Sagnasafn Hugleiks

Völin og kvölin og mölin (1999)

(eða "Fúll er fagurgalinn")

Höfundar:

Hildur Þórðardóttir
Sigríður Lára Sigurjónsdóttir
V. Kári Heiðdal

Textabrot:

Viktoría: Þú manst þá ekkert hvað gerðist á milli okkar? Ekkert um tvö skip sem mætast á dimmri nóttu.

(Elías kemur inn með ferðatösku í annarri hendinni og miða í hinni. Stanzar, leggur töskuna frá sér og er að reyna að átta sig á því hvar hann er staddur. Jón kemur gangandi úr sömu átt.)

Jón: Sælir félagi. Eruð þér villtir?

Elías: (tekur ofan) Sælir, ja, já það má kannski segja það. Ég er að leita að dvalarstað mínum í vetur. Húsið á að vera hérna við Aðalstræti.

Jón: Vitið þér nafn húseiganda?

Elías: Það er Sæmundur Hansen.

Jón: Jæja, þá vill nú svo skemmtilega til að þér standið fyrir framan það. Verðið þér hérna við nám? Ég sá yður koma frá skólanum.

Elías: (ætlar að halda áfram) Ha? Já, jú, ég mun hefja nám í haust í...

Jón: Fyrirtak, þá verðum vér bæði nágrannar og skólabræður. Ég bý sko hérna í næsta húsi. Fyrirgefið ég kynnti mig ekki, Jón Sveinsson, kallaður Nonni, óskabarn þjóðarinnar og draumur hverrar konu.

Elías: Elías Jónsson,

Jón: Þá getum við lesið saman í vetur, Gummi vinur minn strauk nefnilega til sjós. Svo býr líka asskoti reffilegur kvenmaður þarna í húsinu hjá yður.

Elías: Það er nefnilega það já. Er það frúin eða ungfrúin?

Jón: Hún er nú bara stofustúlka og þér skulið ekki voga yður að rugla henni saman við horgrindurnar. Hún Gunna mín er sko ísmeygilegri heldur en kvenfólkið Hansen samanlagt.

Elías: (Hlæjandi) Nei heyrið þér nú, Jón og Gunna. Er það nú ekki svolítið ófrumlegt svona til frambúðar.

Jón: Til frambúðar? Ég skal nú bara segja yður það að hún Gunna mín er hvorki ætluð til frambúðar né sambúðar og ég kýs nú frekar að skjótast með henni bak við skúr en að rölta með hana upp að altarinu.

Elías: (Klumsa) Hvernig þér talið maður!

Jón: Heyrið þér Elías, ég gerði ráð fyrir að þér væruð úr sveit. Er það ekki rétt hjá mér?

Elías: (Skilur ekki samhengið) Jú?

Jón: Og ætlið þér að segja mér að þér hafið aldrei skroppið út í hlöðu að veltast með holdugri vinnukonu.

Elías: Ekki aldeilis. Ég er heitbundin stúlkunni sem ég hef unnað hugástum frá fæðingu og það skulið þér vita að við Þórhildur höfum aldrei, og myndum aldrei, fara yfir viss siðsemismörk. Ég yrki henni ljóð á hverjum degi.

Ástum besta baugalín

Brúður minna vona...

Jón: Nú hvur fjandinn. Hún er kannski Sýslumannsdóttir? Lætur rigna upp í nefið á sér? Nei drengur minn þá vil ég nú heldur almennilega vinnukonu með rétta hluti á réttum stöðum.

Elías: nei, hún er ekki... Yður getur ekki verið alvara. Við Þórhildur erum félagar á algjörum jafnréttisgrundvelli. Ég skal segja yður að konur eru ekki jafn einfaldar og þér haldið.

Jón: . Ég sé það núna að ég á mikið og erfitt verk fyrir höndum. Að svona skynsamlega útlítandi drengur skuli vera svona mikill skýjaglópur. Það sem við þurfum að gera er að koma yður niður á jörðina, þar sem það er margsannað mál að kvenfólk hefur hvorki vit né sál.

Elías: Jæja vinur, ég sé það í hendi mér að kunningsskap við yður verð ég að rækta til þess að bjarga yðar villuráfandi sál.

Jón: Það eruð þér sem eruð villuráfandi sauður góurinn. Vitið þér bara til, eftir eina önn fjarri sveitasakleysinu verðið þér orðnir mér sammála og mun hamingjusamari maður fyrir vikið!

Elías: Ég vona nú bara fyrir yðar hönd að þér vitkist þegar þér farið að stunda nám við æðri menntastofnun. Jæja ætli sé ekki bezt að ganga inn og heilsa húsráðendum.

Jón: Ég lít við þegar þér hafið komið yður fyrir.

Sett upp af Hugleik:

Möguleikhúsið við Hlemm (1999)

Sett upp utan Hugleiks:

Leikfélag Fljótsdalshéraðs (2000)