Hamarinn í Mónakó
Frá ferð með „Undir hamarinn“ á leiklistarhátíð IATA í furstadæminu Mónakó.Um sýninguna: Undir hamrinum
Nýjasta efst 26/7 27/7 28/7 29/7 30/7 31/7 1/8 2/8 3/8 4/8 6/8 6/8 8/826/7 2005
Hana þá! nú byrjum við.Það er staðföst ætlun okkar Hugleiksmanna að hrista af okkur slyðruorðið sem slæleg frammistaða í dagbókarskrifum hefur smurt á okkur. Við byrjum núna!Það eru reyndar nokkrar klukkustundir þar til við leggjum í hann, en undirbúningur er hinsvegar á lokasprettinum. Æfingar voru teknar með trukki og lauk í gærkveldi með rennsli fyrir nokkra vini og ættingja. Það tókst ágætlega, og sérstaka ánægju vakti að við vorum komin vel niður fyrir 60 mínútna hámarkið sem ku vera framfylgt af miklu offorsi á þessari hátíð. (Þau okkar sem hafa setið undir 2,5 klst löngum dönskum sýningum varpa öndinni léttar)Að loknu rennsli var leikmyndinni pakkað inn svarta akrýldúkinn sem enn er til ómælt magn af síðan Anna Stína og Unnur skrifuðu Ég bera menn sá og létu koma eldgos. Og svo er að pakka fyrir sjálfan sig. Það verður auðvelt því eftir verðurfregnum að dæma verður ekki hægt að vera í fötum nema að litlu leyti. Hátíðarprógrammið hefur líka verið grandskoðað. Að því best verður séð er mússíkleikhús áberandi á dagskránni. Söngleikir frá Tacoma -USA, Cardiff og Svíþjóð og örugglega víðar að. Þá verður spennandi að sjá loksins kínverska óperu. Það er enginn annar en "Hugleiksvinurinn" dr. Chua Soo Pong (framburður að smekk hvers og eins) sem mun mæta með óperústúdíóið sitt frá Singapúr og verða það eflaust fagnaðarfundir, en eins og margir vita þá varð okkur vel til vina í fyrstu utanferð Hugleiks í Harstad 1998, svo vel reyndar að lengi var unnið að því að koma á samstarfi, fá doktorinn til að gera kínaóperuversjón af Skuggasveini. Árni Hjartarson var drifkrafturinn í þessum áformum og reyndar ekki vitað til að hann sé formlega fallin frá áætluninni.Svo er auðvitað mestur spenningurinn að sjá "exótísku" löndin: Kamerún og Benín, Níkaragúa og Japan svo nokkuð sé nefnt. Svo eru þau kannski bara að rembast við að vera vestræn - jafnvel norsk. Hvað veit maður. En þetta kemur nú allt í ljós. Fyrst er að koma sér á staðinn. Meira um það á mórgun - vonandi.27/7 2005
Jæja þá, komin á staðinn...eftir laaaaangan dag... og allir með þó ekki hefði það litið vel út til að byrja með.... ég ætlaði sko aldeilis að vera á réttum tíma núna eftir að hafa látið bíða vel eftir mér í fyrra... semsagt mætt hjá leikstjóranum á mínútunni... og á góðum tíma á BSÍ en.... ææ passinn heima.... ég þakka lögreglunni fyrir að hafa ekki verið á ferli á leiðinni Breiðholt BSÍ í nótt... ;) nú við komumst semsé í Leifsstöð en þá.... eeeee Hjalti ruglaðist víst eitthvað aðeins á dögum og átti víst bókað daginn eftir til London..... hmmm í stuttu máli sagt þá komumst við ÖLL til London þótt dýrara hafi verið fyrir suma....Nú á Stansted þurftum við að bíða í 6 klukkutíma... en það var svo sem lítið mál þar sem þeir selja ágætis öl á vellinum..... tímarnir liðu barasta allt of hratt og nema hvað, á síðustu stundu uppgötvaðist að við vorum á íslenskum tíma... og flugvélin að fara eftir örtíma.... við rétt náðum vélinni.... ekki eins og við hefðum verið að bíða í flugstöðinni....hmmm..... Dásamleg hitamolla og pálmatré tóku á móti okkur í flugstöðinni... leikstjóranum til mikillar gleði... svo var keyrt til Mónakó þar sem tekið var á móti okkur með flugeldum og víni.... ;) Við náttlega alveg með það á hreinu að flugeldarnir væru bara fyrir okkur..... en það var víst einhver heimsmeistarkeppni í flugeldauppskoti.... en dagurinn var örugglega valinn fyrir okkur.... Nú við vorum rifin út úr rútunni í móttöku og myndatöku.... mjög mygluð myndataka og ég held að sumir hafi verið mjög svekktir að hafa ekki náð að púðra á sér nefið.... ég meina maður veit sko aldrei hvenær maður rekst á Albert... Mónakó var æðisleg í myrkrinu og nú er bara að bíða og sjá hvaða ævintýri bíða okkar......28/7 2005
Jæja fjelagar. Þá er liðinn 1. heili dagurinn í þessum brekkubæ suðursins, Monaco.Þegar vaghnaði jeg um morguninn og enginn kom inn til mín........þá var skroppið í labbitúr um hæðirnar og helstu kennileiti könnuð, sem og ógrinni bjórglasabotna. Höllin og smábátahöfnin reyndust stærri en við þekkjum í Reykjavíkinni, og jeg komst að því að spilavítin eru aðeins fyrir úlfalda, en ekki sauðsvartan mývarginn eins og okkur.
