Sagnasafn Hugleiks

Á hverju er hann eiginlega?

Sú var tíðin að Hugleikur setti upp eina leiksýningu á ári. Síðan hefur hann heldur fært út kvíarnar.


Í október sýndi Hugleikur sex nýja íslenska einþáttunga. Í nóvember frumsýndi hann nýtt íslenskt leikrit, „Memento mori“, í samvinnu við Leikfélag Kópavogs. Í mars frumsýndi hann annað nýtt íslenskt leikrit, „Patataz“. Og nú frumsýnir hann enn nýtt íslenskt leikrit.


Einhver kann að spyrja á hverju hann Hugleikur sé eiginlega. Sumir kunna líka að spyrja hvort hann ætli að halda svona áfram. Fyrri spurningunni má svara þannig að einu örvandi efnin sem Hugleikur neytir eru sköpunarkraftur, atorka og brennandi áhugi félaganna. Þeirri síðari svörum við þannig að við vonum það svo sannarlega. Hugleikur hefur ekki í hyggju að draga saman seglin ef hann kemst hjá því. Hann gerir sér grein fyrir að erfitt verður að toppa leikárið sem er að líða, en hann hefur heldur aldrei skotið sér undan áskorunum.


Við biðjum ykkur að njóta samvistanna við ljúflinginn og orkuboltann Steindór Finnsson og fjölskyldu hans, og vonum að þið komið aftur til að sjá hvað Hugleikur býður upp á á næsta leikári, og því næsta, og því þarnæsta...


f.h. stjórnar

Sigurður H. Pálsson