Forleikur
Texti | |||
---|---|---|---|
Sævar Sigurgeirsson | |||
Lag | |||
Þorgeir Tryggvason |
Ísland!
Er Ingólfur fann þig forðum,
fannst oss
allt ver' í réttum skorðum.
Sjálfstætt,
ástkæra frónið fagra!
Frelsið,
fitaði Helga magra!
Landnámsmenn undu sér leiki við
lögðu sig fram um að halda frið,
hjuggu þá menn sem að mest var af
myrtu þó aðeins ef færi gaf
– réðu sér sjálfir og sóttu sér bjargir í haf.
Seinna
misstu þeir happ úr höndum.
Höfðu
minna af fé og löndum.
Seldu
rétt yfir þúsund þorskum.
Þjóðin
afhent var kóngi norskum.
Hengslaðist þannig í hundrað ár
haldandi í sér – og ekki skár
leið oss er Noregur lúinn datt
lúsugan vel undir Danans hatt
– misheppnuð undirskrift upp á sig ferlega vatt.
En frjálsræðishetjurnar fimm öldum síðar
þeir Fjölnismenn, Baldvin og Jón,
lögðu sinn skerf fram til skánandi tíðar
við skildum við Falstur og Fjón
og Jótland og Sjáland – Ísland, farsælda frón!
Fullveldi!
Sjálfstæði
Forseti!
Lýðveldi!
Loksins við syngjum hið óháða íslenska lag
íslenska frelsið er fimm ára gamalt í dag.
Ísland!
Þú verður ekki þvingað
þangað
hvorki né heldur hingað.
Aldrei
kommanna verður verstöð
Varla
kananna heldur herstöð.
Gallinn er bara vor gjaldeyrir
gnægtir og velsæld þú sjaldheyrir.
Verkföll og óeirðir allt um kring
efast um þingmannsins staðhæfing,
– bannið við öllu það býr til í hjartanu sting.
Ísland!
Þótt landið sé frítt og fagurt
finnst oss
þú bæði rýrt og magurt.
Óháð
ríkið er rúið kröftum
ræðst hér
flestallt af fúlum höftum.
Ekkert við fáum að flytja inn
fletjum og flytjum út saltfiskinn.
Skiptum þá kannski á Skoda-bíl
skrautofnum dúk eða kristals-fíl,
– jafnvægismeistarar göróttan gert hafa díl.
Hvernig
endar með höft og helsi?
Hefta
stórveldin okkar frelsi?
Sumir
skelfdir í skjóli myrkurs
munu
mæna á þennan ...
(þögn)
... SIRKUS!!!