Þegar á leið daginn og menn orðnir lúnir af hita, svita, raka og Mónacóískri velmegun, var farið að huga að menningunni, sem samanstóð af sýningum frá Slóveníu, Ítalíu og.... í staðinn fyrir sótsvartann húmor frá Kamerún, fengum við gleðileik frá heimamönnum.
Í sem stystu máli sagt byrjaði hátíðin herfilega, (en engu að síður góðum svefni) og endaði í magakrampa vegna gleðiláta og sprells. Vissi jeg ekki að leyndir afkomendur Reiners fursta gætu verið svona skemtilegir. Hús Bernhörðu Alba í flutning slóðanna frá Slóveníu reyndist vera hið besta svefnmeðal, en jeg var samt engu að síður dreginn afsíðis og spurður spjörunum úr um sýninguna, og meðan jeg nuddaði stýrurnar úr augunum, laug jeg að spyrlinum og tökuliði hans í svefnrofanum, allslags þvælu um gvuð má vita hvað.
Næsta sýning var öllu skárri og kom hún úr smiðju Ítalska leikhópsins frá Veróna. Ætla jeg ekki að hafa nafnið eftir hjer, en það er mynnst á þjón og patrónu held jeg. Var þar í gangi ærslafullur grímuleikur af bestu gerð og skemti jeg mjer hið besta, enda úthvíldur eftir hvíldina hjá Ölbu.
Að lokum áttu Kamerúnar að stíga á stokk, en hvort þeir hafi orðið fyrir ljónum veit jeg ekki, en allaveganna komu þeir ekki. Í staðinn hlupu í skarðið Studio de Monaco og skelltu upp glæsilegri sýningu í anda "Allir á svið" og gersamlega ærðu salinn með gamanleik sínum. Þeir fá fullt hús stiga hjá mjer og gæti jeg þusað lengi um sýninguna, en það eru allir að sofna hjerna í kring um mig, þannig að jeg kveð á orðunum; Sjaldan hafa jafn fáir leikið jafn illa, jafn vel á jafnskömmum tíma.
Lifið heil.
