Athugasemdir við færslu 6/3 2005
Siggi, 11/4 2005 kl. 01:43:
Það er satt, Guðmundur, það vantar tilfinnanlega kommentakerfi...
6/3 2005
Þetta verður síðasta færslan.Frumsýningardagur. Klukkan er fjögur og eftir nákvæmlega fjóra tíma stígum við á svið í Vatnagörðum (neinei, þetta er ekki Youssuf sem er að stelast í bloggið...). Frumsýningardagurinn er óneitanlega svolítið skrýtinn, nú lýkur æfingarferlinu og sýningar taka við. Ekki laust við að maður byrji strax að sakna leikæfinganna, það líður heil vika þar til við hittumst næst á annarri sýningu, þetta hefur verið svo stór partur af tilverunni. Ég get ekki sagt að ég sé stressaður, mér líður það vel á sviðinu með hinum að það er í sjálfu sér engin ástæða til kvíða. Býst samt við að taugarnar spennist aðeins meir eftir því sem klukkan silast nær áttunni. Það er svolítið oft sem maður heyrir velt upp þeim fleti á leikstarfi að þetta hafi einhver þroskandi áhrif á fólk, þau kynnist sjálfum sér á nýjan hátt, maður breytist. Ég veit ekki hvort ég er sammála, það hljómar of terapíulegt. Leikhús er ekki terapía, hvorki fyrir áhorfandann né leikarann né leikstjórann. Hins vegar getur það haft svipuð áhrif á fólk, sem gerir það samt ekki endilega að góðu leikhúsi. Kannski er bara ómögulegt að setja í orð þessa reynslu að skapa karakter og vinna með öðrum til að segja sögu á sviði. Ég held ekki að leikritið sem slíkt hafi breytt okkur eða viðhorfum okkar, ég hef enn sama skilning á þroskaheftum og áður og ég held að viðhorf okkar varðandi fjölmenningu og rasisma hafi ekki breyst mikið, ef þá nokkuð. Þetta hefur samt verið einstaklega lærdómsríkt ferðalag fyrir okkur öll. Ég get auðvitað ekki talað fyrir meðleikara mína, þau hafa líka meiri reynslu en ég á leiksviði og því hefur ferðalagið verið öðruvísi fyrir þau en mig, á einhvern hátt í það minnsta. Ég hafði fyrirfram "lærðan" skilning á vinnu leikarans, ég hef sjálfur leikstýrt (þó ekki á sviði) og vissi svona nokkurn veginn hvernig leikarar fara að. En ég bjóst ekkert við því að mér væri gefið að vinna á sama hátt (m.ö.o. ég vissi ekki hvort ég gæti leikið yfir höfuð). Mér leið aldrei vel á leiksviði áður og hafði enga sérstaka þörf fyrir að leika neitt mikið. En þessi reynsla nú hefur breytt því algjörlega. Það er ekki síst að þakka leikstjóranum. Kannski hafa einhverjir heyrt að hann gangi nú undir nafninu Bergur æðislegi, og það er alveg til marks um ánægju okkar af að vinna með honum. Þetta er bara búinn að vera svo skemmtilegur og gjöfull tími. Bergur er fyrir það fyrsta afar jákvæð manneskja, hugmyndaríkur og spontant. Það er gaman að sjá það svona eftir á að margt sem framfór á æfingum virtist Bergur vera að spinna á staðnum, en eftir á að hyggja sér maður að þetta var allt "part of the plan". Hann vissi alveg hvað hann var að gera allan tímann. Samt var hann óhræddur við að prófa nýja hluti til að geta laðað fram eitthvað nýtt hjá okkur. Það er auðvitað fyrst og fremst spunaæfingarnar og "hot seat" sessjónið sem höfðu mest áhrif á okkar frammistöðu. Eftir það breyttist eitthvað mikið í hópnum. Það er ekki nóg að setja sig í karakter, það verður að vera tilfinning fyrir bakgrunni þeirra og samskiptum, af hverju þeir gera það sem þeir gera. Og skilningur er ekki nóg ef ekki er tilfinningaleg innistæða. Það er einmitt það sem kom svo sterkt eftir "hot seat" æfinguna, væntumþykjan á milli Baldurs og Önnu Lilju, kærleikur Þórmundar til Baldurs, samband Önnu og Youssufs, tilfinningakuldi Sigríðar og áhrif hans á hina. Og fleiri hlutir. Og Bergur lét okkur gera þessa æfingu á hárréttum tíma, við vorum búin að vera að æfa í nokkrar vikur, komin með góða tilfinningu fyrir leikritinu og karakterunum og spuninn náði mun meiri dýpt en annars hefði verið. Þá sannfærðist ég líka um að ég gæti leikið. Gæðin skipta ekki máli, ég get leikið og þannig er það.Og það er ekki síst þessi sannfæring hans um að við verðum að leita heiðarleikans og sannleikans í persónunum sem hefur smitast til okkar. Persónurnar í leikritinu er mjög auðvelt að ýkja og gera að skopstælingum. Aðstæðurnar sem þær eru settar í eru á vissan hátt ýktar, og þess vegna hefði minni leikstjóri getað fallið í þá gryfju að snúa þessu öllu upp í grín og ýkja allt upp. En um leið hefði leikritið fallið um sjálft sig. En ég held að við höfum náð að skapa raunverulegar persónur, heiðarlegar og sannar, þótt þær geri ekki alltaf góða eða gáfulega hluti. En þetta er fólk sem okkur þykir vænt um.En það eru ekki síður meðleikararnir mínir sem hafa gert þennan tíma frábæran og eftirminnilegan. Það er frábært að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessu dásamlega fólki, og fá að vinna með þeim að svona frábærri sýningu. Þetta er alveg brjálæðislega hæfileikaríkt fólk sem ég vona að ég eigi eftir að vinna með aftur, og það oft. Eiginlega hálfsorglegt að við séum að "missa" Lilju Nótt í atvinnumennskuna...Kominn tími til að hætta. Ég veit ekki hversu margir hafa verið að fylgjast með þessari dagbók (hér vantar tilfinnanlega kommentakerfi...) en ég vona að þið hafið haft gaman af. Nú er tími til að bregða sér út í góða veðrið og út í bíl og aka út í Vatnagarða (fallegt nafn, Vatnagarðar). Frumsýning á næsta leyti. Einhver ykkar sé ég á eftir, annað hvort á sviðinu eða úti í sal eftir sýningu.Óskið okkur góðs gengis. Brotnir fótleggir út um allt. Á Spáni segja menn "mucha mierda", "mikinn skít". Það vísar til þess að áður fyrr fór fólk um á hestum og ef sýning gekk vel var góður skítahaugur eftir fyrir utan leikhúsið að sýningu lokinni. Því vil ég nota tækifærið til að óska okkur sjálfum mikils skíts.Og nú er þetta búið. Snjóboltinn rúllar af stað núna.... 6/3 2005