Sagnasafn Hugleiks

Dauði Tótu

Texti
Sævar Sigurgeirsson
Lag
Þorgeir Tryggvason

Friðþjófur, Júlía, kór

Kór:

Niðri á bæjum blæs ei vindur
blíð er tíð góð.
Fjöllin kalla:
Komdu Halla
og Kári í jötunmóð.

Upp þau flýja, finna helli,
fjölga sér um einn.
En aftur flýja í einum hvelli
undan sýslumannsins relli.
Eltir hann með flokk af fjendum
fokreiður með þras og kíf.
Á öræfum og eyðilendum
útlaganna daglegt líf.

Friðþjófur:

Haaalla!

Júlía:

Já Eyvindur, varstu að kaaalla?

Friðþjófur:

Nei, ég var bara að hvísla:
komdu þér burt.
Drífðu þig, ég sé um „sýsla“,
þann suðheimska durt.
Flýðu með Tótu, finndu gjótu, farðu...

Júlía:

En hvurt?

Friðþjófur:

Hurðu mig Halla, hér eru laganna menn.
Spurðu mig ei, eða spjallaðu lengi enn.
Upp á fjallið,

Júlía:

inn í hellinn,

Friðþjófur:

út í fljótið...

Bæði:

Fossinn...? Niður í gil!!!

Kór:

Niður í gil, já niður í gil.

Júlía:

Ó, Tóta litla tindilfætta
trúðu mér, það er engin hætta.
Göngum upp í gilið elskan
gljúfrabúann til að sjá.
Já, já, já
og það held ég.

Bjartur kór:

Stilltu þig Halla,
svo slæmt er það varla.
Finndu á þessu
sem flesta galla.

Dimmur kór:

Látt'ana gossa
þann litla tossa.
Láttu nú blóðið
til fjalla fossa.

Júlía:

Af hverju þarf hún að hrapa?

D.K.

Að hika er það sama og tapa.
Komdu niður, kveður amma
kuldaleg á fúnum pramma.

Júlía:

Þegiðu djöfull, þér ég hóta...

B.K.:

Þarftu endilega að blóta?

Júlía:

Tóta, elsku Tóta...

D.K.:

Asnalega ljóta Tóta!

Júlía:

Finnurðu hvernig fossinn hvín.
Sofðu unga ástin mín.