Frystikistufónía
Hallfreður: Einn ég ligg kaldri kistu í,
kalinn, botnfrosinn.
Sálin freðin og fær því ei
far í himininn.
Hlýjaðu mér,
bíaðu mér,
bæt mína raun,
blástu í kaun.
Salka: Þú ert svo fölur, þú ert svo fár.
Farðu í kistuna á ný.
Ég skal sækja þér sjóðheitt te
og sokkaplöggin hlý.
Hallfreður: Nei, helltu út úr einum stút
oní kalda kverk.
Særum því næst fram sáluhjálp
sálmaskáld og klerk
Hrafn Hvað viltu hér? Hvað viltu mér?
Geir: Handónýtur hórprestur!
Hrafn: Vei mér
Geir: svei þér
Á víxl: Vei mér - svei þér - vei mér - svei þér -
vei mér - svei þér - vei mér - svei þér - guð!
Hrafn: Hver hefur skapað mér örlög ill?
Ég engist af þrá og kvöl.
Geir: þú hefur minni spúsu spillt
og sparar ekkert böl.
Nei, sparar ekkert böl.
Böl, böl, böl, bööööööl!
Hallfreður: Áfram strákur kýldÕann kaldann,
karlmenn berjast allt of sjaldan.
Hrafn: Hjálpi mér nú herrann Kristur!
Geir: Hérna verður pungur kreistur!
Gyða: Almáttugur góði guð!
Grimmdarvonska er harðbönnuð!
Komdu Salka, afstýrum
öllum þessum hryllilegu meiðingum.
Salka: Ástarþríhyrningurinn
er að brotna, Jesús minn!
Komdu vinur, komdu nú,
kældu skap þitt, ekki girnast gifta frú.
Hallfreður: Deigir eru drengirnir
Djöfull eru þeir linir.
Engin reiði, örlar hvergi á vígamóð.
Ég særi ykkur upp á ny
Egni og magna hatursský.
Sýnið dug og hræðist ekki bana og blóð.
Gyða: Ekki berjast elskið frið.
Salka: Ekki berjast kyssið kvið.
Gyða: Ekki berjast þess ég bið.
Salka: Ekki berjast segjum við.
Báðar: Að kristnum sið nú gefið grið
við Gullna hliðið verða jöfnuð deilumál.
Gyða: Ofbeldi er illsku tál.
Salka:. Ofbeldi er versta mál.
Gyða: Ofbeldi er eintómt kál.
Salka: Ofbeldi er kalt sem stál.
Báðar: Ást er hál, já ást er bál,
ást er þjál, já ástin læknar þína sál.
Hrafn: Nú skulu mætast stálin stinn
stjarfur, hræddur garmurinn
bráðum muntu reka upp ógnarmikið gól.
Geir: Skjótt mun hnífsins beitta blað
bíta sárt þinn leyndarstað.
Ég sneyði burtu þessi ljótu og loðnu tól.
Hallfreður: Eldur fer um æðar
og yljar kalda kinn,
átök vaxa og erjur
nú æsist leikurinn.
Geir: Eldur brennir æðar,
afbrýðin mig sker.
Sem varahjól á vagni
ég vil ei lifa hér.
Gyða: Rautt frá rótum hjartans
rennur þetta blóð.
Kallið það er komið
ég kem í þína slóð.
GG: Ógæfan mig eltir.
Ást mín dáin er.
Ég get ei lifað lengur.
Líf, ég fórna þér.
Kór: Þetta er döpur saga er sorgar endi hlaut
en svona enda flestar óperettur.
Afbrýði og hatur og ást í heitum graut
og öllu svo hrært upp í bullandi kveinstafi og grettur.
En svona er jú lífið það líður öllum frá,
menn lifa ógnarlengi en ástin kulnar
og fyrr en nokkurn varir er haustið hnigið á
hárið bæði gránar og gulnar.
Veröldin er grimmlynd þótt vötnin séu blá
og vonarstjörnur spegli sig í tjörnum
Hjörtum okkar blæðir þau berjast til og frá
í brjóstinu heyrum við sláttinn og gaulið í görnum.
Hljóðlátur er dauðinn og hliðið gullna skín
þar huggun fæst hjá Maríu og Kristi.
Hallfreður: Sofðu nú til morguns Salka, stúlkan mín,
sjálfur geng ég aftur - í frysti.