Ávarp formanns
Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á heimsfrægan rithöfund flytja erindi um framtíð skáldsögunnar. Þessi maður hafði ekki áhyggjur af því að fólk nennti ekki lengur að lesa sögur í framtíðinni. Hann taldi að fólk vildi alltaf og upp aftur og aftur fá að heyra sögu, jafnvel sömu söguna eða svipaða. Oftast væri í sögunni stúlka sem yrði ástfangin af pilti, ástin væri endurgoldin. Síðan hlypi snurða á þráðinn og unga parið virtist ekki fá að eigast. Þessu er þó kippt í liðinn og síðan skellur á hamingjuendir.
Ég man eftir henni ömmu minni sem las ókjörin öll af ástarsögum og bjó til nýjan endi á bíómyndir ef þær enduðu ekki vel. Þegar hún kom að þessum hamingjuendi í sögunni þá runnu tárin niður kinnarnar á henni, en samt hló hún og sagði: „Þetta er nú meiri vitleysan.“
Þessi heimsfrægi rithöfundur sem ég nefndi í upphafi gekk svo langt að segja að við vildum öll lenda í góðri sögu því flest teldum við okkur ekki vera í nógu góðri sögu. Sumir reyna að breyta þessu með því að fá sér nýjan maka eða bara nýjan sófa. Stundum lætur hamingjan samt bíða eftir sér og við rífum í okkur sögur úr bókum, sögur af myndbandi, sögur í bíó, sögur í leikriti á meðan við hugsum okkar ráð.
Þetta hafa hinir hugleiksku höfundar alltaf vitað og hafa því látið leikritin sín enda frekar vel, að minnsta kosti með lokasöng.
En hugleikarar ganga líka lengra, þeir vilja leika í leikriti. Þeir vilja beinlínis troða sér inn í söguna, lifa sig eins og þeir geta inn í persönuna sem þeim er úthlutað, verða sorgmæddir, verða illmenni, verða glaðir, vera næstum orðnir úti uppi á öræfum, jafnvel deyja. Þeir láta hafa sig út í allt. Ár eftir ár. Syngja, dansa ballett. Loks í mars skellur frumsýning á og fölur af inniveru og vökum lofar maður sjálfum sér því að gera þetta aldrei aftur. Maður ætlar næsta vor að vera úti í Gróttu að horfa á sólarlagið á fögrum vorkvöldum. Í gönguskóm. Og svo kemur þetta næsta vor og maður svíkur loforðið. Aðstandendur og vinir umbera mann eins og manni sé ekki sjálfrátt.
„Þetta er nú meiri vitleysan.“ Skemmtileg vitleysa.
Sigrún Óskarsdóttir