29/7 2005
Stóri dagurinn hófst með áfallalausu rennsli áður en haldið var í leikhúsið, þar sem við fengum heila tvo og hálfan tíma til að gera allt klárt. Stressið var næstum yfirþyrmandi. Kári skipaði mönnum bak og fyrir og Ágústa fór alveg á handahlaupum. Sýningin sjálf gekk glimrandi vel eins og við var að búast. Einn flekinn (sá stærsti) var næstum dottinn fram sökum þess að einhver rak sig í hann í innkomu en Ármann sýndi snarræði og greip í hann og forðaði þar með katastrófu. Ég sat úti í sal og tók ekki eftir neinu. Salurinn var fullur, allir a.m.k. brosandi og litlu japönsku stelpurnar fyrir framan okkur tístu í hvert sinn sem Sigga Birna "gekk" á svið. Að sjálfsögðu fengum við gífurlegt klapp í lokin og voru sumir svo hrifnir að þeir ætla að mæta aftur á morgun. Þýska sýningin var næst, Ódysseifskviða. Mjög kóreógrafískt flott sýning og mikil læti í ákaft börðum tunnum. Strákarnir voru geipilega flott vaxnir og var unun að horfa á það. Danska sýningin var Dario Fo. Þeir sem vita hvernig hugmyndir danir hafa um leikhús vita hvernig sýningin hefur verið og vil ég hafa minnst orð um hana. Kvöldinu lauk með skemmtun í hátíðarklúbbnum þar sem sex bleikar dansandi pabbapulsur sungu slóvensk vögguljóð eða eitthvað álíka hugljúft. Frekar súrrealískt. Bestu kveðjur frá Mónakó30/7 2005
Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör, þetta var ekki tilfellið á gagnrýni, eða öllu heldur umræðufundi daxins. Hópurinn sat þar undir mjög jákvæðum orðum umræðustjóranna og svaraði þeim spurningum af bestu samvisku og komumst að því að fólk skildi okkur almennt vel.Ég fór svo ásamt herra Pálssyni á Stanislavsky workshop undir leiðsögn Michail Choumachenko sem er víst einhver yðar, eða háttvirti eða eitthvað í þeim dúr í Rússeníu.Jói og strandferðin.á sama tíma annarstaðar í Mónakó
Jói litli hafði farið ásamt V., Siggu Birnu, Jóni Erni og jafnvel einhverjum fleiri niður á strönd til að baða sig í sólinni og komast í réttann lit fyrir Rauða og hvíta dinnerinn sem átti að eiga sér stað nokkrum dögum síðar. Hann hafði orðið viðskila við hópinn og stóð úti í sjó til að virða fyrir sér fiskana sem syntu þar við ströndina. Allt í einu kom þar að bandbrjálaður mannætumakríll sem réðst að Jóa með kjafti, uggum, tálknum og klóm og beit hann í fótinn. Jói litli æpti upp yfir sig og hljóp í land. Hljóp þá til Nonni sviðskall og óð út í sjóinn, réðst að makrílnum með kjafti og klóm og síðan hefur ekkert til hans spurst.
Við hittumst í Theatre de princesse Grace klukkan 7 og fórum að gera okkur klár fyrir seinni sýninguna. Viðar nokkur Eggertsson var þar baksviðs að taka viðtöl við fólkið fyrir einn af sjöhundruð þúsund útvarpsþáttum sínum á Rúv og má því búast við að hróður félagsins muni aukast enn meir... sem er næs. Við fórum á svið og er skemmst frá því að segja að salurinn elskaði okkur bara og ég held að fagnaðarlætin hafi mælst á Richter.
Eftir sýninguna tókum við netta kóræfingu, skáluðum í böbblí og héldum svo á festivalklúbbinn. Þar tóku Danir á móti okkur (sem og öllum öðrum) með rúgbrauði, síld (hefnd fyrir jóa), Ákavíti og skopsöngvum. eftir það ágætis buffet steig Hugleikur á svið og presenteraði kórinn sinn, sem naut mikilla vinsælda.
Eftir það átti að koma skemmtiatriði frá Germönum, en hópurinn þeirra hafði sundrast og að hluta til haldið heim að sofa. Það varð ekki að mikilli sök þar eð tveir snaaaaaar Brjálaðir Jembee leikarar voru eftir og var þá bara tekið jungle þema og dansað frá sér allt vit. Undirritaður gat að sjáfsögðu ekki setið á sér, greip flautuna og spilaði með.
Varð úr þessu hin allra besta skemmtun og mun þetta kvöld lifa lengi í mínu minni.Virðingarfyllst.
31/7 2005
Ég bið forláts en færsla daxins verdur lítil og ómerkileg.En ég hef mér þad til vorkunnar ad ég er:Sólbrunnin,skelþunnur og síðast en ekki síst fiskbitinn.Setning daxins: Það er ekkert vont að ríða rollu...
