Sagnasafn Hugleiks

Leikum núna

Hugleiksfólk á hátíðinni „Leikum núna!“ á Akureyri

Elsta efst

27/6  26/6  25/6  24/6  23/6  23/6  22/6 

27/6 2005

Hugmyndin hjá okkur Sigurði var að við myndum færa inn í þessa dagbók saman, en eins og hann hefur lýst var erfitt um vik. Mig langaði samt að lýsa aðeins minni upplifun af þessu öllu saman.

Ég held að við höfum leikið tvær bestu sýningarnar á Patataz á Akureyri, mikill kraftur í leikhópnum og ósviknar tilfinningar, enda var fólk vægast sagt mjög ánægt með okkur. Ketilhúsið er ekki vel fallið til leiksýninga, hljómburður slappur og erfitt að koma að miklum ljósum, en þrátt fyrir það var útkoman ein sú besta hingað til.

Memento var hrein og tær snilld. Ég var auðvitað áhorfandi að þeirri sýningu og sat fremst og leyfði gæsahúð, tárum og hlátri að flæða yfir mig. Ég sá lokasýninguna í Hjáleigunni í vetur, en þessi (seinni sýningin á föstudeginum) var hrein og klár snilld, allir þættir til staðar til að gera frábært leikhús. Og nú þekki ég alla í sýningunni og fylltist miklu stolti yfir því að vinir mínir skyldu hafa skapað svona frábæra sýningu. Þetta er ekki auðvelt efni sem leikritið fjallar um, ljóðrænar og heimspekilegar pælingar sem bjóða hreinlega upp á tilgerð, en þarna eru allir þættir í jafnvægi, leikur og leikstjórn frábær þannig að útkoman er tær og hrein. Ekki furða þótt sýningin hafi hreppt verðlaunin sem besta leiksýningin, auk þess sem Huld fékk verðlaun sem besta leikkona fyrir sitt hlutverk sem hún skilaði eftirminnilega. Þetta er einfaldlega leikhús í hæsta gæðaflokki, hvað sem öllum skilgreiningum á áhuga/atvinnuleikhúsi við kemur.

Aðrar sýningar voru vel yfir meðallagi. Sú sem kom mér skemmtilegast á óvart var sýning Hörgdæla á Stundarfriði. Leikfélag Hörgdæla er ekki mikið í umræðunni, fellur kannski svolítið í skuggann af nágrönnum sínum í Freyvangi, auk þess sem ég hafði ekki mikla trú á að leikritið stæðist tímans tönn. En í stuttu máli sagt var þetta verulega góð sýning, þar sem leikstjórn Sögu Jónsdóttur var nákvæm og skýr. Sviðið í Hörgárdal er lítið og ekki mikið pláss fyrir leikarana sem eru á fleygiferð allan tímann, en allar hreyfingar voru fumlausar og nákvæmar og leikur allur mjög góður. Leikmynd var mjög flott og vel hugsuð, og það ásamt góðum leik varð til þess að fjölskyldan birtist manni ljóslifandi. Leikhópnum tókst líka vel að uppfæra leikritið til nútímans með gsm símum og sms skeytum, fartölvum og expressovélum.

Af öðrum sýningum má nefna Allra kvikinda líki, sem ég missti af hér fyrir sunnan. Sú sýning er ein sú fyndnasta sem ég hef séð í leikhúsi, ég bókstaflega hágrenjaði af hlátri í söngnum um Putta frænda, og það var kærkomin tilbreyting eftir allt dramað í flestum öðrum sýningum hátíðarinnar. Og krítíkerar voru vel hrifnir af þeirri sýningu. Bibbi gítarleikari sagðist hafa fylgst með Þráni Karlssyni (öðrum gagnrýnanda hátíðarinnar) meðan á sýningu stóð. Karlinum stökk ekki bros allan tímann og þegar sýningu lauk hristi hann hausinn, stóð upp og fór. Því voru krakkarnir komnir með í magann þegar að gagnrýni hans kom daginn eftir. En í stuttu máli sagt gaf hann sýningunni hæstu einkunn og sagði að sjaldan gæfist honum færi á að sjá eitthvað nýtt í leikhúsi og var greinilega afar hrifinn. Þráinn hlýtur því að fá verðlaun fyrir að sýna pókerfés hátíðarinnar.

Trúðaatriðið sem Siggi missti af get ég lítið sagt um, enda einn af umræddum trúðum og man varla lengur hvað ég gerði þarna á sviðinu. Það var þó dátt hlegið í salnum og þetta virtist takast vel hjá okkur.

