Undir Hamrinum í Viljandi
Leikferð með „Undir hamrinum“, eða „Country matters“ á hátíð NEATA í Viljandi í Eistlandi.Um sýninguna: Undir hamrinum
Elsta efst 3/8 2/8 2/83/8 2004
Þetta er dagurinn sem í framtíðinni verður kallaður "Dagurinn sem hugleikarar urðu öldungis bit". Við urðum samtals fyrir á annað hundrað moskítóbitum og þar urðu Jón Örn og Siggi langverst úti. Jón Örn var bitinn um 50 sinnum og litu fætur og enni hans út eins lélegar eftilíkingar af landslaginu á Mars. Siggi var ekki bitinn eins oft en þolir bitin verr og er stokkbólginn þar sem hann hefur verið bitinn. Aðrir hafa sloppið með færri bit og bara Hildur hefur sloppið alveg. Þessi kvikindi (þ.e. flugurnar, ekki Siggi og Jón Örn) virðast þó þrátt fyrir allt hafa skopskyn því ein beit Jón í aftanverðan kálfann, akkúrat í dekkið á hjólatattúinu svo það er eins og það sé sprungið á því! Annars hófst dagurinn á að við fórum eftir ágætan morgunverð niður í Kúltúrakademíu þar sem við eigum að sýna. Sviðið er snilld, blackbox sem tekur 150 manns í sæti, fullkomið fyrir sýninguna. Við erum að hugsa um að taka það með okkur heim, þetta er einmitt það sem Hugleik vantar. Að skoðun lokinni dreifðist hópurinn svo bæinn í verslunar- og skoðunarleiðangra. Þetta er ljómandi huggulegur bær með um 25.000 íbúa og býður upp á ýmislegt að skoða eins og t.d. gamlar kastalarústir, ströndina við vatnið og ábyggilega eitthvað fleira. Verðlag er Íslendingum mjög að skapi, þ.e. mjög lágt, en þeim virðist vera frekar illa við klink því að þeir eru með seðla niður í 2 kroons sem eru ca. 11 krónur íslenskar. Tvær sýningar voru í boði þennan fyrsta dag, Rauðhetta með litháenska ungliðadeild leikhóps Studio Agljia og heimamenn með sýningu Stúdentaleikhús Tartu á verkinu Elisaveta Bam. Í báðum sýningum voru tungumálin okkur auðvitað fjötur um skilning en báðar voru þetta prýðilegar sýningar þótt ekki næðu þær að hrífa mörlanda upp úr skónum. Sú fyrrnefna er reyndar með leikhóp sem ræður yfir allt að yfirnáttúrlegri líkamlegri tækni og oft á tíðum gapti maður af undrun yfir sjónrænum snilldartöktum en samt vantaði einhvernveginn samband við áhorfendur, sýningin var bara of köld og illskiljanleg. Ekki var nokkur leið að tengja hana hana við ævintýrið um Rauðhettu enda var þetta víst byggt á einhverri skáldsögu sem ku vera byggð á ævintýrinu. Sýning Eistanna var eins og áður sagði prýðileg en ekkert stórvirki. Að sýningum loknum fóru menn tiltölulega snemma að sofa enda erfiður dagur framundan.2/8 2004
I LOFTID 7:45 STOPP HORDUR MED STOPP SIGGA BIRNA LIKA STOPP I RUTU A LEID TIL VILJANDI STOPP SENDUM THETTA YFIR INFRARED OG GPRS STOPP DYRT THVI STUTT MISSION IMPOSSIBLE STANS2/8 2004
Komum á heimili okkar hið nýja þegar klukkan var rétt gengin í níu að staðartíma. Menn dreifðu sér á herbergi sem voru hin ágætustu og greinilega gjörsamlega nýuppgerð. Svo var étið og reyndist maturinn einnig alveg prýðilegur. Á leiðinni frá mötuneyti aftur á hIemilið urðum við vitni að því þegar nokkrir eistneskir hermenn drógu af húni þjóðfána sinn og "sungu" þjóðsöng sinn á meðan. Var það all sérstakur gjörningur og Toggi kom með þá tilgátu að þessir un Eistar hefðu verið sendir í sumarskóla til að refsa þeim fyrir glæpsamlegt lagleysi. Siggi vildi hins vegar meina að þjóðsöngurinn væri bara svona en hannhefur sjálfur sungið hann fyrir forseta Eistlands. Eftir þessa reynslu var svo sem lítið eftir að gera þann daginn en eiga samverustund þar sem sumir kynntu sér lítilega hvernig heimamenn standa sig í bjórgerð, auk þess sem klára þurfti úr einni flösku af Brennivíni sem nota á í props í sýningunni. Til aðstoðar við þann gjörning voru kallaðar til þrjár norskar blómarósir og tókst ætlunarverkið. Skapaðist af þessu nokkuð skvaldur sem hélt vöku fyrir viðkvæmum samleikurum en það var fyrirgefið þar sem þetta er ungt og leikur sér. En svo sofnuðu bara allir eins og við mátti búast.