1/8 2005
Óskoðaður fiskur og Lísa EydalDagurinn fór afar rólega af stað. Þrjú verkefni lágu fyrir:1. Fara í bát með gluggum í botninum og svipast um eftir mannætumakrílnum sem á sök á flestum ef ekki öllum þjáningum Jóa.2. Sjá kanadíska "fringe" sýningu í ráðstefnuhöll mikilli, Grimaldi Forum.3. Sjá innlent sjó í sömu höll og fara í framhaldinu á "Diner rouge et blanc", klædd í þá sömu liti, fánaliti Mónakó.Verður hér rakið hvernig til tókst með þessi verkefni:1. Þegar mætt var á kajann um hálftólf reyndist báturinn farinn, næsta ferð hálfþrjú. Þá var auðvitað ekki um annað að ræða en að drekka bjór til hálfþrjú. Sá bátur reyndist svo fullur þegar að var komið. Reyndar segir sagan að einn hafi komist í næsta bát á eftir, en það er bara vegna þess að hann skrópaði í2. Quebequois leikhópur færði okkur Antígónu í útgáfu Jean Anuilh. Leitun er að verra leikhúsi. Einhver skýring fannst í þeirri athugasemd í (alfranskri) leikskránni að sýningin væri frumraun flestra leikaranna, en það er engin afsökun fyrir því að leikstjóri láti fólk buna út úr sér tugum ef ekki hundruðum blaðsíðna af texta, tvö og tvö í einu, án þess að færa sig úr stað og án þess að sýna mikið fleiri svipbrigði en "nú er ég leið vegna þess að bráðum dey ég" (má líka skilja sem "ég vildi að ég væri annarsstaðar en á þessu sviði") og "nú er ég reiður kóngur því að stelpugálan vill ekki hlýða mér". Sýningar hafa sumar verið mældar í "dottum" hér, en þessi fékk einkunnina "góður nætursvefn".3. Allir mættu í sama Grimaldi Forum í sínu fínasta rauða og hvíta pússi. Hér kom höfðingleg gjöf Dressmann til Hugleiks í góðar þarfir: ósköpin öll af skjannahvítum buxum. Risið var úr sætum þegar Berti fursti gekk í salinn ásamt nokkrum ættingjum og vinum. Svo hófst sýning heimamanna, sérstaklega gerð fyrir þessa hátíð. Í stuttu máli: dott galore. Að mestu leyti átti þetta trúlega að vera fyndið, en það hlýtur þá að hafa verið afskaplega lókalt. Sumir hinna fjölmörgu leikara sýndu svosem ágætis takta, en ekkert okkar náði hinu minnsta sambandi við það sem þau voru að gera. Þegar hér var komið við sögu var þetta sumsé versti leikhúsdagur hátíðarinnar. Það stóð hins vegar til bóta...Eftir hryllinginn var haldið í Monaco Sporting Club. Þetta er ekki þessi týpíski sportbar, heldur gler-, stál- og steypuhöll mikil, sem inniheldur spilavíti og skemmtistað sem tekur áreiðanlega þúsund manns í sæti. Hann fylltum við, og svo var mokað í okkur margréttaðri prýðismáltíð á óhófllegum hraða. Við undruðumst nokkuð hvað þjónunum lá á að koma ofan í okkur öllum þessum mat þar til við vorum að maula eftirréttinn: jarðarber, sorbet og fleira með þessu fína kampavíni. Þá var nefnilega skipt um dinnermúsík. Í stað litlu grúppunnar með söngstelpunum þremur sem hafði verið að gera sín stykki á sviðinu án mikillar athygli gesta birtust nú ískyggilegir menn með bumbuspýtur, rafurmagnsgígjur og leikmynd dauðans. Fór þar fremst í flokki maður hávaxinn, svarteygur, fölleitur, nokkuð við aldur og eflaust vel vaxinn niður. Hann kynnti sig ekki, en þess var lítil þörf. Öllum hlaut að vera ljóst að hér komin(n) Alice nokkur Cooper, sem lék undir borðhaldi við góðar undirtektir í rúma klukkustund. Formaður hafði á orði að illa væri komið fyrir Lísu úr því hún væri orðin Ingimar Eydal þeirra Mónakóbúa. Skemmst er frá því að segja að þetta var langbesta leikhús dagsins. Býsna eftirminnileg eru nokkur dramatísk atriði um heimilisofbeldi, þar sem Lísa misþyrmdi ítrekað stúlkukind nokkurri, sem í ljós kom í hljómsveitarkynningu í lokin að var dóttir hans.Að lokum bara þetta:School's out for summer.Party time! Excellent!
