Sagnasafn Hugleiks

Ávarp formanns

Góðan og blessaðan daginn kæru leikhúsgestir – þið sem eruð á rauðum skóm jafnt sem aðrir. Mikið lifandi skelfing heimsins ósköp er nú gaman að sjá ykkur. Það er við hæfi að Hugleikur bjóði góðum gestum að dvelja um stund á látlausu heimili sem stillt hefur verið upp í Tjarnarbíói í Reykjavík. Á þessu heimili er ekki boðið upp á neitt verksmiðjuframleitt – hér gerir Hugleikur allt sjálfur, sultar og saftar, bakar brauð, býr til slátur og sperðla og meira að segja skrifar leikritið, leikur, syngur, saumar, smíðar og málar sjálfur! Hver veit – kannski verður ykkur boðið í lautarferð og berjamó. Já, hér verður vonandi auðvelt að gleyma sér í traustum og hlýjum faðmi Ásu, Signýjar og Helgu sem hafa aldrei boðið upp á neitt nema gott og vita að hamingjan oft hjúfrar sig í hafragrautarskál.


Ef Hugleikur ætti nú alltaf svona hlýlegt og fallegt heimili og væri ekki húsnæðislaus eina skrattans skelfilegu ferðina enn. Það er illt að vera ungur, aðeins á sautjánda ári, fullur orku, hugmynda, trú á eigin hæfileika og hvattur áfram af þeim sem til þekkja en eiga svo engan fastan samastað, vera á götunni með reynslusögu sína í pappakössum! Síðast er Hugleikur var á ferð í Tjarnarbíói vorum við líka á hrakhólum og þá lékum við hústökufólk með einstaka sjálfbjargarviðleitni. Núna þegar við erum aftur á vergangi segjum við ykkur sögu systranna sem alltaf hafa átt sitt stóra hús, sem bjóða aðra svo velkomna að þeir vilja hvergi annars staðar vera og hvaða fórnir menn eru reiðubúnir að færa til að bjarga heimilinu sínu.


Heima er best!

Hrefna Friðriksdóttir