Sagnasafn Hugleiks

Allt nýtt – eins og venjulega

Hugleikur frumsýnir nýtt íslenskt leikrit eftir nýjan höfund úr röðum félagsmanna. Nýr leikstjóri er fenginn til að setja verkið upp í nýju leikhúsi. Efnistök höfundar og leikstjóra eru nýstárleg. Umfjöllunarefnið er nýtt fyrir félagsmönnum, hin nýja heimsmynd fjölmenningarinnar.


Hvað á þetta að þýða? Er verið að umbylta öllu í þessu félagi? Er svona nýjungagræðgi holl? Hvað með venjur og hefðir? Munu staðfastir vildarvinir og áhangendur Hugleiks ekki snúa við honum bakinu þegar öllu hinu gamla og góða er kastað fyrir róða?


En auðvitað er þetta ekkert svona. Eða réttara sagt, það er gömul saga að allt sé sífellt nýtt. Það bætast stöðugt við nýir höfundar. Við leitum sífellt að nýjum leikstjórum til að kenna okkur ný vinnubrögð. Húsin sem við höfum sýnt í eru orðin ófá. Tilraunamennska og hæfileg virðing fyrir hefðum leikritunar og sviðsetningar er snar þáttur í hinni dularfullu Hugleiksku. Og þó ögrun framandi menningar sé sprengjan sem höfundurinn notar til að koma róti á persónurnar er þetta þrátt fyrir allt leikrit um íslenska fjölskyldu, þáttur af einkennilegu fólki sem er samt sem áður eins og við öll.


Leikhúsið er alltaf nýtt. Lifandi leikhús verður til og hverfur á sama augnabliki. Endurtekið með sama ferskleika á næstu sýningu. Svoleiðis hefur þetta alltaf verið.


Góða skemmtun.

Þorgeir Tryggvason