2/8 2005
Alltaf er ég jafn heppin. Valdi greinilega kolrangan dag til að sofa út - eða réttara sagt reyna að sofa út. Rétt fyrir hálf átta kvaddi Sigga Birna sem verið hefur herbergisfélaginn minn síðustu daga þar sem hún var ásamt Jóa og Jóni Erni að snúa aftur heim á klakann (Mér skilst að þau hafi hitt Halla, Ylfu og Tótu á Stansted og verið samferða þeim heim í vélinni - skemmtileg tilviljun það). Hugsaði ég mér nú gott til glóðarinnar og ætlaði að dotta aftur, en fékk ekki mikinn frið því tæpum klukkutíma eftir brottför þeirra þreminga hringdi Jón Örn til þess að fá bókúnarnúmerið sitt í flugið, sem hafði endað í mínum fórum eftir útleið okkar í gegnum Stansted. Þegar það var afgreitt hugðist ég aftur leggja mig, en ekki entist það lengi því þá voru mættir þeir Hjalti og Siggi til þess annars vegar að flytja inn í herbergið (í stað Siggu Birnu) og hins vegar að geyma farangur sinn. Þegar ég var komið sögu ákvað ég að hætta að reyna að sofa lengur og fara frekar út í góða veðrið - sem virðist alltaf vera jafn gott hér í borgríkinu :o)Í fylgd með Huldu og Togga lá leiðin upp að kastalanum þar sem við fengum okkur göngutúr um gamla bæjarhluta Mónakó og horfðum yfir báðar hafnirnar. Sýningar dagsins voru sýndar í Leikhúsi prinessu Grace og voru þær frá Belgíu, Mexíkó og Suður-Afríku. Vona ég að botninum hafi verið náð í dag og að héðan liggi leiðin aðeins upp hvað varðar gæði og skemmtilegheit leiksýninganna varðar. Það var í sjálfu sér ekkert að fyrstu sýningunni, sem var að mér skilst samsett verk upp úr nokkrum försum Feydeaus. Verkið höfðaði greinilega nokkuð til þeirra frönskumælandi áhorfenda sem voru í salnum en ég skildi hvorki upp né niður í verkinu. Og því miður var uppfærslan ekki nógu spennandi til þess að halda athygli minni og á mælikvarða Hjalta skoraði sýningin því allmörg dott hjá mér. Ég hafði hlakkað mikið til að sjá uppfærslu Mexíkóbúa á Rómeó og Júliu þar sem heyrst hafði að hún væri afar flott og kraftmmikil. Vissulega voru búningar litríkir og dansatriðin býsna kraftmikil, en alls ekki nógu vel samhæfð til að ná áhrifamætti sínunm. Konsept sýningarinnar var fullkomlega óskiljanlegt, því þrír rosknir karlmenn léku Rómeó samtímis og sjö konur léku Júlíu. Fyrir vikið vantaði allan fókus í samskiptum parsins og fengu áhorfendur aldrei að sjá þegar Rómeó og Júlía hittust í fyrsta skiptið og verða ástfangin. Sýningin einkenndist af fullkomnu samskiptaleysi bæði leikaranna á milli sem og milli leikara og áhorfenda. Mikil vonbrigði :o( Verð þó að nefna tvo ljósa punkta. Framvindan sem leiðir til dauða Mercutio var útfærð sem körfuboltaleikur þar sem hluti andstæðinganna dóu þegar skorað var í körfuna. Hitt atriðið var dans Rómeós með það sem hann telur lík Júlíu áður en hann sviptir sig lífi, sem minnti auðvitað á sama atriði í útfærslu Vesturports á harmleiknum. Kvöldinu lauk síðan á uppfærslu Suður-Afríkubúa á hinnu afleita leikriti The right to choose. Framhald síðar .......Biðst forláts á að hafa ekki klárað færslu dagsins fyrrr, en því er um að kenna annars vegar tímaskortur og hins vegar tölvuleysi.
