Sagnasafn Hugleiks

Athugasemdir við færslu 2/8 2005

Gummi, 3/8 2005 kl. 15:46:

Þessi lýsing á R&J lítur ansi fyndin út á pappír (skjá), en skal alveg taka þín orð fyrir því að þetta hafi verið fíaskó. Annars kalla ég það nú ekki amaleg skipti að fá tvo föngulega piltunga í stað Siggu Birnu (með fullri virðingu fyrir hennar föngulegheitum).

Sjitt maður, ég varð á undan varaformanninum...

Siggalára, 4/8 2005 kl. 09:18:

Úff. Ég er nú bara svoooo fegin að sjá að menn ætla ekki að láta deigan síga. Sjúkk maður.

Aftur í dagbók


2/8 2005

Alltaf er ég jafn heppin. Valdi greinilega kolrangan dag til að sofa út - eða réttara sagt reyna að sofa út. Rétt fyrir hálf átta kvaddi Sigga Birna sem verið hefur herbergisfélaginn minn síðustu daga þar sem hún var ásamt Jóa og Jóni Erni að snúa aftur heim á klakann (Mér skilst að þau hafi hitt Halla, Ylfu og Tótu á Stansted og verið samferða þeim heim í vélinni - skemmtileg tilviljun það). Hugsaði ég mér nú gott til glóðarinnar og ætlaði að dotta aftur, en fékk ekki mikinn frið því tæpum klukkutíma eftir brottför þeirra þreminga hringdi Jón Örn til þess að fá bókúnarnúmerið sitt í flugið, sem hafði endað í mínum fórum eftir útleið okkar í gegnum Stansted. Þegar það var afgreitt hugðist ég aftur leggja mig, en ekki entist það lengi því þá voru mættir þeir Hjalti og Siggi til þess annars vegar að flytja inn í herbergið (í stað Siggu Birnu) og hins vegar að geyma farangur sinn. Þegar ég var komið sögu ákvað ég að hætta að reyna að sofa lengur og fara frekar út í góða veðrið - sem virðist alltaf vera jafn gott hér í borgríkinu :o)

Í fylgd með Huldu og Togga lá leiðin upp að kastalanum þar sem við fengum okkur göngutúr um gamla bæjarhluta Mónakó og horfðum yfir báðar hafnirnar.

Sýningar dagsins voru sýndar í Leikhúsi prinessu Grace og voru þær frá Belgíu, Mexíkó og Suður-Afríku. Vona ég að botninum hafi verið náð í dag og að héðan liggi leiðin aðeins upp hvað varðar gæði og skemmtilegheit leiksýninganna varðar. Það var í sjálfu sér ekkert að fyrstu sýningunni, sem var að mér skilst samsett verk upp úr nokkrum försum Feydeaus. Verkið höfðaði greinilega nokkuð til þeirra frönskumælandi áhorfenda sem voru í salnum en ég skildi hvorki upp né niður í verkinu. Og því miður var uppfærslan ekki nógu spennandi til þess að halda athygli minni og á mælikvarða Hjalta skoraði sýningin því allmörg dott hjá mér.

Ég hafði hlakkað mikið til að sjá uppfærslu Mexíkóbúa á Rómeó og Júliu þar sem heyrst hafði að hún væri afar flott og kraftmmikil. Vissulega voru búningar litríkir og dansatriðin býsna kraftmikil, en alls ekki nógu vel samhæfð til að ná áhrifamætti sínunm. Konsept sýningarinnar var fullkomlega óskiljanlegt, því þrír rosknir karlmenn léku Rómeó samtímis og sjö konur léku Júlíu. Fyrir vikið vantaði allan fókus í samskiptum parsins og fengu áhorfendur aldrei að sjá þegar Rómeó og Júlía hittust í fyrsta skiptið og verða ástfangin. Sýningin einkenndist af fullkomnu samskiptaleysi bæði leikaranna á milli sem og milli leikara og áhorfenda. Mikil vonbrigði :o( Verð þó að nefna tvo ljósa punkta. Framvindan sem leiðir til dauða Mercutio var útfærð sem körfuboltaleikur þar sem hluti andstæðinganna dóu þegar skorað var í körfuna. Hitt atriðið var dans Rómeós með það sem hann telur lík Júlíu áður en hann sviptir sig lífi, sem minnti auðvitað á sama atriði í útfærslu Vesturports á harmleiknum.

Kvöldinu lauk síðan á uppfærslu Suður-Afríkubúa á hinnu afleita leikriti The right to choose.

Framhald síðar .......

Biðst forláts á að hafa ekki klárað færslu dagsins fyrrr, en því er um að kenna annars vegar tímaskortur og hins vegar tölvuleysi.

Silja Björk Huldudóttir

2/8 2005