Sagnasafn Hugleiks

Mig langar í hest

Texti
Sævar Sigurgeirsson
Lag
Þorgeir Tryggvason

MIDI  PDF

Haustið er komið, strýkur burt laufblað af limi
leitandi skjóls undir vegg eins og bátur í brimi.
Læsist um kinnarnar nístandi næturfrostið,
í náttkjólnum hímir hjarta mitt eitt og brostið.

Meðan á glugganum frostrósir festa rætur
ég fæ sjálfsagt kvef af að ganga í svefni um nætur.
Af hori í svalanum fyllist fljótlega nösin,
fyrsta kulið lagt hefur kartöflugrösin.

Hugur minn ranglar á rúi og stúi
rótlaus á aflóga kúabúi.
Þökk sé þér helsjúki „heilagi“ faðir,
helgist þitt nafn.
Ég dróst hingað nauðug í ræflanna raðir,
raunaleg saga að fornfrægir staðir
séu fávitasafn.

Já illt er að vita hvað hægt er að láta sér leiðast.
Er líf eftir matinn? Er ósonlagið að eyðast?
Hversvegna segir enginn að eitthvað sé bogið
við okkur og líf okkar uppspuni, ósatt og logið.

Þung eru örlög að þreyja og vona,
þar til að sönnu ég talist get kona.
Líknin er aðeins að láta sig dreyma
um laglegan gest.
Gleyma helst öllu sem unnt er að gleyma,
af andlausri lágkúru og leiðindum heima.
Mig langar í hest.