3/8 2005
Jæja - þá er madame professor Ágústa Skúladóttir búin að halda fyrsta námskeiðið. Gekk vel, fólk af öllum stærðum, gerðum og þjóðernum og hún talaði tungum af öllum toga. Það er endanlega opinbert - ÁS er heimsfræg!Aðrir gerðu eitt og annað - hvíldu sig eftir tequilatrylling frá kvöldinu áður (mexikóar kunna sko að halda partí!) skoðuðu sig um hér og þar og tsjilluðu. Gamli bærinn er sætur, bjórinn er ágætur og sólin er á sínum stað. Ármann keypti sér sjóræningjabyssur - ætlar sennilega að setja upp leikritið Úlfljótur from the Mediteranian.Tvær leiksýningar í dag því Benín-búar beiluðu. Það ætlar að ganga illa að sjá leiksýningu frá Afríku. Tel ekki með ósköpin frá suðurhluta þeirrar álfu, telst varla leikhús. En jæja - Svíar riðu á vaðið með sýningu sem ég hef reyndar séð áður í Vasteras þangað sem ég svindlaði mér á hátíð með LK árið 2002. Hér var á ferðinni Södra Ölands Musikteater - stór hópur ungmenna frá þessum annars undir 2000 manna bæ. Sýningin spratt upp úr svenska prodjektet Young Drama f. nokkrum árum - sem sagt leikhús um/fyrir/af ungu fólki - þau fengu (hinn annars ágæta skáldsagnarhöfund) Mikael Niemi til að aðstoða sig við handritagerð en svo mun hópurinn allur sem einn hafa unnið saman að gerð sýningarinnar, m.a. tónlistar. Leikritið - En Ö i Valhall - fjallar um vandamál ungs fólks, yfirvofandi heimsendi, heimsóknir frá gömlu guðunum og ástina sem sigrar allt! Segjum ekki meira um leikritið sjálft en sýningin var bara skrambi sæt og góð. Kraftur, geta og einlægni.Síðari sýningin var Malka frá Slóvakíu í flutningi Divadla Comedia Poprad. Verkið er eftir sögu Frantisek Svantner - eða eins og segir í prógrammi - free dramatisation of the long-short story. Þetta mun vera besta Slóvakíska (slóvaska, slóvakíenska ...) sýningin í þvi landi síðustu 4 árin, hefur farið víða um heiminn og við sáum hvorki meira né minna en 58 sýningu hópsins á verkinu. Og ansi var hún góð. Harmleikur um ástina, afbrýðissemi, ofbeldi, misskilning og illan endi. Tónlistin frumsamin og frábær, kontrabassaleikari á sviðinu, leikmyndin smart og vel notuð og hópurinn hvíldi svo vel í því sem var gert. Að sögn leikstjórans vilja þau leggja áherslu á list leikarans og það skilar sér.Í klúbbnum skemmtu Svíar með söng, hrökkbrauði og kavíar. Svo var dansað og dansað og ... inn i nóttina.4/8 2005
Eh bien - þá er farið að síga á seinni hluta hátíðarinnar hvar sumar sýningar hafa komið, sést en ekki sigrað. Við Toggi og Silja ákváðum að taka daginn snemma og örkuðum á umræðufund kl. 10 þar sem verið var að fjalla um sýningar kvöldsins (altsvo þær 3 sem voru frumsýndar í gær og endursýndar í dag). Við gátum ekki betur heyrt en að allir væru ánægðir með allt svo við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. Eftir fundinn var nauðsynlegt að slökkva þorstann í klúbbnum og áttum þar langt og afar athyglisvert samtal við Danina John Ytteborg og Thomas Hauger um leikhús, leiklistargagnrýni, hátíðina, fyrirkomulag o.fl. o.fl. John var sammála mér í því að þetta spjall okkar væri einn af hápunktum hátíðarinnar - og var þá meint sem fast skot á standardinn á umræðufundunum um leiksýningarnar.Alla vegana, ég er ekki ein af þeim sem dásama veðrið hér, þoli ekki svona hita ( og reyndar heldur ekki kulda - er semsagt afar fíntfölende) og þar sem ekkert sérstakt lá fyrir seinni partinn röltum við Silja inn undir parasól hjá íssala og gúffuðum í okkur slatta af kælandi ís meðan Toggi fór með Ármanni að kaupa sér miða á leik Mónakó og Auxerre á laugardaginn. Ég á reyndar erfitt með að skilja hvernig heill fótboltavöllur rúmast hér í þessu litla 33 þúsund manna borgríki sem virðist ríghalda sér utan í klettum og hæðum til að hreinlega detta ekki í sjóinn.
Nú, en eftir síestu og snurfus var stefnan svo tekin á Grace-leikhúsið hvar ljósin komu upp kl. 18 á fyrstu af 3 sýningum kvöldsins og leikhópur frá Túnis flutti okkur draugaleikinn ARWAH (Spirit) sem reyndist vera dáindis skemmtilegur og hæfilega trúðaður fyrir minn og margra annara smekk, þó var eins og sýningin lenti í ófæru þegar á leið og fór að spóla svolítið í sjálfri sér svo að endaspretturinn varð endasleppur. En líflegur draugagangur engu að síður.
