Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 1/8 2005

Siggalára, 2/8 2005 kl. 09:06:

Vá. Þetta hljómar svoooo dásamlega. Bjór fram eftir degi, lagning yfir leiksýningum sem ljóslega verður samt hægt að tala mikið um, og svo dinner með undirleik Alice Cooper. Þetta er fyrsti dagurinn sem ég öfunda ykkur alveg í klessu af! Vona að það hafi verið teknar myndir af genginu í hvítu buxunum.

Gummi, 2/8 2005 kl. 11:33:

Já, ég er alveg flabberghasted. En ég er spenntur að heyra af afrísku sýningunum (var það ekki frá búrkína fasó?). Eru þær kannski eftir?
Annars eru nokkrir þarna sem ég held að hafi ekkert allt of gott af að spranga um í hvítum gígólóbuxum.

Júlía, 2/8 2005 kl. 22:57:

Jahérna hér.

Viljiði ekki barasta fara að drífa ykkur heim. Mér líst ekkert á svona ofbeldi og læti. Eru hvítu buxurnar hvortsemer ekki orðnar skítugar og svona...

ein sem er grænleit af ...nei nei engin öfund hér.

Grimmi Varaformaðurinn, 3/8 2005 kl. 09:58:

JÓ! Gekk Alice Cooper frá ykkur eða hvað? Ég vil fá að vita hvað gerðist 2.8. STRAX! (Eða allavega áður en ég fer úr vinnunni.) Annars skal ég aldeilis taka í rassinn á þeim sem á að skrifa færslu daxins, þegar hann kemur heim!

Sigga Birna, 3/8 2005 kl. 11:19:

Jæja þá ér maður komin heim.... ömurlegt að yfirgefa liðið.... en heimferðin gekk áfallalaust fyrir sig, fyrir utan að ég og Jón Örn erum alveg janf óheppin í röðum.... ;( Allavega ef fólk vill skoða myndir þá er alveg fullt af myndum inn á myndasíðunni minni sem má nálgast á bloggi mínu.... www.blog.central.is/sigga_birna

Skemmtið ykkur alveg yndislega það sem eftir er..... og ég vona að Suður Afríska sýningin hafi staðið undir væntingum ;)..... hehe..... ástarkveðja

Gummi, 3/8 2005 kl. 11:20:

Já, tek undir með varaformanni. Koma svo! Engan aumingjaskap!

Siggalára, 3/8 2005 kl. 12:52:

Þið svikasauðir! Ég ætla rétt að vona að þið séuð ekki að ímynda ykkur að þið getið hætt að rapportera bara vegna þess að "ykkar hluti" hátíðarinnar er búinn?

Annars var svaka gaman að sjá myndirnar á bloggi Siggu Birnu. (Bjargaði vinnudeginum fyrir horn.) Flott í fánalitum Mónakó. En mikið svakalega eruði búin að vera SVEITT! Ég get svo svarið það, ég fann næstum svitalyktina af Ármanni í gegnum tölvuna!

Gummi, 3/8 2005 kl. 15:49:

Úff, þetta síðast komment varaformannsins fær mig nú eiginlega til að hætta við að skoða myndirnar hjá Siggu Birnu! Nóga svitalykt af Ármanni er ég nú búinn að finna um ævina. En, nei, best að safna í sig kjarki...

Aftur í dagbók


1/8 2005

Óskoðaður fiskur og Lísa Eydal

Dagurinn fór afar rólega af stað. Þrjú verkefni lágu fyrir:

1. Fara í bát með gluggum í botninum og svipast um eftir mannætumakrílnum sem á sök á flestum ef ekki öllum þjáningum Jóa.

