persónan í leikritinu þegar leikhúsfræðingar framtíðarinnar hafa loks krufið textann til mergjar. Þetta tryggðatröll, sem sinnir hverju sem gera þarf, hvort heldur það er að bera kirkjugestum kaffi, hlaupa á næstu bæi eftir rúgmjöli eða draga að efni í nýja kirkju. Hún segir að vísu ekki margt en sinnir öllum skylduverkum sínum með sömu hógværðinni, þótt hún hafi átt við erfiðan magasjúkdóm að stríða í mörg ár og engar horfur á bata, enda hefur sennilega engum dottið í hug að leita læknis.


Það er þannig ekki gott að segja hver er aðalpersónan í þessu leikriti, ef það er þá nokkur. Enda gildir auðvitað það sama í leikritinu og í lífinu sjálfu, að nafli alheimsins er jafnan þar sem maður er staddur sjálfur. En það skiptir auðvitað ekki nokkru máli. Það er hvort sem er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er jafnvel ekki heldur að þið skemmtið ykkur, góðir sýningargestir. Aðalatriðið hjá okkur Hugleikurum er nefnilega að við skemmtum okkur sjálf. Og það verður að segjast eins og er, að það er reglulega huggulegt af ykkur að koma hingað í kvöld til þess að gera okkur það kleift.

Jón Daníelsson