Sagnasafn Hugleiks

Patataz (Aðfaranótt)

Af æfingum á Patataz (eða Aðfaranótt eins og það hét þegar æfingar hófust)

Um sýninguna: Patataz

Nýjasta efst

13/1  17/1  18/1  19/1  22/1  24/1  26/1  29/1  31/1  1/2  2/2  5/2  7/2  8/2  9/2  12/2  14/2  15/2  16/2  21/2  22/2  23/2  24/2  26/2  28/2  1/3  2/3  3/3  5/3  6/3 

13/1 2005

Fyrsta æfing, jibbí.

Mætt voru fimm leikaragrey, sem á að píska áfram næstu sex vikurnar (Rúnar, Júlía, Lilja Nótt, Siggi Páls og Guðmundur). Óvenju fámennt miðað við hin "hefðbundnu" Hugleiksstykki, frumsýningarpartíið verður sjálfsagt bara einhvers staðar í heimahúsi. Auk okkar leikaranna voru þarna Bergur leikstjóri, Sigga Lára aðst.leikstj. og einn laumufarþegi (sonur minn).

Björn mætti með nýja versjón af leikritinu, og við lásum það yfir og ræddum svo aðeins um það á eftir, ræddum mögulegar breytingar og annað eftir því. Gekk hið besta og við erum öll spennt yfir að takast á við þetta. Syni mínum fannst ég fyndnastur, sem mér fannst góð gagnrýni.

Guðmundur Erlingsson

17/1 2005

Enn mætir Björn með nýja versjón, leikritið hefur tekið talsverðum breytingum frá síðustu æfingu, sérstaklega í seinni hlutanum. Og það batnar bara og batnar. Þetta verður skemmtilegt. Lásum yfir og ræddum um á eftir. Bergur lýsti sinni sýn á leikritið og uppfærsluna, og við hin komum með okkar pælingar. Þessi partur æfingaferlisins er ekki síður skemmtilegur (altso, samræðurnar), og nauðsynlegur. Verður sjálfsagt skemmtilegri þegar sest verður yfir bjórkollu, hmmm...

Guðmundur Erlingsson

18/1 2005

Eitt af því sem gerir lífið og leikinn svo gefandi er að kynnast öðru fólki. Þessi æfing snerist svolítið um það.

Bergur lét okkur sitja í hnapp, beindi að okkur ljósi úr forláta skjávarpa og lét okkur leika á lágu nótunum, velta fyrir okkur textanum og viðbrögðum okkar gagnvart hinum persónunum. Þetta gafst vel, það var gott að fara með textann þannig, næstum hvísla hann, konfrontasjónirnar í textanum hverfa ekkert, en meðferðin verður nánari og maður þarf að gefa meiri gaum að meðleikendunum. Það komu nýir hlutir í ljós, held ég, þetta rennsli varð einhvern veginn tragískara en á fyrri æfingum, allavega fékk ég það á tilfinninguna.

Á eftir sátum við og töluðum um okkur sjálf. Bergur spurði okkur út úr um okkar líf og annað. Svona AA sessjón. Held að við strákarnir höfum allir verið svolítið abbó út í Júlíu og Lilju Nótt fyrir að hafa tekið sér svona margt fyrir hendur. En bara smá...

Guðmundur Erlingsson

19/1 2005

Time's fun when you're having flies...

Já, í gær var tragíska og lágstemmda æfingin, nú kom skemmtilega æfingin. Færðum okkur inn í salinn og gerðum nokkrar bráðskemmtilegar upphitunaræfingar. Böggluðum svo upp smá sviðsmynd, borði og stólum og lásum yfir fyrstu 15 síðurnar eða svo. Bergur ákvað þá að setja upp smá "sögusvuntu" og setti upp skerm fyrir framan okkur. Við þrjú í kjarnafjölskyldunni, Rúnar, Júlía og ég stóðum á bakvið skerminn þannig að bara sást í efsta hluta líkamans og lékum þannig, þar til afródansinn brýtur það upp. Lékum okkur með rýmið (eitthvað svo gáfulegt að tala um rými...), það er nefnilega mjög auðvelt í svona miklu samtalsleikriti að standa voða mikið í hnapp og hreyfa sig lítið. Bergur var því mikið í því að afmarka svæði... sorrí, rými, og láta okkur leika með það, standa stundum á sitthvorum endanum og kallast á o.s.frv. Geggt gaman... Ég er ekki ennþá dottinn alveg inn í Baldur, það er aðeins of auðvelt að detta inn í einhvern DiCaprio fasa þegar verið er að leika andlega fatlaða einstaklinga. Og ekki viljum við klisjur, ónei. En það komu heilmargir nýir hlutir hjá okkur leikurunum, bara við það að fara að hreyfa okkur aðeins um svæ...ehh, rýmið. Líkamlegt samspil leikaranna eða eitthvað (ef ykkur finnst það of dónalegt má líka kallað það "kroppslega samþættingu")