Annars vil ég þakka Hugleiki fyrir að veita mér þetta tækifæri til að vera þátttakandi í þessari frábæru hátíð. Bæði var að hátíðin bauð upp á frábært leikhús og allar sýningar heppnuðust vel og voru vel þess virði að sjá. Auk þess voru skemmtileg námskeið í gangi, Siggi hefur áður minnst á fyrirlestur Bernd Ogrodniks, en auk þess sótt ég frábært námskeið í Stage Fighting, sem hin norska Ina stýrði af stakri prýði. Og næturnar voru ekki síðri, þótt þær verði ekki tíundaðar frekar hér.

Guðmundur Erlingsson

26/6 2005

Flestum tókst að skreiðast framúr í hádeginu, og drífa sig á sýningu Selfyssinga, „Náttúran kallar“. Af henni mátti hafa talsverða skemmtan, þótt gagnrýnendum þætti hún „heldur klén“. Að sýningu lokinni var gengið til verðlaunaveitinga og hátíðarslita.

Segja má að tvö félög hafi komið, séð og sigrað við þessa verðlaunaveitingu: Leikfélag Kópavogs og – Hugleikur. Sýningarnar þrjár sem þessi félög buðu upp á tóku allar tilnefningarnar fyrir bestu sýningu og bestu leikstjórn, auk þess sem fjórir af sex sem hlutu tilnefningar fyrir leik voru frá þessu félögum, þar á meðal Hullararnir Júlía Hannam og dagbókarhöfundur. Þá var Patataz tilnefnd fyrir umgjörð. Það var svo Memento sem hreppti hnossið fyrir bæði sýningu og leikstjórn.

Ég trúi að allir hafi farið ánægðir heim af þessari hátíð. Þetta voru magnaðir dagar sem við áttum í höfuðborg Norðurlands.

Sigurður H. Pálsson

25/6 2005

Nokkrum tókst þrátt fyrir lítinn svefn að drífa sig á fyrirlestur brúðusnillingsins Bernd Ogrodnik. Það var vel þess virði.

Eftir hádegið var svo tekið við einróma lofi gagnrýnendanna um Memento mori. Það var ekki annað að heyra en að Þráinn hefði heillast algerlega upp úr skónum. Undirritaður fékk svo tækifæri til að þakka Hörgdælum fyrir skemmtunina kvöldið áður sem gestagagnrýnandi.

Að því loknu var það „Birdy“ þeirra Hafnfirðinga (þess má geta að Hafnfirðingar vöktu talsverða athygli á hátíðinni fyrir snyrtilegan klæðaburð). Þennan laugardag sýndi Kópavogurinn líka kvikindin sín, en ég verð að játa að því fórnaði ég fyrir lúr sem var algerlega nauðsynlegur til að safna kröftum fyrir lokahófið.

Hófið var til mestu fyrirmyndar. Júlli stýrði af mesta myndarskap, Dilla og félagar göldruðu fram afbragðs mat, og svo var farið í leikinn „leikið aðra sýningu en ykkar eigin á tveimur mínútum“, sem sum okkar kynntust í Viljandi í fyrra. Sérstaklega er Putti frændi í túlkun Rannsóknarskipsins minnisstæður.

Þeir minnst kvöldsvæfu fengu svo athvarf í afbragðs garðveislu fram á morgun.

Sigurður H. Pálsson

24/6 2005

Stærstum hluta föstudagsins eyddum við í Ketilhúsinu við að undirbúa og sýna Memento. Það rétt tókst að ná inn næstum því heilu rennsli áður en fyrri sýningin hófst kl. 15. Á hana mættu býsna fáir, en því fleiri voru á þeirri síðari, kl. 17:30. Það er skemmst frá því að segja að sýningarnar tókust báðar með ágætum, og viðtökur voru fantagóðar – eftir þá síðari risu áhorfendur á fætur í uppklappinu, og veit ég ekki til þess að það hafi gerst annars á þessari hátíð.

Um kvöldið sáu þeir sem enn áttu til einhverja orku „Davíð Oddsson superstar“ hjá Leikklúbbnum Sögu og „Stundarfrið“ hjá Hörgdælum á Melum. Báðar voru þessar sýningar prýðisgóðar, þótt mörgum kæmi spánskt fyrir sjónir hve líkindin með sýningu Sögu og sýningu Stúdentaleikhússins með sama leikstjóra voru mikil.

