Athugasemdir við færslu 4/8 2005
Siggalára, 6/8 2005 kl. 11:16:
Ármann næstur? Æi, krapp. Kemur þá nokkuð meira hér í bili? ;-) Jæjajæja. Læt ykkur þá bara segja mér afganginn í næstu viku.
Ármann, 6/8 2005 kl. 12:47:
Þér væri nær Sigríður Lára að linka þessa dagbók á leiklistarvefinn en að vera með svona særandi athugasemdir.
Júlía, 8/8 2005 kl. 09:17:
Sigga Lára mín.
Fáðu þér ostrur!! Með Ármanni þegar hann kemur heim.
4/8 2005
Eh bien - þá er farið að síga á seinni hluta hátíðarinnar hvar sumar sýningar hafa komið, sést en ekki sigrað. Við Toggi og Silja ákváðum að taka daginn snemma og örkuðum á umræðufund kl. 10 þar sem verið var að fjalla um sýningar kvöldsins (altsvo þær 3 sem voru frumsýndar í gær og endursýndar í dag). Við gátum ekki betur heyrt en að allir væru ánægðir með allt svo við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. Eftir fundinn var nauðsynlegt að slökkva þorstann í klúbbnum og áttum þar langt og afar athyglisvert samtal við Danina John Ytteborg og Thomas Hauger um leikhús, leiklistargagnrýni, hátíðina, fyrirkomulag o.fl. o.fl. John var sammála mér í því að þetta spjall okkar væri einn af hápunktum hátíðarinnar - og var þá meint sem fast skot á standardinn á umræðufundunum um leiksýningarnar.Alla vegana, ég er ekki ein af þeim sem dásama veðrið hér, þoli ekki svona hita ( og reyndar heldur ekki kulda - er semsagt afar fíntfölende) og þar sem ekkert sérstakt lá fyrir seinni partinn röltum við Silja inn undir parasól hjá íssala og gúffuðum í okkur slatta af kælandi ís meðan Toggi fór með Ármanni að kaupa sér miða á leik Mónakó og Auxerre á laugardaginn. Ég á reyndar erfitt með að skilja hvernig heill fótboltavöllur rúmast hér í þessu litla 33 þúsund manna borgríki sem virðist ríghalda sér utan í klettum og hæðum til að hreinlega detta ekki í sjóinn.
Nú, en eftir síestu og snurfus var stefnan svo tekin á Grace-leikhúsið hvar ljósin komu upp kl. 18 á fyrstu af 3 sýningum kvöldsins og leikhópur frá Túnis flutti okkur draugaleikinn ARWAH (Spirit) sem reyndist vera dáindis skemmtilegur og hæfilega trúðaður fyrir minn og margra annara smekk, þó var eins og sýningin lenti í ófæru þegar á leið og fór að spóla svolítið í sjálfri sér svo að endaspretturinn varð endasleppur. En líflegur draugagangur engu að síður.
Næst komu Írarnir sér fyrir á sviðinu og þar voru á ferð Ennis Players frá Dublin-svæðinu með forynjuleikinn The Dandy Dolls eftir írann George Fitzmaurice. Höfundur þessi lést 1963 og var aldrei viðurkenndur í lifanda lífi meðal annars vegna þess að hann neitaði að göfga fátækt því honum sýndist að fátækt og örbirgð drægi oftar en ekki fram það versta í fari manneskjunnar. Mögulega var hann heldur ekki eins brilljant höfundur og sumir vilja meina í dag. Nema hvað, á sviðinu birtist heimur skorts og þjáningar umvafinn fordæðum og forynjum ýmis konar. Sýningin náði til mín, feiknavel leikin, rétt og flott útlit og ég hefði verið til í að fylgjast áfram með þessu fólki þegar ljósin fóru út.
3ja og síðasta sýning kvöldsins var svo framlag Rússa sem að þessu sinni kom frá Surgut, 350 þús. manna borg í Vestur-Síberíu þar sem vetrarhörkur ráða ríkjum 9 mánuði ársins og kannski ekki skrýtið að sumir velji að æfa dans og leiklist daglega í 3 tíma, þó ekki væri til annars en að halda á sér hita. Hér var sumsé á ferðinni dansleikhús af betri gerðinni og færði okkur: BEZLEPITSA (Insensibility). Ég heyrði sagt eftir leikstjóra sýningarinnar að það síðasta sem hún segði við dansarana/ leikarana áður en sýning hæfist væri: Ekki dansa, leikið! Og það fannst; falleg sýning, full af gleði, húmor, yndisleik og þokka, svo ekki sé minnst á tónlistina sem var mikil og flott. Sumir harðjaxlar Hugleiks felldu tár.
Loksins 3 sýningar sem stóðu undir væntingum mínum um hvað svona hátíð á að snúast um.
Það bar að ððru leiti til tíðinda í dag að við Toggi borðuðum ostrur í fyrsta og síðasta skipti. Ekki það að okkur finnist þær vondar, heldur bara algerlega ástæðulaus matur.
Voilá, yfir til þín Ármann! 4/8 2005