Næst komu Írarnir sér fyrir á sviðinu og þar voru á ferð Ennis Players frá Dublin-svæðinu með forynjuleikinn The Dandy Dolls eftir írann George Fitzmaurice. Höfundur þessi lést 1963 og var aldrei viðurkenndur í lifanda lífi meðal annars vegna þess að hann neitaði að göfga fátækt því honum sýndist að fátækt og örbirgð drægi oftar en ekki fram það versta í fari manneskjunnar. Mögulega var hann heldur ekki eins brilljant höfundur og sumir vilja meina í dag. Nema hvað, á sviðinu birtist heimur skorts og þjáningar umvafinn fordæðum og forynjum ýmis konar. Sýningin náði til mín, feiknavel leikin, rétt og flott útlit og ég hefði verið til í að fylgjast áfram með þessu fólki þegar ljósin fóru út.
3ja og síðasta sýning kvöldsins var svo framlag Rússa sem að þessu sinni kom frá Surgut, 350 þús. manna borg í Vestur-Síberíu þar sem vetrarhörkur ráða ríkjum 9 mánuði ársins og kannski ekki skrýtið að sumir velji að æfa dans og leiklist daglega í 3 tíma, þó ekki væri til annars en að halda á sér hita. Hér var sumsé á ferðinni dansleikhús af betri gerðinni og færði okkur: BEZLEPITSA (Insensibility). Ég heyrði sagt eftir leikstjóra sýningarinnar að það síðasta sem hún segði við dansarana/ leikarana áður en sýning hæfist væri: Ekki dansa, leikið! Og það fannst; falleg sýning, full af gleði, húmor, yndisleik og þokka, svo ekki sé minnst á tónlistina sem var mikil og flott. Sumir harðjaxlar Hugleiks felldu tár.
Loksins 3 sýningar sem stóðu undir væntingum mínum um hvað svona hátíð á að snúast um.
Það bar að ððru leiti til tíðinda í dag að við Toggi borðuðum ostrur í fyrsta og síðasta skipti. Ekki það að okkur finnist þær vondar, heldur bara algerlega ástæðulaus matur.
Voilá, yfir til þín Ármann!
6/8 2005
Skroppið til útlandaNokkrir ferðaglaðir meðlimir hópsins (Toggi, Hulda, Silja, V.Kári, Hjalti, Dilla og undirritaður) ákváðu að nýta sér nálægð Ítalíu til heimsækja hana sem snöggvast einn part úr degi. Afgangurinn varð eftir í Mónakó og er úr sögunni, allavega í bili. Hoppað var upp í þar til gerða lest, sem troðfull var af fólki í svipuðum erindagjörðum, og svo brunað í kannski svona 20 mínútur uns við vorum stödd í þorpinu Ventimiglia sem undir eins var um umskýrð að íslenskum sið Mygluborg. Ekki var það þó vegna þess að bær þessi væri neitt sérlega grænn eða loðinn. Þarna fer hins vegar fram heljarinnar markaður á hvurjum föstudegi og var ætlunin að kíkja á hann. Þarna var mikið prang, meðfram götum voru endalausir básar sem urðu fljótlega afar keimlíkir og auk þess lítt spennandi. Mikil mannþröng var og ekki auðvelt að komast áfram og komust spakir menn í hópnum að þeirri niðurstöðu að helvíti væri í raun útimarkaður á Ítalíu. Ekki stöðvaði það samt fólk í að versla en á meðal þess helsta sem keypt var voru tvær „unofficial“ treyjur Mónakó-liðsins og af afar metrósexjúal ástæðum keypti Hjalti 2 sambærilegar treyjur Palermo-liðsins.Hjalti hélt líka upp heiðri landans í hrakförum og tókst að láta óvandaða aðila nappa veskinu sínu úr tösku sem hann bar. Sem betur fer var hann með lítinn pening, ekkert inn á debetreikningnum og nýútrunnið ökuskírteini þannig að skaðinn var fyrst og fremst tilfinningalegur. Svo var kíkt niður í fjöru og formaðurinn keypti sér sundbuxur til að geta buslað. Komst svo að því þegar hann settist í lestinni á heimleið að hann var með lúkufylli af grjóti í buxunum. Ekki spyrja mig hvernig.