Sagnasafn Hugleiks

Dauði Ebenezers

Texti
Snæbjörn Ragnarsson
Lag
Snæbjörn Ragnarsson

Jól framtíðar: Ebenezer hefur hrokkið upp af og fólkið gleðst yfir dauða hans.

Nú er hann dáinn, dáinn
og dagur runninn á ný
Bjart er veður, börnin glöð
við brosum öll yfir því
engin sorg eða sút
bara sæla absolút
Beljan dansar, bærinn glansar
blóm og kransar afþakkaðir

Nú er hann dáinn, dáinn
svo dönsum öll fram á kvöld
því fjandans gamli fauskurinn
hann felldi niður öll gjöld
daginn sem að hann datt
niður dauður, alveg satt
Allir syngja, klukkur klingja
karlsins pyngja verður tæmd

Nú er hann dáinn, dáinn
og drottinn hittir hann brátt
en guð vill ekki hafa hann
og hendir honum í átt-
ina norður og nið-
ur og neinei engin grið
verða gefin, vex þá efinn,
verst hvað skrefin eru þung

Nú er hann dáinn, dáinn
já drullusokkurinn sá
Enginn syrgir illmennið
og enginn kemur að sjá
er á hæðinni hann
verður heygður karluglan
Allir syngja, klukkur klingja
karlsins pyngja verður tæmd