Já, og Lilja Nótt fær hrós fyrir að gorma handritið sitt á meðan við hin vorum að dreifa blöðum útum öll gólf. Spái því að öll handrit verði gormuð á næstu æfingu.

22/1 2005

Setning dagsins: Það er bannað að boinga zappið.

Svolítið skrýtið að æfa þegar það er bjart úti (gott útsýnið á Eyjaslóðinni, sko), en svo byrjar maður og það gleymist bara. Við unnum mest í upphafi dinnersins þegar familían er að kynnast Youssuf, flört og erótísk undiralda gægjast upp á yfirborðið og Baldur alltaf að verða meira og meira aggró. Jájá. Svo var soldið fyndið í "catwalkinu" að Sigga Lára setti alltaf upp sama svip og Anna Lilja. Ómeðvitað held ég alveg örugglega. Hana langar bara svo mikið til að leika, greyið...

Guðmundur Erlingsson

24/1 2005

Þessi æfing er kannski merkileg fyrir það að nú var tekin í fyrsta sinn alvöru smók pása. Gott mál. Og svo reyndist kötturinn Grettir býsna drjúgur með sig, fékk meir að segja leikara til að gleyma sér og gleyma að koma inn með replikkurnar sínar. Annars unnum við áfram í fyrsta fjórðungnum, og hann virðist vera kominn nokkuð góður. Og fullt af nýjum hlutum að birtast, þó kannski ekki í eins stríðum straumum eins og á fyrstu æfingunum, en það er líka eðlilegt.

Guðmundur Erlingsson

26/1 2005

Héldum áfram með leikritið, nú er að koma mynd á upphaf dinnersins, leikararnir fá nóg að gera og einhvern veginn finnst manni óendanlega merkilegt hvað fólk getur verið hugmyndaríkt. Í lok æfingarinnar kom fram hugmynd um Baldur sem ég veit ekki hvort mér líst eitthvað á.

Guðmundur Erlingsson

29/1 2005

Þetta var slúðuræfingin. Héldum áfram með dinnerinn, Baldur látinn/fékk að vera með kroppasýningu (æ, mín vömb, mín vömb!). Í lokin tókum við rennsli frá byrjun og að, tja, ætli það sé ekki cirka hálft leikritið, og gekk bara ótrúlega vel. Það er komin býsna góð mynd á þetta. Maður finnur líka að þegar búið er að leggja góðan grunn að upphafinu og öllum persónum kemur afgangurinn næstum af sjálfu sér. Tókum lengstu pásuna til þessa, og slúðruðum um menn og málefni. Jájá, alltaf gaman að því.

Guðmundur Erlingsson

31/1 2005

Jámm, níu æfingar að baki.

Setning dagsins: "Stelpur! Við erum þrettán, alveg eins og dvergarnir sjö!"

Héldum áfram að mjaka okkur áfram í handritinu, nú er komið í ljós að Baldur er ekki bara aggró, heldur líka subbó. Jájá. Samband mæðgnanna Sigríðar og Önnu Lilju verður sífellt magnaðra. Svo kom rannsóknarskipið í heimsókn og horfði á okkur renna þessum hluta. Ekki fitjaði hann upp á trýni svo séð væri, þannig að ég held að við séum á mjög góðu róli. Næsta æfing verður spennandi, þá fer familían í tvister og líklega fer allt í rugl svona framanaf.

Sjöundi samúræinn kveður

Guðmundur Erlingsson

1/2 2005

Setning dagsins: það er engin setning dagsins, enda stelur Sigga Lára þeim alltaf og setur á bloggið sitt.

