21/9 2004
Í kvöld var fyrsta eiginlega æfingin á Memento mori í Hjáleigunni í Kópavogi. Raunar var um daginn fundur þar sem allir sýndu eða sögðu frá einhverju sem þeir höfðu búið til eða fundið sem tengist viðfangsefni sýningarinnar. Þangað mætti ég hins vegar ekki - var einhvern veginn búinn að koma mér í fjallgöngu í staðinn.
Svo það sé frá: viðfangsefni sýningarinnar er semsé ódauðleiki. Nánar tiltekið fólk sem getur ekki dáið. Meira um það síðar.
Í kvöld vorum við mest í ýmiss konar æfingum, fyrst upphitunaræfingum og svo fórum við að sveifla kústsköftum. Mér skilst við eigum eftir að þukla talsvert mikið á þessum kústsköftum áður en yfir lýkur.
Jú, og svo dóum við flest í snú-snú.
Sigurður H. Pálsson
22/9 2004
Okkur hefur farið talsvert fram í snú-snú.
Héldum áfram með æfingar síðan í gær, og við bættust nýjar. Meðal annars létum við bæði gleði og sorg ganga milli manna og magnast.
Í restina spunnum við svo í fjögurra manna hópum, með áherslu á vana/ritúal (og smá dauða). Kom bara fjári vel út.
Sigurður H. Pálsson
23/9 2004
Ekkert snú-snú í dag. Samt nokkur dauðsföll.
Mikil upphitun eins og venjulega, og allskyns hreyfingaræfingar ("Kreutzfeld-Jacob"? Nei, en eitthvað svipað...). Svo drjúg sessjón í "synchronized walking".
Enduðum svo á tveimur spunasyrpum, tvö og tvö. Fyrst þar sem annað var að deyja, en hinn aðilinn einn vissi að hann væri ódauðlegur og því yrðu engir endurfundir hinu megin. Í seinni spunanum hittist par og varð ástfangið, en báðir hættu við í þeirri trú að þeir einir væru ódauðlegir. Svo hittist parið aftur nokkrum öldum síðar. Hvað gerist þá?
Loks sagði Hrefna okkur frá einhverju af pælingum höfundanna, og lagði fram nokkrar spurningar sem má reyna að svara til að fá bakgrunn fyrir hvern og einn hinna ódauðlegu karaktera.
Frí þar til á sunnudaginn.
Sigurður H. Pálsson
26/9 2004
Tennisboltarnir eru komnir í hús og var þeim kastað fagurlega.
Auk hefðbundinna æfinga var einnig farið í „blindblak“.
Svo var enn einn spuninn. Að þessu sinni voru karlarnir með áratugarlegt pókerkvöld sitt, að þessu sinni í skothríð í síðari heimsstyrjöld, og konurnar með einhvers konar saumaklúbb í rómversku baðhúsi, þar sem var reyndar sími. Í klúbbunum var m.a. rætt um dráps- og sjálfsdrápsaðferðir, tískuna og reðurstærð rómverja.
Sigurður H. Pálsson
27/9 2004
Þessi æfing var með nokkuð óvenjulegu sniði. Eftir smá boltatörn og kynningu á jafnvægis-/speglunaræfingu (ugnifæranulgeps) hófst mikið leynimakk leikstjóra og höfunda. Leikurunum var smalað inn í hliðarsal og svo leiddir inn einn og einn, sem lömb til slátrunar. Það kom í ljós að leikstjórinn og höfundarnir höfðu sett sig í hlutverk kvikmyndagerðarmanna að gera heimildamynd um sambýli ódauðlegra. Þarna birtust átta mismunandi karakterar: misgamlir, misminnugir, mishamingjusamir, mismálglaðir.
Sigurður H. Pálsson
28/9 2004
Í kvöld fengum við stutt textabrot frá höfundum. Svo fengum við að fara með þau (eftir því sem við höfðum náð að læra þau) við ýmsar aðstæður, meðal annars í miðju snú-snú.
Enduðum á spuna í extrem aðstæðum þar sem allir deyja nema einn, sem kvaddi svo með textabrotinu sínu.
Sigurður H. Pálsson
29/9 2004
Slatti af þekktum æfingum, sem við erum farin að skána í. Svo tókum við eina góða þar sem við pikkuðum upp göngulag hvers annars og ýktum svo eitthvert sérkenni á því. Þegar ýkjurnar voru komnar í botn fórum við svo í textabrotin frá því í gær.
