Sagnasafn Hugleiks

Ávarp formanns

Enn á ný heimtir hver sitt geð gumi á landi voru. Hugleikur er aftur um kominn til að ganga sinna verka á vit. Þó elli gefi honum engi frið frekar öðrum þá oft er gott það er gamlir kveða. Vitur er sæll af verkum vel og sjaldan hefur sofandi sigur.


Hugleikur hefir um fjöld farið. Vits er þörf þeim er víða ratar og fór Hugleikur Háva ráðs að fregna. Var yfir því hangið meira en nætur níu og bert ég nú mæli enda er mál að þylja. Mínum orðum skyli trúa þó hér kveði kona og verði hver maður svo tryggur að þessu trúi öllu. Það kann ég, ef ég vil hins svinna manns hafa geð allt og gaman, að mæla skal þarft eða þegja. Það kann ég auklega, er öllum er nytsamlegt að nema, að leiklist heitir eitt það þér hjálpa mun við sökum og sorgum. Leiklist er góð ef þú getur, nýt ef þú nemur og þörf ef þú þiggur. Það kann ég hið þriðja, ef mér verður þörf mikil, að ljúfur verður leiður ef lengi situr án leiklistar. Hugleikur mun því hér Háva ráð leika.


Gáttir allar áður gangi fram um skoðast skyli. Óvíst er að vita hvar gleði er að finna fyrir en þess er þörf þeim er inn er kominn og hefur um fjall farið. Oft vita ógjörla þeir er sitja inni fyrir hvers kyns það er sem kemur. Af hugviti sínu skal maður eigi hræsinn vera en hitt ég hugða að Hugleikur hafa muni geð ykkar allt og gaman. Hugleikur það veit er hann vita þarf og býr hjarta nær að maður er manns gaman, hvar manvit fer og hyggjandi. Illu feginn verður þú aldrei áhorfandi góður og að háði og hlátri höfum vér aldrei gesti né gangandi. Hugum vér að fagurt skuli mæla sá er vitandi vits vill viðhlæjendur fá en Hugleikur veit alla sína viðhlæjendur vini. Munum vér vita geðs og gæta í leik vorum, því vin sínum skal horskur maður vinur vera. Vitum vér að vesæll maður, ósnjall og illa skapi hlær að hvívetna en fátt skortir hinn fróða þann er þagall og hugall augum skoðar.


Veistu ef þú vin átt þann er þú vel trúir, þar er Hugleikur. Gott er við hann geði að blanda, fara að finna oft þá er hann fegurst mælir. Orðstír deyr aldrei hveim sér góðan getur.


Að kveldi loknu skal leik lofa og brátt eru Hávamál kveðin í húsi þessu. Heill sá er kvað, heill sá er kann, njóti sá er nam, heilir þeir er hlýddu.

Hrefna Friðriksdóttir