Kvæði Íslendinga
Hvað er svo glatt sem gáfulegur drengur
með greindarvísitöluverðan haus.
Hann verður Íslands fræðimönnum fengur
svo fjandi stórkostlega gallalaus.
Þótt lífið sé af mætri gleði magurt
að mínu ráði bræður súpið á
því ekkert litu augun fyrr svo fagurt
sem fullan Íslending á danskri krá.
Við hefjum skál og kneyfum ört úr krúsum
og kætumst meðan gefst oss heilsa til.
Við gleymum sorgum, sýfilis og lúsum
í sálarmyrkrið hleypum birtu og yl.
Við lofum ykkur Íslands menn og meyjar
en minnumst hvergi á danska kóngsins væl.
Því hvað er svo flatt sem Fjónn og aðrar eyjar
sem undir voru lagðar danskan hæl.
Látum nú vinir vínið ekki skemmast
og vætum þurrar kverkar enn á ný.
Og finnum vöðva í koki okkar klemmast
um kaldan drykk en ekkert fyllerí!
Já heill og heiður businn okkar, Baldur,
við bjóðum faðm og fósturbandalag.
Og ef þú dvelur hér um allan aldur
þá aldrei skaltu líta þurran dag.