Enduðum á statusæfingum, þar sem við fengum úthlutað status frá einum upp í tíu, sem við áttum svo að gefa til kynna og hafa samskipti við aðra og átta okkur á þeirra status. Afbragð.
Sigurður H. Pálsson
30/9 2004
Megasíld, krassdanskúrs og svo meiri statusæfingar. Stuð. Hættum í fyrri kantinum og frí fram á sunnudag, m.a. vegna þess að Hugleikur hefur á klæðum um helgina.
Sigurður H. Pálsson
3/10 2004
Fámennt í dag og í styttri kantinum. Einhverjir úr bænum, einhverjir lasnir, og einhver lurða í sumum þeirra sem mættu þó. Spunnum þó aðeins í kringum karaktereinkenni annars vegar og góðar/slæmar minningar hins vegar.
Sigurður H. Pálsson
4/10 2004
Æfing féll niður í dag vegna lasleika. Hittumst á morgun úti í Örfirisey - vonandi...
Sigurður H. Pálsson
5/10 2004
Í kvöld æfðum við í fyrsta skipti í Hugleikhúsinu. Fyrst þurftum við reyndar að færa til fullt af drasli. Þar er (ennþá) endalaust verið að færa draslhrúgur frá öðrum hluta hússins til hins.
Eftir bolta, nudd og zip-zap-boíng fórum við að framleiða ódauðleg skemmtiatriði, sem þó voru kannski andvana fædd.
Loks fengum við texta í hendur! Frumgerð (eða kannski bara endanlega gerð) af upphafsatriði. Það virtist vera samdóma álit manna að byrjunin lofaði mjög góðu. Nú erum við bara þyrst í meira...
Sigurður H. Pálsson
6/10 2004
Aftur á Eyjarslóð. Sterkur vindur, intensív síld og einbeittur dans. Svo fórum við að leika ýmis atriði úr mannkynssögunni hvert fyrir annað með samasem engum undirbúningi. Tókst furðu vel.
Loks settumst við og spjölluðum nokkra stund yfir dýrindis veitingum sem leikstjórinn hafði með sér. Nú verður tekið nokkurra daga hlé meðan höfundar gera stykki sín.
Sigurður H. Pálsson
11/10 2004
Meira eða minna hefðbundinn bolti, síld etc. Eftir það tókum við hins vegar meirihluta kvöldsins í að samlesa úti á gólfi textann frá því í síðustu viku, að viðbættu a.m.k. öðru eins sem hefur orðið til á einhvern yfirnáttúrulegan hátt í millitíðinni. Gott stöff. Nú þarf bara fáeina svona skammta í viðbót, þá er komið leikrit, og svo helling af vinnu í sjónrænum atriðum, látbragði, músík..., og þá er komin sýning - kannski jafnvel dáldið góð.
Sigurður H. Pálsson
14/10 2004
Fengum heilmikið af texta í viðbót, meira að segja drög að handriti af leikritinu alla leið til enda. Það er samt líklegt að eitthvað eigi eftir að bætast inn í.
Við unnum samt ekkert með þetta nýja í kvöld, heldur vorum við að búa til sjónrænt atriði í eina af orðlausu sögunum sem koma fram.
Já, alveg rétt, það er búið að kasta. Kallið mig "H".
Sigurður H. Pálsson
15/10 2004
Vantaði tvo. Eftir bolta, síld og snú-snú var farið að vinna í tveimur nýjum sjónrænum atriðum - þessi fara reyndar með texta, a.m.k. að einhverju leyti. Útgáfa okkar Huldar af berskuminningum hennar var reyndar ekki keypt, en hver veit á lokasýningu...
Hættum í fyrra fallinu á föstudagskvöldi, enda erum við að mæta aftur í fyrramálið.
Sigurður H. Pálsson
16/10 2004
Unnum dálítið meira í nýju sjónrænu atriðunum, og svo lásum við allt leikritið í gegn, með nefndum atriðum þar sem við átti. Það tók u.þ.b. klukkutíma. Einhverjum varð að orði að þar með yrði þetta líklega þriggja tíma sýning. Sjáum nú til með það.
Það er semsagt búið að skrifa leikritið til enda og hnýta saman framvinduna og konseptið. Mér sýnist að það ætli að gera sig.