Héldum ögn áfram í leikritinu, og renndum svo öllum fyrri partinum, sem gekk ótrúlega snurðulaust. Mældist 48 mínútur, einhverjar sekúndur og sekúndubrot. Að rennsli loknu gaf Bergur okkur punkta og við ræddum aðeins um þá eftir því sem tilefni var til. Þetta var nú allt á jákvæðu nótunum hjá honum. Svo var dríft sig á Ljóta Andarungann og sötraður bjór, sumir dreyptu á rauðvíni og sumir reyktu sem reykja annars ekki. Býsna gaman.

Guðmundur Erlingsson

2/2 2005

Setning dagsins: Það er alveg hægt að hafa gaman af rúnki, sérstaklega ef maður stundar það sjálfur.

Fórum í gegnum tvisterinn, sem er nú ekki mikill tvister lengur. Mikið drama og mikið fjör. Þetta er óneitanlega matarmesti parturinn, uppgjör og læti og ég verð að segja að mér fannst meðleikararnir oft eiga frábær móment. Ég datt oft út úr karakter við það að fylgjast með hinum, enda koma tímabil inn á milli þar sem Baldur segir ekkert.

¡Hasta el sábado, niños!

Guðmundur Erlingsson

5/2 2005

Setning dagsins: Þú arpar ekki í bakið á einhverjum.

Í dag unnum við mest í leikhluta verksins (twisterinn sem ekki er lengur twister), enda kannski lógistískt flóknasti parturinn, mikil hreyfing og fart á fólki. Gekk þokkalega, bjáninn sem leikur Baldur var reyndar alltaf að ruglast á textanum sínum (og hefur þó minnsta textann af öllum), en það er komin mynd á þetta.

Í lok æfingarinnar lét Bergur okkur para okkur saman, hvert okkar átti þá að gefa 10 orð sem lýstu hinni persónunni þar til hver og einn var með lista frá 3 meðleikendum. Svo tókum við út orð í listunum sem komu fyrir oftar en einu sinni. Heima þurfum við að finna andstæðuna, og mæta sem þannig karakter á næstu æfingu. Þ.e. ef einhver er feiminn, á sá að vera ófeiminn, o.s.frv. Þetta verður spennandi. Og soldið skerí.

Guðmundur Erlingsson

7/2 2005

(Síðasta færsla nauðsynleg til að skilja þessa)

Mættum sem andstæður okkar sjálfra, skv. fyrirmælum frá Bergi vorum við þessi andstæði karakter alveg frá því við gengum út um dyrnar heima hjá okkur og þangað til hann segði okkur að hætta. Hann tók á móti okkur og bauð okkur velkomin á námskeiðið, við kynntum okkur og svo var farið í leiki og spunaæfingar. Allan tímann í karakter. Þetta var bæði magnaður og skemmtilegur andskoti. Sem betur fer mátti minn karakter hlægja, þannig að þetta var þolanlegt fyrir mig en meðleikararnir þurftu flestir að bíta í kinnar. Að því loknu fórum við á Rauða ljónið (enn í karakter), pöntuðum kaffi og Bergur sagði okkur að hætta.

Það sem kemur út úr svona æfingu er held ég fyrst og fremst traust, bæði traust á leikstjóranum og svo á meðleikarunum. Þarna reynum við að gera það sem alla jafna er andstætt "persónuleika" okkar, það gerir manni líka ljóst að hegðun manns dags daglega er að stórum hluta ávani, tiktúrur og kækir sem maður hefur vanið sig á. Má segja að þessi æfing sé Zen með öfugum formerkjum.

Guðmundur Erlingsson

8/2 2005

Ja hérna. Ég veit eiginlega ekki hvernig á að skrifa um þessa æfingu, fyrir mig (og okkur öll) var þetta mögnuð upplifun sem er erfitt að koma í orð. Reyni samt.