2. Sjá kanadíska "fringe" sýningu í ráðstefnuhöll mikilli, Grimaldi Forum.

3. Sjá innlent sjó í sömu höll og fara í framhaldinu á "Diner rouge et blanc", klædd í þá sömu liti, fánaliti Mónakó.

Verður hér rakið hvernig til tókst með þessi verkefni:

1. Þegar mætt var á kajann um hálftólf reyndist báturinn farinn, næsta ferð hálfþrjú. Þá var auðvitað ekki um annað að ræða en að drekka bjór til hálfþrjú. Sá bátur reyndist svo fullur þegar að var komið. Reyndar segir sagan að einn hafi komist í næsta bát á eftir, en það er bara vegna þess að hann skrópaði í

2. Quebequois leikhópur færði okkur Antígónu í útgáfu Jean Anuilh. Leitun er að verra leikhúsi. Einhver skýring fannst í þeirri athugasemd í (alfranskri) leikskránni að sýningin væri frumraun flestra leikaranna, en það er engin afsökun fyrir því að leikstjóri láti fólk buna út úr sér tugum ef ekki hundruðum blaðsíðna af texta, tvö og tvö í einu, án þess að færa sig úr stað og án þess að sýna mikið fleiri svipbrigði en "nú er ég leið vegna þess að bráðum dey ég" (má líka skilja sem "ég vildi að ég væri annarsstaðar en á þessu sviði") og "nú er ég reiður kóngur því að stelpugálan vill ekki hlýða mér". Sýningar hafa sumar verið mældar í "dottum" hér, en þessi fékk einkunnina "góður nætursvefn".

3. Allir mættu í sama Grimaldi Forum í sínu fínasta rauða og hvíta pússi. Hér kom höfðingleg gjöf Dressmann til Hugleiks í góðar þarfir: ósköpin öll af skjannahvítum buxum. Risið var úr sætum þegar Berti fursti gekk í salinn ásamt nokkrum ættingjum og vinum. Svo hófst sýning heimamanna, sérstaklega gerð fyrir þessa hátíð. Í stuttu máli: dott galore. Að mestu leyti átti þetta trúlega að vera fyndið, en það hlýtur þá að hafa verið afskaplega lókalt. Sumir hinna fjölmörgu leikara sýndu svosem ágætis takta, en ekkert okkar náði hinu minnsta sambandi við það sem þau voru að gera. Þegar hér var komið við sögu var þetta sumsé versti leikhúsdagur hátíðarinnar. Það stóð hins vegar til bóta...

Eftir hryllinginn var haldið í Monaco Sporting Club. Þetta er ekki þessi týpíski sportbar, heldur gler-, stál- og steypuhöll mikil, sem inniheldur spilavíti og skemmtistað sem tekur áreiðanlega þúsund manns í sæti. Hann fylltum við, og svo var mokað í okkur margréttaðri prýðismáltíð á óhófllegum hraða. Við undruðumst nokkuð hvað þjónunum lá á að koma ofan í okkur öllum þessum mat þar til við vorum að maula eftirréttinn: jarðarber, sorbet og fleira með þessu fína kampavíni. Þá var nefnilega skipt um dinnermúsík. Í stað litlu grúppunnar með söngstelpunum þremur sem hafði verið að gera sín stykki á sviðinu án mikillar athygli gesta birtust nú ískyggilegir menn með bumbuspýtur, rafurmagnsgígjur og leikmynd dauðans. Fór þar fremst í flokki maður hávaxinn, svarteygur, fölleitur, nokkuð við aldur og eflaust vel vaxinn niður. Hann kynnti sig ekki, en þess var lítil þörf. Öllum hlaut að vera ljóst að hér komin(n) Alice nokkur Cooper, sem lék undir borðhaldi við góðar undirtektir í rúma klukkustund. Formaður hafði á orði að illa væri komið fyrir Lísu úr því hún væri orðin Ingimar Eydal þeirra Mónakóbúa. Skemmst er frá því að segja að þetta var langbesta leikhús dagsins. Býsna eftirminnileg eru nokkur dramatísk atriði um heimilisofbeldi, þar sem Lísa misþyrmdi ítrekað stúlkukind nokkurri, sem í ljós kom í hljómsveitarkynningu í lokin að var dóttir hans.

Að lokum bara þetta:

School's out for summer.
Party time! Excellent!

Sigurður H. Pálsson

1/8 2005