Sigurður H. Pálsson
17/10 2004
Fengum Bjössa músíkant og Skúla ljósamann inn á æfinguna í dag. Mikið dansað á ýmsa vegu og rifjuð upp spunaatriði frá því um daginn. Talsvert unnið í endurminningum G um tiltekinn þjóðhöfðingja.
Sigurður H. Pálsson
18/10 2004
Áfram unnið markvisst í koma þessum sjónrænu atriðum á koppinn. Atriðið sem unnið var með í gær var bætt mikið og snurfusað, þó nokkuð væri kvartað yfir álagi á fætur, ekki síst á steingólfi Hugleikhússins. Svo var breinstormað um fortíðarvanda A og nokkrar hugmyndir prófaðar.
Sigurður H. Pálsson
19/10 2004
Góð sessjón. Fórum langt með minningar C og D, sem er þrískipt sena, og byrjuðum á fortíð F. Óvenju mikið af góðum hugmyndum og óvenju markviss úrvinnsla. Fáein svona kvöld í viðbót og þá erum við búin að rúlla upp þessum minningum.
Sigurður H. Pálsson
20/10 2004
Héldum áfram með minningar F, sem er allviðamikil sena. Enn er eitthvað í land með hana.
Enduðum svo á að fara aftur í upphafsatriðið, nokkrar fyrstu blaðsíðurnar, og leggja það að einhverju leyti að því er varðar hreyfingar og tempó. Ég fékk að þegja nokkuð lengi, og standa svo upp og öskra á liðið og ljúka þar með æfingunni. Góður díll.
Sigurður H. Pálsson
21/10 2004
Í dag er mánuður frá því að æfingar hófust. Samkvæmt mínum kokkabókum hafa á þeim tíma verið haldnar einar 19 æfingar, sem flestir eða allir leikararnir hafa mætt á. Geri aðrir betur.
Tuttugasta æfingin var nú í kvöld, aldrei þessu vant með aðeins litlum hluta leikhópsins, nánar tiltekið mér og Júlíu. Kópavogsfólkið fékk frí til að æfa sig í hamborgarasteikingum fyrir laugardaginn. Við komumst eitthvað áleiðis með minningasenu H, en eigum þó að geta náð talsvert meiru úr henni. Það gengur eflaust betur þegar við verðum með textann á hreinu.
Sigurður H. Pálsson
23/10 2004
Frekar stutt æfing í dag, enda margir uppteknir út af Mörgu smáu, sem verður í kvöld. Náðum þó að gera ansi góða hluti við samskipti A og B í nútíð og fortíð. Ekki var síst gaman að finna loksins stað fyrir litla númerið okkar, sem væri óforsvaranlegt að nefna hér...
Sigurður H. Pálsson
24/10 2004
Lásum/lékum/leiklásum allt verkið í gegn, með öllum þeim sjónrænu atriðum sem búið er að æfa, að nokkrum aðstandendum og gestum viðstöddum. Þetta gekk auðvitað frekar skrykkjótt, en í það heila eiginlega bara furðu vel. Einn gestur lét hafa eftir sér að þetta „lofaði mjög góðu“. Þá er bara að sjá til þess að hann verði ekki fyrir vonbrigðum á frumsýningu...
Sigurður H. Pálsson
25/10 2004
Ræddum talsvert um „núið“ og unnum í upphafsatriðinu. Ýmsum spurningum er enn ósvarað, og helst þurfum við að finna svör við þeim í vikunni. Svo unnum við aðeins í „frumstæðu“ atriði, með heldur takmörkuðum árangri. Bjössi leyfði okkur að heyra hljóðdæmi, hugmyndir að undirleik/effektum. Það mæltist vel fyrir, þó það hafi kannski verið svolítið öðruvísi en maður átti von á.
Sigurður H. Pálsson
26/10 2004
Börðumst áfram við að reyna að átta okkur á núinu. Erum kannski komin eitthvað aðeins nær því marki.
Sigurður H. Pálsson
27/10 2004
Unnum aðallega áfram í sömu senum og í gær, og svei mér ef við erum ekki að byrja að festa aðeins fingur á þessu blessaða núi. Við fengum líka í hendur „æfingatrefla“, sem urðu strax kveikja að ýmsum ágætum hugmyndum.
Sigurður H. Pálsson
28/10 2004
Meira nú, meiri treflar. Góð stemning, og sífellt meiri tilfinning að nást fyrir þessu núi. Áfram nú!