Renndum leiknum einu sinni. Það gekk allt á afturfótunum og Bergur lét okkur hætta. Hann náði í skjávarpann, slökkti öll önnur ljós og lét okkur sitja eins og í yfirheyrslu, og í karakter. Og útkoman varð eiginlega mun magnaðri en mann óraði fyrir. Ekki síst vegna þess að Lilja Nótt (Anna Lilja) byrjaði og fór mjög djúpt, mikið tilfinningarót og setti tóninn fyrir okkur hin. Svei mér þá, ég held ég hafi ekki sleppt mér svona síðan ég var 4ra ára, eða eitthvað svoleiðis. Það er magnað að detta inn í karakterinn, samt er þetta ekki þannig að karakterinn taki völdin, maður er ennþá maður sjálfur, en með öðrum formerkjum og leyfir flæðinu að ná yfirhöndinni, reynir ekki að stoppa eða hika. Sýndi sig líka hvað æfingin á síðustu æfingu var gagnleg, nú er komið svo mikið traust í leikhópinn að það hálfa væri nóg.

Að æfingu lokinni héldum við inn í Vatnagarða og kíktum á væntanlegt (vonandi) sýningarhúsnæði, þar sem Saga Film var áður með bækistöðvar. Mikið speis, háááátt til lofts og vonandi verður úr því að þetta húsnæði verði notað.

Guðmundur Erlingsson

9/2 2005

Með lærdóma frá síðustu æfingu í huga byrjuðum við að renna, tja, nokkurn veginn miðhluta verksins. Held að við höfum verið eitthvað dösuð eftir átök gærdagsins, allavega var fólk ekki mikið að muna tekstann sinn. Bergi fannst þetta samt bara fínt, kæruleysið væri jákvætt, það væri ekkert verra en þegar leikarar fara að vanda sig. Heiðarleiki er það sem máli skiptir.

Guðmundur Erlingsson

12/2 2005

Slagsmál og læti, maður! Já, það eru slagsmál í leikritinu. Þess vegna fór fyrri hluti æfingarinnar í slagsmálabrellur. Við lærðum að velta okkur yfir borð, draga fólk á hárinu, sparka í haus og pung og slá, lemja, meiða og berja. Við sláumst reyndar ekki öll í leikritinu sjálfu, en það fengu samt allir að prófa. Og alveg merkilega fáir sem þurftu á slysó að æfingu lokinni.

Renndum svo lokakafla leikritsins, sem er auðvitað merkur áfangi, því nú höfum við farið í gegnum leikritið allt. Og á mánudaginn byrjum við að renna leikritinu öllu. Það verður gaman að koma þessu öllu saman eftir að hafa verið að vinna svona mikið í bútum.

Guðmundur Erlingsson

14/2 2005

Valentínusardagur, já! Leikæfing, já! Fyrsta rennsli, já!

Ekki slæmt rennsli af allra fyrsta rennsli á leikritinu að vera. Fullt af textaklikkum og fullt af ókláruðum mómentum, en það eru líka nokkrar vikur til frumsýningar enn. En það var óneitanlega gaman að renna öllu klabbinu og fá loks tilfinningu fyrir verkinu í heild, og kynnast persónunum enn betur. Svo gengu lógistískt flóknir hlutir eins og leikurinn og slagsmálin ótrúlega vel. Á eftir fór Bergur í punkta og við ræddum um æfinguna. Svo lékum við okkur smá í spunaleik, þar sem mér tókst næstum því að svipta Sigga fjölskyldugersemunum. Slapp þó með skrekkinn.

Gaman, já!

Guðmundur Erlingsson

15/2 2005

Renndum verkinu aftur, Bergur stoppaði okkur af og til og lét okkur endurtaka (hver er besti vinur leikarans?).

Annars var frétt kvöldsins sú að við höfum fengið inni í Vatnagörðum (fyrrum stúdíó Saga Film). Jibbí!

Guðmundur Erlingsson

16/2 2005

Jæja, sjálfur höfundurinn mætti til að sjá okkur klúðra verkinu sínu. Neinei, við gerðum það drulluvel. Renndum stykkinu án þess að stoppa og höfundurinn fyllti upp í með hláturrokum, enda sagðist hann vera búinn að steingleyma leikritinu. Að æfingu og punktum frá Berg loknum skunduðum við á Ungann og sátum að sumbli. Alveg geðveikt stuð!!!