Þegar heim til Mónakó kom var fyrirliggjandi að sjá leiksýningar frá Kúbu, Wales og Frakklandi. Sú kúbanska var rifrildi tveggja kvenna og þjónustustúlkna þeirra um hvort maður gleymdi alltaf einhverju (sem maður augljóslega gerir) eða ekki. Verkið endaði á að inn kom karlmaður í handklæði einu saman sem hann svo missti niðrum sig sem snöggvast við mikla kátínu þeirra sem gaman hafa af slíku. Ágætlega ofleikin sýning en fékk dáltið mörg dott og jafnvel svefn hjá sumum. Waleska sýningin var unglingasöngleikur og vorum við Vilborg og Dilla sammála um fyrir sýninguna að svoleiðis ætti bara ekkert erindi á svona hátíðir. En þessi kom svo sannarlega á óvart því þessir krakkar voru þrusu leik- og söngvarar. Verst hvað leikritið var ónýtt. Franska leikritið fjallaði um... hef ekki hugmynd en það var mikið saumað. Undirrituðum varð að orði eftir hana „Þarna fór klukkutími sem ég hefði frekar viljað nota til að telja í mér rifbeinin“.Hópurinn fjölmennti svo á veitingastaðinn Monkeys og fengum sérlega góðan mat. Sumir fóru svo í klúbbinn, aðrir ekki.6/8 2005
þá er runninn upp lokadagurinn hér í þessu borgríki. Hef ég komist að því af minni alkunnu visku að þetta er Moría. Hér grafa menn sig inn í fjöllin hægri og vinstri og allt snýst um gull og gimsteina. En alveg rétt þetta er lokadagurinn og nú þurfti að klára allt sem var eftir. Fyrst var að skoða exótíska garðinn. Næst var það sædýrasafnið og svo þurfti að versla súkklaði og troðna gæsalifur, fann það dekksta súkklaði sem ég hef séð 99% cacao. Eftir söfn og verslanir var kominn tími til að sjá síðustu sýningar hátíðarinnar. Var nú líka tækifæri til að kveðja hið gullfallega leikhús prinsessunnar.Fyrst var Nicaraqua, er skemmst frá því að segja að þessi skipar sér í flokk með þeim verstu. Máttu þau reyndar eiga það að það var einfalt að skilja söguna. En það var það eina, þetta er víst einhverskonar kensluleikhópur sem notar leikhúsið til kennslu. þarna var viðvaningsbragur á öllu. Verður sýningunni líklega best líst með því að onelinerinn sem kom eftir hana er tæplega prenthæfur og fer því ekki hér á þennan opinbera miðil. Hún var allavegana svo léleg að það var ekki hægt að sofa á henni.Sviss var næst með hús Bernhörðu Alba, er hægt að hugsa sér verri samsetningu. Eg verð reyndar að viðurkenna að ég er ekkert kunnugur þessari sögu en fróðir menn segja mér að mamman eigi að vera eldri en dæturna og þær eigi ekki að vera ánægðar með að fá að hvíla sig frá amstri hversdagleikans í svona fimm ár heima hjá mömmu. Kanski er Hótel mamma bara svona gott í sviss. Allavega var þetta einsog ostra, alveg tilgangslaust.Singapúr frá hinum fræga Sjúga Púng. Mjög áhugavert að sjá kínverska óperu og var gaman að sjá hvaða möguleika þetta form bíður uppá þó ekki hafi þeir verið þarna, enda krefst formið þess greinilega að allt sé gert of vel til að verða spennandi. Jújú allt í lagi og líklega best sýning kvöldsins i Princess Grace. Formaður vor og Ármann Slepptu tveimur síðustu sýningum kvoldsins og fóru þess í stað á fótboltaleik þar sem áttust við Mónaco og man ekki hitt. Var það víst ágætis skemmtun, þar sem dómaraskandall og tvö mörk litu dagsins ljós. Því miður vann hitt liðið.Kvöldinu lauk svo með dinner í enn einum neðanjarðarsalnum. Var þar veittur ágætis matur og dansmúsík spiluð. Enginn var leynigesturinn en ágætt samt. Héldu nú sumir á hótelið til að geta vaknað fyrir heimferðina en aðrir héldu skemmtuninn áfram í klúbbi hátíðarinnar. Dagur að morgni kominn og tími til heimferðar.