Sigurður H. Pálsson
30/10 2004
Löng sessjón á þessum laugardegi, 10-16. Áfram með núið, blaðsíðu fyrir blaðsíðu. Um tvöleytið tíndust svo inn Bjössi, Skúli, Toggi og Hulda og þá var gengið í gegnum allt dótið. Auðvitað skrykkjótt sem fyrr, en við vitum aðeins betur hvað við erum að gera. Þurfum samt að drífa í að læra texta, ef til þess gefast lausar stundir. Athyglisvert að Hulda sagði orðrétt það sama og Jónas um daginn: „Þetta lofar góðu...“.
Þrjár vikur í frumsýningu? Já, fjandinn hafi það, við hljótum að ráða við að gera eitthvað úr þessu á þeim tíma!
Sigurður H. Pálsson
1/11 2004
Fín hrina. Byrjuðum á smá spjalli um stöðu mála í ljósi gegnumgangsins á laugardaginn. Ræddum nokkuð um hvernig sé best að tækla lokin, og skerpa á framvindu og þróun karaktera. Eygjum þar einhverjar leiðir.
Svo tókum við minningu sem vantaði, seinni lotu C og D, og pökkuðum henni rækilega inn. Loks veltum við G dálítið í sandinum, aðeins skipulegar en fyrr.
Sigurður H. Pálsson
2/11 2004
Æfingin í kvöld var auglýst sem opin æfing í tölvupósti til félaga Hugleiks og LK. Sérstaklega var þó tekið fram að ekki væri um rennsli að ræða. Eins gott að sú viðvörun var látin fylgja, því þessir nokkru sem mætti fengu að sitja og horfa upp á venjulegar upphitanir og hjakk í einstökum atriðum. Gekk samt bara fínt.
Sigurður H. Pálsson
3/11 2004
Fórum núna eingöngu í nú-senur, hverja á fætur annarri, með áherslu á smáatriði. Fengum líka nýja útgáfu af handritinu í pósti í dag, og vorum að átta okkur á þeim breytingum sem við höfðum ekki á hreinu fyrir.
Sigurður H. Pálsson
5/11 2004
Fín æfing, þó það vantaði tvo (og þó við þyrftum að byrja á því að ausa vatni af gólfinu). Unnum í núönsum í parti af nútímanum, og í því að hafa skiptingar hreinar. Loks samlásum við nýja endinn, sem er miklu betri en sá gamli, og satt að segja bara fjandi góður. Bravó, Hrefna!
Enduðum aldrei þessu vant á bar, auk þess sem það er búið að ákveða partý eftir viku. Ekki seinna vænna.
Sigurður H. Pálsson
6/11 2004
Þessi laugardagur var tekinn í „sólóaæfingar“: við mættum eitt og eitt eða tvö og tvö og áhersla lögð á hin meiri og minni eintöl.
Sigurður H. Pálsson
7/11 2004
Ekki alveg fullskipað. Haldið áfram með núið og skiptingar, og sandurinn slípaður þannig að hann ætti að vera orðinn nokkuð flottur.
Í lokin tókum við til og þrifum dálítið á Eyjarslóðinni, enda erum við að færa okkur suður í Kópavog.
Sigurður H. Pálsson
8/11 2004
Þá erum við komin aftur í Kópavoginn, enda nú orðið ljóst að við sýnum þar eftir allt saman.
Unnum mest með núkafla sem hingað til hefur afar lítið verið æfður, ekki síst vegna þess að hann var nýlega endurskrifaður nokkuð hressilega. Hann þarf að verða talsvert líflegri til að hann virki.
Sigurður H. Pálsson
9/11 2004
Fórum aðeins betur í senuna frá því í gær, og héldum svo áfram í lokasenuna. Um hana spunnust allnokkrar umræður, enda ýmsir útfærslumöguleikar í stöðunni, sem geta breytt nokkuð miklu um skilning og upplifun áhorfenda. Við þurfum helst að prófa sem flesta af þessum möguleikum.
Sigurður H. Pálsson
10/11 2004
Unnum áfram í lokasenunni, og hún er að taka á sig nokkuð skýra mynd.
Sigurður H. Pálsson
11/11 2004
Vorum aðallega að búa okkur undir gegnumgang morgundagsins. Fórum í gegnum megnið af sýningunni, þó ekki alveg allt, rifjuðum upp og leiðréttum ýmsa hnökra.
