Varnaðarorð
Hávamál eru ekki gamankvæði. Þau eru orð Óðins til manna, fornt spekikvæði úr heiðni sem alkunna er að Stútungar létu skrá á skinn eftir Haraldi ættföður sínum á banabeði skömmu eftir að leikriti Hugleiks um sögu Stútunga lauk fyrir nokkrum árum. Hávamál fjalla um vináttuna og lýsa því hvernig haga beri mannlegum samskiptum: Taktu vel á móti gestum, vertu ræðin(n) og skemmtileg(ur) þegar þú kemur í heimsókn, ekki háma í þig matinn og drekka þig blindfulla(n), hefndu þín á óvinum þínum en vertu góð(ur) við vini þína, gættu þín á hverflyndi kvenna og lærðu heima (rúnir og galdur). Og þér mun vel farnast. Orðstír þinn deyr aldregi.
Ekki verður sagt um Hugleikara að þeir hafi tileinkað sér mikið af þessum leiðbeiningum og sannast orð Hávamála á þeim: "Margur verður af öðrum api." Þó má sjá þess merki að þeir hafi skilið sumt sínum skilningi eins og það sem segir um að æfingin skapi meistarann: "Æfa til snotur sé". Þess vegna hafa þeir nú æft sig lengi í von um að verða snotrir.
Slíkar og þvílíkar vitleysur eru nú færðar upp á svið og afhjúpa ekkert annað en víðkunnan aulahúmor og orðaleikjabrandarahengilshátt sem hefur fyrir löngu gengið sér til húðar. Þar að auki hefur þessum bröndurum farið mjög aftur frá því í gamla daga þegar allt var frumlegra og betra – eins og einn leikdómari benti einu sinni á af skarpskyggni sinni. "Ó, þessi tæri einfaldleiki!" mátti þá með sanni segja um leikgleðina á sýningum Hugleiks.
Sá furðulegi skilningur sem hér er lagður í mörg af fegurstu erindum Hávamála á sér enga stoð í fornum orðabókum og viðurkenndum skýringum við kvæðið. Því verður að vara áhorfendur við óæskilegum áhrifum þessa leikverks. Að fara í leikhús getur verið góð skemmtun en trúr sínu póstmóderníska eðli hefur Hugleikur nú stillt sér upp á milli þín, leikhúsgestur góður, og hins forna kvæðis og heimtar að þú lesir kvæðið héðan í frá í gegnum hin hugleiksku gleraugu fáránleikans. Þar með er Hugleikur orðinn höfundur Hávamála í skilningi bókmenntafræðinnar, hefur sest í sæti Óðins sem getur reynst fákunnandi mönnum lífshættulegt. Þessum leikflokki er bersýnilega ekkert heilagt. Ekki einu sinni Hávamál. Og það á kristnitökuári.
Gísli Sigurðsson