Á klúbbnum tróð upp trúðahópur, sem undirritaður missti af, enda fastur uppi í Hörgárdal, en að honum var gerður góður rómur. Þá steig á stokk nýstofnaður kór hátíðarinnar, sem var ekki alveg ósvipaður þjóðhátíðarkórnum úr Svarfaðardal, en var þó með nokkrum tilbrigðum.

Þeir þrautseigustu héngu svo á Kaffi Karólínu fram undir morgun.

Sigurður H. Pálsson

23/6 2005

Þetta fór allt á besta veg í gær. Um síðir tókst að koma upp nokkurn veginn nógu mörgum ljósum og útvega hátalara. Svo var márinn búinn til með kastaníuköku og lakkbrúsa og rölti brakandi af lakki með öllum hinum upp í Samkomuhús að sjá Litháana. Þeir voru býsna skemmtilegir, þó kannski ekki eins stílhreinir og maður hefði vænst úr þeirri átt.

Næst var svo fylgst með hinni hafnfirsku Dýragarðssögu og hlaupið út af uppklappinu eftir hana til að klappa hópinn saman fyrir fyrri Patataz-sýningu kvöldsins kl. 7.

Sýningin tókst prýðilega og viðtökur eins og best verður á kosið. Svo var bara hálftími til að undirbúa næstu sýningu og svo aftur á svið. Það var skrýtið að keyra af stað í þetta svona strax aftur, en engin ástæða til að kvarta yfir því, enda bar okkur saman um það að okkur hefði sjaldan eða aldrei tekist betur upp. Áhorfendur virtust vel sáttir, og nú á eftir fáum við að heyra hvað gagnrýnendunum fannst.

Eftir seinni sýninguna var svo leikmyndinni fleygt fram af svölum Ketilhússins, þar sem hún liggur nú í öreindum sínum. Að öllum frágangi loknum héldum við í hátíðarklúbbinn í Græna hattinum þar sem Gísli Björn stóð fyrir teatersporti. Þar var setið eins lengi og húsráðendur þoldu (eða lengur) og svo hver til síns heima að lúlla.

Nú í morgun er fólk mishresst, t.d. mun sviðsslagsmálasmiðja hafa fallið vegna mannfæðar (það þótti víst ekki forsvaranlegt að láta Hrund slást við sjálfa sig í þrjá tíma).

Sigurður H. Pálsson

Athugasemdir: 1

23/6 2005

Frá og með þessari færslu er dagbókin bakfærð, þ.e. samin eftir minni að hátíðinni lokinni. Það var einfaldlega svo að fá tækifæri gáfust til bloggs, auk þess sem oft var erfitt að komast að í litlu tölvuveri hátíðarinnar.

Síðast var sagt frá því að von væri á krítík á Patataz. Hún fór á þann veg að báðir gagnrýnendur hátíðarinnar, þeir Þráinn Karlsson og Þorsteinn Bachmann voru verulega hrifnir af sýningunni, ekki síst af vinnu leikstjóra og frammistöðu leikhópsins. Þráinn talaði um „áhugasýningu í hæsta gæðaflokki“ og Þorsteinn kallaði leikritið „Stundarfrið 21. aldarinnar“.

Þennan dag fengum við að sjá „Taktu lagið Lóa“ í Freyvangi og „40% of Nothing“ frá sænska hópnum Cirkity Gravikus. Í fyrrnefndu sýningunni fóru þær Mæja og Guðrún Halla á kostum, en sú sænska þótti mönnum heldur þunnur þrettándi. Prýðis sirkusnúmer, en vantaði allan strúktúr til að halda þeim saman.

Um kvöldið var byrjað að undirbúa Memento-sýningar morgundagsins. Raðað var upp þessum líka fínu impróvíseruðu pöllum í Ketilhúsinu, og garlakallinn Skúli byrjaði að setja upp ljós. Svo var haldið í klúbbinn, sem þetta kvöldið í Deiglunni. Þar voru skemmtiatriði af ýmsum stærðum og gerðum, og því Memento-fólki sem enn vantaði var ákaft fagnað jafnóðum og það tíndist inn, nýkomið í bæinn.

Sigurður H. Pálsson

22/6 2005

Mættum seint í gærkvöldi og litum beint inn í Ketilhús, þar sem við eigum að sýna Patataz í dag. Aðstaðan er ekki beinlínis eins og best yrði á kosið, auk þess sem okkur vantar enn (nú kl. 10:30) eitthvað af ljósum og hátalara. En þetta bjargast nú vonandi allt. Við erum að spá í að nýta tímann sem best og mæta á sýningar dagsins í karakter (sem þýðir tilheyrandi márasmink fyrir suma).

Meira síðar.

Sigurður H. Pálsson