Sigurður H. Pálsson
12/11 2004
Gegnumgangur sem var tekinn upp á vídeó. Svo var haldið í partý hjá Ágústu Evu. Upprunalega planið var að horfa á vídeóið þar, en því var slegið á frest og í staðinn snúið sér að almennri skemmtan og samanhristingu. Þetta tókst með ágætum og flestir komust meira eða minna klakklaust heim til sín fyrir rest.
Sigurður H. Pálsson
14/11 2004
Bjössi mætti með heilmikið af dúndurflottri músík. Megnið af æfingunni fór í að tengja hana við hin ýmsu atriði, og kemur bara ansi vel út. Svo vorum við líka að máta okkur í nýja rýminu sem hefur skapast í geysimikilli niðurrifs- og uppbyggingartörn Kópavogsmanna. Glæsilegt!
Sigurður H. Pálsson
15/11 2004
Athyglisvert kvöld. Fyrst horfðum við á vídeóupptökuna frá því á föstudaginn. Vorum lítt hrifin af eigin frammistöðu, og gengum til rennslis á eftir í hálfgerðu sjokki, og með fyrirmæli um að gera tilraunir með stöður og reynda að halda góðu tempói. Sjokkið hefur kannski gert eitthvað gagn, því að allir voru sammála um það rennsli kvöldsins væri svo ólíkt því á myndbandinu að svo virtist sem umskiptingar væru á ferðinni. Sem er gott.
Sigurður H. Pálsson
16/11 2004
Renndum aftur. Eitthvað vantaði af þeim krafti sem var í okkur í gær. Í lokin spunnust svo nokkuð miklar umræður.
Sigurður H. Pálsson
17/11 2004
Enn eitt rennslið, miklu betra en í gær. Enn má þó ýmislegt betur fara.
Sigurður H. Pálsson
18/11 2004
Ekki rennsli, heldur farið í atriði eftir atriði og hreinsað til. Merkilega mikið nýtt - margt sniðugt. Frí á morgun (!), en löng törn á laugardaginn.
Sigurður H. Pálsson
20/11 2004
Langur laugardagur, fyrrverandi frumsýningardagur. Haldið áfram að fara í hvert atriðið á fætur öðru, hreinsa, skýra og bæta við. Svo birtist allt í einu nokkuð dramatísk breyting á uppgjöri nokkru undir lokin - smá nýr texti og allt. Gaman að þessu.
Svo er bara að sjá hvað mikið af öllum þessum breytingum við munum þegar næst er rennt, væntanlega annað kvöld.
Sigurður H. Pálsson
21/11 2004
Ýmis tækniatriði og svo rennsli, sem þótti takast furðu vel, einkum hvað varðar það að halda í hinar ýmsu nýjungar sem hefur verið bætt inn á síðustu dögum. Nokkrir gestir voru á rennslinu, og létu þeir víst vel af.
Sigurður H. Pálsson
22/11 2004
Sminkfikt, myndataka, tækniatriði og rennsli.
Sigurður H. Pálsson
23/11 2004
Nú erum við þó virkilega á lokasprettinum. Tvö rennsli í kvöld, með öllu. Það fyrra gekk býsna vel, það seinna ívið betur. Enn textaklikk á stangli, og eitthvað ljósarugl, en góð keyrsla og ýmislegt nýtt að gerast. Held að allir hafi farið heim verulega þreyttir, en líka sáttir.
General á morgun.
Sigurður H. Pálsson
24/11 2004
Generalprufa. Nokkuð stress við að ná sminki, tækniprufum og upphitun áður en fólki (ekki mjög mörgu reyndar) var hleypt inn kl. 21:00. Þetta náðist samt að mestu leyti. Generállinn gekk að mörgu leyti býsna vel - helstu lýtin á honum voru eiginlega klikk í hljóðkjúum.
Sigurður H. Pálsson
25/11 2004
Jæja. Þar kom að því. Við erum búin að frumsýna.
Eftir tvo mánuði, næstum fimm tugi æfinga sem yfirleitt hafa allir verið mættir á, þarf ég nokkuð að segja blóð, svita og tár, þá er afkvæmið komið á svið.
Og við erum sátt. Við erum mjög sátt. Við erum satt að segja bara hrikalega ánægð með þetta. Ég gæti sagt eitthvað hástemmt hérna, en held það yrði hallærislegt. Viltu ekki bara koma og sjá okkur?
Memento mori, amice!
Sigurður H. Pálsson