Guðmundur Erlingsson

21/2 2005

Fyrsta æfing í Vatnagörðum. Óneitanlega svolítið skrýtin tilfinning að leika í svona geimi, eftir hana litlu Eyjaslóð. Renndum reyndar ekki verkinu, heldur reyndum nýja desertútfærslu. Skemmst frá því er að segja að sú útfærsla innihélt vínber með steinum, og þar sem endurtekningin er besti vinur leikarans vorum við komin með harla gott ógeð á téðum þrúgum í lok æfingar.

Guðmundur Erlingsson

22/2 2005

Setningin: Það má fela snickers á ýmsum stöðum...

Rennsli, rennsli. Baldur þrælvangefinn að vanda, en auk þess vita raddlaus sökum flensuskratta. Skrýtinn fugl þessi flensa (þetta á að vera brandari). Byrjuðum á því að góna illilega á eitthvað auglýsingapakk sem hafði hreiðrað um sig í stúdíóinu eins og það ætti pleisið. Þau dröttuðust burt að lokum. Byrjuðum æfinguna á því að fara í tónlistarkjú, og renndum svo verkinu öllu. Það gekk vel, ýmsir nýir hlutir að spretta fram eins og vera ber í nýju rými. Nú fer þetta að verða spennandi, já.

Guðmundur Erlingsson

23/2 2005

Fyrsti partur æfingarinnar fór í fataskipti, úr og í og úr og í aftur og svo aftur úr og enn aftur í. Reyndar slapp ég vel þar sem Baldur getur tekið langan tíma í sitt stripp, en hin voru á útopnu. Að því loknu var tekið rennsli, sem gekk bara vel. Leikstjóranum fannst það svolítið döll (og sagði að það væri nú bara mjög gott að það væri döll. Æ, alltaf svo jákvæður þessi elska...), málið kannski að það var fullt af nýjum hlutum að koma upp en kannski meira í kollinum á okkur en í aksjón. Í það minnsta fannst mér margt nýtt koma inn í hjá Baldri, fyrir nú utan það að drengurinn er farinn að handleika hnífa. Svo er farið að sunka aðeins inn að það er ekki nema rúm vika í frums.

Guðmundur Erlingsson

24/2 2005

Aftur rennsli. Nú eru allir komnir með sína búninga (svona nokkurn veginn) og komin mynd á leikmyndina, ljós komin upp þannig að þetta fer að verða alltaf meira og meira alvöru. Eftir rennslið settist höfundurinn með okkur og fór yfir markaðssetningarplanið. Við búumst ekki við öðru en að slá í gegn.

Guðmundur Erlingsson

26/2 2005

Leikmyndin í málun þannig að við þurftum að tjasla upp einhverju bráðabirgðadóti. Rennslið gekk samt fínt, svolítið kraftlaust í upphafi en við náðum okkur á strik eftir því sem leið á. Já, og okkar dásamlegi asstleikstjóri sá okkur fyrir alvöru mat, svínasteik og vottnott. Og Baldur og Þórmundur fengu alvöru íspinna í lokin.

Guðmundur Erlingsson

28/2 2005

Þetta reyndist eitt besta rennslið hingað til, sem líklega var að því að þakka að í fyrsta sinn voru áhorfendur að horfa (þó að þeir væru ekki margir). Auk þess voru í fyrsta sinn alvöru ljós. Fyrir vikið vorum við meira á tánum og meiri kraftur sem losnaði úr læðingi. Smá textaklikk hér og þar en í það heila gekk þetta mjög vel.

Guðmundur Erlingsson

1/3 2005

Hver er besti vinur leikarans?

Nú voru ljós í rusli, þannig að við renndum í flúor. Auk þess engir áhorfendur, þannig að rennslið reyndist kraftminna en daginn áður. Þetta lítur þó allt mjög vel út, sviðshreyfingar komnar nokkuð góðar. Í lokin fórum við í nokkrar senur og Bergur gerði breytingar á nokkrum stöðum.

Guðmundur Erlingsson

2/3 2005

Flunkufínt rennsli í kvöld, ekki eins kraftmikið kannski og á mánudaginn, en hlutirnir allri mýkri og allar hreyfingar og tilfæringar gengu vel. Engin textaklikk að heitið gæti. Þetta er allt á réttri leið.

