Ávarp formanns
Hvernig getur nokkrum manni dottið í hug að stofna áhugaleikhús mitt á meðalatvinnuleikhúsanna hér í borg? Jú, það gat Ingibjörgu Hjartardóttur dottið í hug í aftursætinu í rauðum bíl fyrir margt löngu síðan. Og ekki nóg með það, ýmsum öðrum fannst hugmyndin ekki bara tímabær heldur bráðsnjöll. Tilhugsunin um að leika í leikriti, setja upp leiksýningu, var ómótstæðileg. Stofnfélagar á því herrans ári 1984 voru 19 og hin eina sanna fyrsta frumsýning var Bónorðsförin eftir Magnús Grímsson.
Nýtt leikfélag var fætt og nokkru síðar var því gefið nafnið Hugleikur.
Litli anginn óx brátt og dafnaði vel og var fljótur að tileinka sér viðkvæðið: Ég get sjálfur! Ekki bara leika leikrit, heldur líka skrifa leikritin, semja tónlistina, smíða, mála, sauma, dansa, já jafnvel dansa ballet ef svo ber undir og syngja heilu óperurnar. En vitaskuld skildi Hugleikur strax að það var nauðsynlegt að geta nýtt sér þekkingu og leiðsögn annarra, og hefur verið afar heppinn með þá listamenn sem komið hafa að starfinu, hvort heldur sem leikstjórar eða kennarar. Sviðsverkefnin, stór og smá eru farin að nálgast 30 og námskeiðin nálægt 20. Á þessum 13 árum hafa hátt á annað hundrað manns tekið þátt í leiknum, sumir hafa verið með allt frá upphafi, aðrir gert styttri stans, en segja má að hinn þétti kjarni í kringum stærri sýningar sé u.þ.b. 40 manns.
Ó já, og nú er Hugleikur orðinn táningur. Hann er auðvitað ekkert barn lengur og þaðan af síður fullorðinn. Að vera táningur felur í sér ýmsa möguleika, allt frá uppreisnargirni til angurværrar rómantíkur, en umfram allt gerir Hugleikur ævinlega það sem hann langar mest til og honum dettur ýmislegt í hug! Jú, Hugleikur undir sannarlega glaður við sitt þó þa valdi honum nokkru hugarangri að eiga hvergi heima. Eflaust má segja að aðstöðuleysi og eilífir flutningar milli staða efli sjálfsbjargarviðleitnina og ímyndunaraflið, en öllu má nú ofgera. Það hefur verið sagt um sum leikrit Hugleiks að þau endurspegli ekki veruleikann heldur endurspegli veruleikinn leikritin. Þetta hefur hvarflað að mér um leikrit það sem Hugleikur nú færir fram, Embættismannahvörfin, sem gerist á Korpúlfsstöðum þar sem hópur hústökufólks ræður ríkjum. Það skyldi þó ekki vera...
Hulda B. Hákonardóttir