Guðmundur Erlingsson

3/3 2005

Renndum í fyrsta sinn fyrir framan áhorfendur sem enginn þekkti. Voru reyndar bara fjórir, en gaf samt smá straum. Það voru klikk hér og þar, eins og vera ber á rennslum, en í heildina var þetta ágætt. Generallinn verður samt betri, held ég. Og frumsýningin magnaður andskoti alveg. Brace yourselves. Svo hjálpaði líka að lýsingin var kominn í nokkuð endanlegt horf. Að lokinni æfingu var haldið á ungann og drukkinn bjór. Alveg geeeeðððveikt!!!

Guðmundur Erlingsson

5/3 2005

Þá er generallinn yfirstaðinn. Ljós eru komin alveg eins og þau eiga að vera og allt til reiðu. Það var slatti af áhorfendum, fleiri en hafa verið á síðustu rennslum sem gaf óneitanlega góða tilfinningu. Það er bara svo magnað að fá svona instant fídbakk á það sem maður er að gera. Það var ekki laust við að það væri skjálfti í fólki, textaklikk á nokkrum stöðum en náðum að bjarga því. En það var góður kraftur í þessu og sumar senur náðu alveg einhverjum brilljans. Generallinn má samt ekki vera fullkominn, það geymum við fyrir frumsýninguna. Og það er bara á morgun. Frumsýning, já! Gaman, já!

Alltjent, að general loknum héldum við heim til Hrefnu sem bauð okkur upp á dýrindis súpu. Og svo er bara að þreyja nóttina og sunnudaginn. Spái því að flestir úr hópnum verði komnir snemma upp í Vatnagarða. Það er erfitt að sitja kyrr....

Guðmundur Erlingsson

6/3 2005

Þetta verður síðasta færslan.

Frumsýningardagur. Klukkan er fjögur og eftir nákvæmlega fjóra tíma stígum við á svið í Vatnagörðum (neinei, þetta er ekki Youssuf sem er að stelast í bloggið...). Frumsýningardagurinn er óneitanlega svolítið skrýtinn, nú lýkur æfingarferlinu og sýningar taka við. Ekki laust við að maður byrji strax að sakna leikæfinganna, það líður heil vika þar til við hittumst næst á annarri sýningu, þetta hefur verið svo stór partur af tilverunni. Ég get ekki sagt að ég sé stressaður, mér líður það vel á sviðinu með hinum að það er í sjálfu sér engin ástæða til kvíða. Býst samt við að taugarnar spennist aðeins meir eftir því sem klukkan silast nær áttunni.

Það er svolítið oft sem maður heyrir velt upp þeim fleti á leikstarfi að þetta hafi einhver þroskandi áhrif á fólk, þau kynnist sjálfum sér á nýjan hátt, maður breytist. Ég veit ekki hvort ég er sammála, það hljómar of terapíulegt. Leikhús er ekki terapía, hvorki fyrir áhorfandann né leikarann né leikstjórann. Hins vegar getur það haft svipuð áhrif á fólk, sem gerir það samt ekki endilega að góðu leikhúsi. Kannski er bara ómögulegt að setja í orð þessa reynslu að skapa karakter og vinna með öðrum til að segja sögu á sviði. Ég held ekki að leikritið sem slíkt hafi breytt okkur eða viðhorfum okkar, ég hef enn sama skilning á þroskaheftum og áður og ég held að viðhorf okkar varðandi fjölmenningu og rasisma hafi ekki breyst mikið, ef þá nokkuð. Þetta hefur samt verið einstaklega lærdómsríkt ferðalag fyrir okkur öll. Ég get auðvitað ekki talað fyrir meðleikara mína, þau hafa líka meiri reynslu en ég á leiksviði og því hefur ferðalagið verið öðruvísi fyrir þau en mig, á einhvern hátt í það minnsta. Ég hafði fyrirfram "lærðan" skilning á vinnu leikarans, ég hef sjálfur leikstýrt (þó ekki á sviði) og vissi svona nokkurn veginn hvernig leikarar fara að. En ég bjóst ekkert við því að mér væri gefið að vinna á sama hátt (m.ö.o. ég vissi ekki hvort ég gæti leikið yfir höfuð). Mér leið aldrei vel á leiksviði áður og hafði enga sérstaka þörf fyrir að leika neitt mikið. En þessi reynsla nú hefur breytt því algjörlega.

Það er ekki síst að þakka leikstjóranum. Kannski hafa einhverjir heyrt að hann gangi nú undir nafninu Bergur æðislegi, og það er alveg til marks um ánægju okkar af að vinna með honum. Þetta er bara búinn að vera svo skemmtilegur og gjöfull tími. Bergur er fyrir það fyrsta afar jákvæð manneskja, hugmyndaríkur og spontant. Það er gaman að sjá það svona eftir á að margt sem framfór á æfingum virtist Bergur vera að spinna á staðnum, en eftir á að hyggja sér maður að þetta var allt "part of the plan". Hann vissi alveg hvað hann var að gera allan tímann. Samt var hann óhræddur við að prófa nýja hluti til að geta laðað fram eitthvað nýtt hjá okkur. Það er auðvitað fyrst og fremst spunaæfingarnar og "hot seat" sessjónið sem höfðu mest áhrif á okkar frammistöðu. Eftir það breyttist eitthvað mikið í hópnum. Það er ekki nóg að setja sig í karakter, það verður að vera tilfinning fyrir bakgrunni þeirra og samskiptum, af hverju þeir gera það sem þeir gera. Og skilningur er ekki nóg ef ekki er tilfinningaleg innistæða. Það er einmitt það sem kom svo sterkt eftir "hot seat" æfinguna, væntumþykjan á milli Baldurs og Önnu Lilju, kærleikur Þórmundar til Baldurs, samband Önnu og Youssufs, tilfinningakuldi Sigríðar og áhrif hans á hina. Og fleiri hlutir. Og Bergur lét okkur gera þessa æfingu á hárréttum tíma, við vorum búin að vera að æfa í nokkrar vikur, komin með góða tilfinningu fyrir leikritinu og karakterunum og spuninn náði mun meiri dýpt en annars hefði verið. Þá sannfærðist ég líka um að ég gæti leikið. Gæðin skipta ekki máli, ég get leikið og þannig er það.

Og það er ekki síst þessi sannfæring hans um að við verðum að leita heiðarleikans og sannleikans í persónunum sem hefur smitast til okkar. Persónurnar í leikritinu er mjög auðvelt að ýkja og gera að skopstælingum. Aðstæðurnar sem þær eru settar í eru á vissan hátt ýktar, og þess vegna hefði minni leikstjóri getað fallið í þá gryfju að snúa þessu öllu upp í grín og ýkja allt upp. En um leið hefði leikritið fallið um sjálft sig. En ég held að við höfum náð að skapa raunverulegar persónur, heiðarlegar og sannar, þótt þær geri ekki alltaf góða eða gáfulega hluti. En þetta er fólk sem okkur þykir vænt um.

En það eru ekki síður meðleikararnir mínir sem hafa gert þennan tíma frábæran og eftirminnilegan. Það er frábært að hafa fengið tækifæri til að kynnast þessu dásamlega fólki, og fá að vinna með þeim að svona frábærri sýningu. Þetta er alveg brjálæðislega hæfileikaríkt fólk sem ég vona að ég eigi eftir að vinna með aftur, og það oft. Eiginlega hálfsorglegt að við séum að "missa" Lilju Nótt í atvinnumennskuna...

Kominn tími til að hætta. Ég veit ekki hversu margir hafa verið að fylgjast með þessari dagbók (hér vantar tilfinnanlega kommentakerfi...) en ég vona að þið hafið haft gaman af. Nú er tími til að bregða sér út í góða veðrið og út í bíl og aka út í Vatnagarða (fallegt nafn, Vatnagarðar). Frumsýning á næsta leyti. Einhver ykkar sé ég á eftir, annað hvort á sviðinu eða úti í sal eftir sýningu.
Óskið okkur góðs gengis. Brotnir fótleggir út um allt. Á Spáni segja menn "mucha mierda", "mikinn skít". Það vísar til þess að áður fyrr fór fólk um á hestum og ef sýning gekk vel var góður skítahaugur eftir fyrir utan leikhúsið að sýningu lokinni. Því vil ég nota tækifærið til að óska okkur sjálfum mikils skíts.

Og nú er þetta búið. Snjóboltinn rúllar af stað núna....

Guðmundur Erlingsson

Athugasemdir: 1